Fara í innihald

Eymundur Jónsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eymundur Jónsson
Fæddur22. desember 1840
Dáinn1. apríl 1927
MakiHalldóra Stefánsdóttir
ForeldrarSigríður Jónsdóttir
Jón Höskuldsson

Eymundur Jónsson (22. desember 1840 á Hofi í Öræfasveit1. apríl 1927 í Haga á Höfn í Hornafirði) var járnsmiður og bóndi. Eymundur var nefndur Meyvant og bar það fram að 38 ára aldri (1878). Hann tók þá upp nafnið Eymundur og auglýsti í dagblöðunum. Foreldrar Eymundar voru úr Vestur-Skaftafellssýslu þau Sigríður Jónsdóttir og Jón "Landeyingur" Höskuldsson. Þau slitu samvistum, og fór þá Sigríður með Eymund og settst að á Skálafelli í Suðursveit (Austurland). Um 1856 fluttist hann að Árnanesi með Sigríði móður sinni (sem gerðist þá próventukona), til Stefáns alþm. Eiríkssonar.

Auk þess að vera bóndi og afkastamikill smiður þótti Eymundur góður læknir. Eymundur tók að sér að leiðbeina skipum inn um Hornafjarðarós. Eymundur sigldi til Kaupmannahafnar og lauk járnsmíðanámi þar 1866. Um haustið kvæntist hann Halldóru og hófu þau síðan búskap í Dilksnesi. Þorleifur í Hólum samtíðamaður hans lýsir honum svo:

„Eymundur var góður meðalmaður á hæð og svaraði sér vel, með skoljarpt hár og skegg, brúnamikill og ennishár; nefið hafið upp að framan, augu snör og fjörleg. Eymundur var vel gefinn, bráðgáfaður, skáldmæltur og snillingur á alla smíði, hvort heldur var í smiðju, við hefilbekkinn eða rennibekkinn. Yfirhöfuð virtist honum liggja allt í augun uppi, bæði bóklegt og verklegt. Formaður og sjósóknari var hann lengi, laginn við veiðar og skytta góð. Hann stundaði smáskammtalækningar langa tíð hér, því þá var hér læknislaust og var hann oft sóttur til kvenna barnsnauð og þótti heppnast vel. Eymundur var mikill hugsjónamaður. Mætti segja mér að hann hefði orðið uppfinningamaður hefði hann alist upp með stórþjóð. Eymundur var næsti nágranni okkar og tryggðarvinur.“

Eymundur kvæntist þann 6. október 1866, Halldóru Stefánsdóttur, f. 26. ágúst 1844 í Árnanesi, d. 25. jan. 1925 í Dilksnesi. Foreldar hennar voru Stefán Eiríksson alþingismaður og bóndi í Árnanesi og Guðrún Einarsdóttir frá Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum. Börn Eymundar og Halldóru voru mörg: a) Sigríður, f. 28. des. 1865, b) Stefán, f. 10. apríl 1867, c) Guðrún, f. 23. júlí 1868, d) Björn, f. 13. mars 1871, e) Björn, f. 16. nóv. 1872, f) Lovísa, f. 19. mars 1874, g) Sigurbergur, f. 26. ágúst 1875, h) Karl, f. 4. sept. 1876, i) Ingvar, f. 25. nóv. 1877, j) Ásmundur, f. 28. des. 1878, k) Jóhann, f. 7. maí 1880, l) Margrét, f. 4. júlí 1881, m) Margrét, f. 6. júní 1883, n) Stefán, f. 8. sept. 1884, o) Höskuldur, f. 1. júní 1886, p) Sigurður, f. 18. okt. 1888.

Halldóra kona hans felldi sig aldrei við Eymundar nafnið og kallaði hann ávalt Meyvant.

Í Vesturheimi byggði Eymundur sér bæ sem hann kallaði Skóga í Pine Valley á landamærum Kanada og Bandaríkjanna. Sagt var að þegar hann bjó í Ameríku hafi hann bæði tekið á móti fjölda barna af ýmsu þjóðerni og skírt þau líka, sama hverrar trúar foreldrarnir voru. Hann var oft fenginn til að halda predíkanir og ræður við hátíðleg tækifæri meðan hann bjó þar. Þau hjón og börn þeirra að undanskildum Stefáni fluttu svo heim aftur árið 1907. Ýmsa smíðagripi og smiðju Eymundar (sem reyndar er merkt MJ) má finna á byggðasafni Austur-Skaftafellssýslu.