Eyjólfur ofsi Þorsteinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eyjólfur ofsi Þorsteinsson (d. 19. júlí 1255) var einn af foringjum Sturlunga eftir að Þórður kakali hvarf úr landi 1250. Hann var frá Hvammi í Vatnsdal og kona hans, Þuríður, var óskilgetin dóttir Sturlu Sighvatssonar og frillu hans Vigdísar Gíslsdóttur. Kolfinna Þorsteinsdóttir, systir Eyjólfs, var líka ein af frillum Þórðar kakala.

Þegar Gissur Þorvaldsson sneri heim frá Noregi 1252, vildi hann sættast við Sturlunga, meðal annars með því að gifta Hall son sinn Ingibjörgu Sturludóttur. Eyjólfur ofsi bjó þá í Geldingaholti í Skagafirði en Gissur kvaðst ekki vilja hafa hann í héraðinu. Flutti hann þá að Möðruvöllum í Hörgárdal og virtist í fyrstu ætla að sætta sig við veru Gissurar í Skagafirði. Kona hans manaði hann þá í votta viðurvist að hefna föður síns, og safnaði Eyjólfur þá liði. Nóttina eftir að brúðkaupsveislunni lauk kom hann með flokk manna úr Eyjafirði og brenndi bæ Gissurar á Flugumýri. Kona Gissurar og synir brunnu þar inni en hann slapp sjálfur. Gissur leitaði hefnda eftir Flugumýrarbrennu en tókst ekki að ná Eyjólfi.

Eftir að Gissur hvarf til Noregs 1254, deildu Eyjólfur og Þorgils skarði um yfirráð yfir Skagafirði. Þeim lauk með Þverárfundi, bardaga á Þveráreyrum í Eyjafirði 19. júlí 1255, þar sem Eyjólfur féll.

Skáldsagan Ofsi eftir Einar Kárason (2008) er byggð á frásögn Sturlungu af brennunni og aðdraganda hennar, og vísar nafn bókarinnar til Eyjólfs ofsa. Þess ber þó að geta að bókin er skáldsaga en ekki sagnfræðiverk, og er t.d. persónulýsing Eyjólfs ofsa talsvert ólík frásögnum Sturlungu.