Evrasíska steppan

Evrasíska steppan er stór steppa í Evrasíu sem tilheyrir lífbelti tempraðs graslendis, gresju og kjarrs. Hún nær frá Ungverjalandi í vestri að Mansjúríu í austri, að mestu samfelld fyrir utan Pannóníusteppuna í Ungverjalandi.[1]
Steppuleiðin hefur verið helsta ferðaleiðin milli Evrópu og Austur-Asíu frá fornsteinöld og forveri Silkivegarins. Þar hafa orðið til hirðingjaveldi og mörg fornaldarríki eins og Xiongnu-veldið, Skýþar, Kimmerar, Sarmatar, Húnar, Sogdíana, Xianbei-veldið, Mongólaveldið og Göktürk-veldið.
Evrasíska steppan teygir sig um 8.000 km frá Dónárósum í Rúmeníu að vesturhluta Mansjúríu. Norðan við það er laufskógabeltið í Rússlandi og Norður-Asíu. Eftir því sem sunnar dregur verður loftslagið þurrara. Á tveimur stöðum mjókkar steppan, við suðurenda Úralfjalla og í Dsungaríu, þannig að hún skiptist í þrjá hluta, fyrir utan Pannóníusteppuna í vestri. Austast er Mongólíu-Mansjúríusteppan sem nær yfir stóra hluta Mongólíu og kínverska héraðsins Innri-Mongólíu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Scott, Geoffrey A. J. (10 janúar 1995). Canada's vegetation: a world perspective – Geoffrey A. J. Scott – Google Knihy. McGill-Queen's Press - MQUP. ISBN 9780773565098. Afrit af uppruna á 29 október 2013. Sótt 9 febrúar 2012.