Evhemerismi á miðöldum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Miðalda-evhemerismi er útfærsla af klassískum evhemerisma.

Þegar kristin trú varð hin ríkjandi trú á norðurlöndum fékk hin norræna kirkja að halda áfram því verki sem hófst í Rómaveldi hinu forna. Í krstinni trú eru skilin skýr á milli trúarbragðanna og iðkunar þeirra annars vegar og galdra hins vegar. Þetta eru skil sem ekki eru til staðar í heiðni. Þessi rétttrúnaðarsýn kirkjunnar á heiðin trúarbrögð er það sem að innan rannsóknarsögunnar kallast evhemerismi.

Hin miðalda kristna kirkja skýrði heiðin trúarbrögð út frá þessari kenningu. Kenningin inniheldur í raun tvær ólíkar útskýringar á heiðnum trúarbrögðum sem í þessari kristnu miðalda útgáfu hafa hér runnið saman í eina.

Í fyrsta lagi er litið á guðina sem raunverulegar manneskjur. Manneskjur sem að annaðhvort sjálfar hafa gefið sig út fyrir að vera guðir í lifanda lífi og krafist þess að vera tilbeðnir sem slíkir eða þá að tilbeiðsla þeirra hefur hafist eftir dauða þeirra. Oft er talið að þetta hafi verið þekktir menn í sínu samfélgi, til dæmis kóngar eða stríðshetjur. Til tilbeiðslunar heyrði að gera styttur af þessum guðum sínum.

Í öðru lagi hljóta þessar manneskjur að hafa verið í sambandi við djöfla til að öðlast þann mátt sem til krefst til að láta tilbiðja sig sem guð.

Þessar tvær útskýringar á heiðnum trúarbrögðum renna saman í eitt í evhemerisma miðalda á efirfarandi hátt: Þegar manneskjan dó sem að tilbeðin var sem guð í lifnda lífi, tók djöfulinn sem hún hafði gert samning við sér bólfestu í styttunni sem að tilbeiðendur hennar höfðu gert af henni. Á þennan hátt fór fólk að tilbiðja djöfla þegar það ætlaði að tilbiðja látna forfeður eða konunga.

Þetta var útskýring miðalda kirkjunnar á heiðni og vitaskuld var hún heimfærð á hina norrænu guði. Samkvæmt evhemerisma miðalda eru heiðnu guðirnir því djöflar og trúin á þá þar með villutrú.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Holtsmark, Anne, Studier í Snorres mytologi, Universitetsforlaget, (Oslo 1964).
  • Sawyer, Birgit, Sawyer, Peter, Medieval Scandinavia From conversion to reformation, c.a. 800-1500, The nordic series volume 17, University of Minnesota press (Minneapolis 1993).