Eugene Terre'Blanche

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eugene Ney Terre'Blanche var kunnur talsmaður kynþáttahyggju og nýfasisma í Suður-Afríku sem barðist á níunda áratug síðustu aldar fyrir áframhaldandi aðskilnaði hvítra og svartra

Eugène Ney Terre'Blanche (31. janúar 19413. apríl 2010) var afríkanskur Búi sem stofnaði samtökin Afrikaner Weerstandsbeweging (AWB) á tímum aðskilnaðar hvítra og svartra í Suður Afríku. Þau börðust hatrammlega gegn afnámi aðskilnaðarstefnunnar og hótuðu borgarastyrjöld í aðdraganda fyrstu frjálsu kosninganna í landinu. Terre'Blanche var um aldamótin dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir morðtilraun og afplánaði þrjú ár af dómnum. Allt til dauðadags var hann leiðtogi AWB og þrýsti á um sérstakt ríki hvítra Búa innan Suður-Afríku.

Bakgrunnur[breyta | breyta frumkóða]

Terre'Blanche fæddist árið 1941 á sveitabýli í Transvaal bænum Ventersdorp í Suður-Afríku. Afi hans barðist fyrir Búa í seinna Búastríðinu, og faðir hans var ofursti í landher Suður-Afríku.

Nafnið Terre'Blanche („Hið hvíta land“ eða „Hin hvíta jörð“ úr frönsku) má rekja til franska húganottans Estienne Terreblanche frá Toulon, sem kom til Höfðaborgar árið 1704.

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Afrikaner Weerstandsbeweging[breyta | breyta frumkóða]

Terre'Blanche barist á sjöunda áratugnum gegn því sem hann kallaði „frjálslynda stefnu“ í B.J. Vorster, þá forsætisráðherra í Suður-Afríku. Terre'Blanche stofnaði árið 1970 með sex öðrum Búum, samtökin Afrikaner Weerstandsbeweging (AWB). Samtökin náðu á sínum tíma 70.000 félagsmönnum af hægri væng hvítra íbúa Suður Afríku. Megináherslan var á kynþáttahyggju með yfirráðum hvíta kynstofnsins og nýfasisma.

Hótanir og hryðjuverk[breyta | breyta frumkóða]

Terre'Blanche leit á endalok aðskilnaðarstefnunnar sem uppgjöf við kommúnisma og hótaði borgarastyrjöld ef þáverandi forseti Suður-Afríku F. W. de Klerk afhenti völd til Nelson Mandela og samtaka hans Afríska þjóðarráðsins. Þegar De Klerk hélt fund í Ventersdorp heimabæ Terre'Blanche, árið 1991, stýrði Terre'Blanche mótmælum sem enduðu í átökum AWB við lögreglu og fjöldi fólks lét lífið. Árið 1993 stýrði hann meðal annars innrás í World Trade Centre í Kempton Park í Höfðaborg til að trufla samningaviðræður milli minnihlutastjórnar hvítra og leiðtoga svartra.

Merki samtakanna „Afrikaner Weerstandsbeweging“ (á ensku: Afrikaner Resistance Movement) eða AWB, sem Eugene Ney Terre'Blanche stofnaði 1973 til að berjast fyrir sjálfstæðu lýðveldi Afríkanskra Búa ("Volkstaat /Boerestaat") innan Suður Afríku, byggðum á gildum nýfasisma og yfirráðum hvíta kynstofnsins.

Átök og fangelsi[breyta | breyta frumkóða]

Terre'Blanche og samtök hans AWB voru mjög áberandi í suður-afrískum og alþjóðlegum fjölmiðlum á áttunda og níunda áratugnum. Samtökin biðu verulegan hnekki í átökum þegar sjálfsstjórnarríkið Bophuthatswana sameinaðist að fullu Suður Afríku. Tugir manna létu þá lífið. Hótun Terre'Blanche um borgarastríð gekk aldrei eftir.

Þann 17. júní 2001 var Terre'Blanche dæmdur í sex ára fangelsi, fyrir mjög alvarlega líkamsárás á starfsmann bensínstöðvar og morðtilraunar á öryggisverði árið 1996. Hann var látinn laus eftir þrjú ár.

Náðun[breyta | breyta frumkóða]

Eftir lok aðskilnaðarstefnu, leituðu Terre'Blanche og stuðningsmenn hans náðunar vegna árásarinnar á World Trade Centre, átakanna í Ventersdorp, og annarra gerða. Náðun var veitt „Sannleiks og sáttanefndinni“ svokölluðu sem sett var á fót þegar aðskilnaðarstefnan var afnumin.

Í mars 2008 boðuðu AWB samtökin endurkomu í stjórnmál Suður Afrískra stjórnmála. Ástæður þess voru meðal annars sagðar opinber spilling og hömlulaus glæpastarfsemi. Í júní sama ár var tilkynnt um stofnun æskulýðssamtaka AWB. Terre'Blanche var einn stofnandi þeirra.

Eugene Terre'Blanche var barinn til bana á búgarði sínum í norðvesturhluta Suður-Afríku 3. apríl 2010. Tveir voru handteknir fyrir að berja hann til dauða.

Skáldið Terre'Blanche[breyta | breyta frumkóða]

Terre'Blanche var einnig skáld. Verk hans voru á kennsluskrá í skólum í Natal héraði. Hann gaf einnig út á geisladisk safn ljóða sinna og nú síðast á DVD disk.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]