Erla Þórarinsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Erla Þórarinsdóttir (fædd 22. september 1955) er íslensk myndlistarkona. Hún vinnur jöfnum höndum með málverk, skúlptúra, ljósmyndir, hönnun og innsetningar.

Ævi og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Erla Þórarinsdóttir er fædd í Reykjavík 22. september árið 1955. Hún ólst upp á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð. Erla stundaði nám við Konstfack lista- og hönnunarháskólann í Stokkhólmi á árunum 1976 – 1981, með viðkomu í Gerrit Rietweld Akademie sem gestanemi í eina önn árið 1981. Hún byrjaði sinn feril í Stokkhólmi þar sem hún starfaði við myndlist, hönnun og gallerírekstur. Leiðin lá svo til New York þar sem hún bjó í rúmt ár, en 1985 flutti hún til Íslands og hefur haft aðsetur þar síðan.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Erla var í stjórn Nýlistasafnsins á árunum 1988 – 1989. Hún var í stjórn Norræna Myndlistabandalagsins á árunum 1993 – 1995. Á þeim tíma unnu þau að 50 ára afmæli bandalagsins og stóðu fyrir sýningu sem hét „Brunnar“ sem var sýnd í Norræna húsinu.

Árið 2002 var Erla tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir myndlist. Tveimur árum eftir þessa tilnefningu hélt Erla sýningu á Kjarvalsstöðum sem hét Corpus lucis sensitivus. Hugmyndinni að baki sýningunni lýsir Erla svo: „Corpus lucis sensitivus er sá ljósnæmi líkami sem hefur orðið til úr litardufti, olíu, silfri og tíma. Uppruni hans er í sameiginlegri undirvitund og í óefniskenndum þáttum þess sem gerist innra með okkur. Hann tilheyrir tilveru málverksins og er abstrakt og konkret og vill vera þjóðernislaus. Ég hef leyft honum að koma í ljós með viðveru, treyst á tilveru hans,ýmist þjappað og þétt eða fylgt honum eftir. Líkaminn er viðkvæmur, hann umbreytist í ljósi í tíma og ótíma. Við áhorf bregst hann við.“[1]

Erla bjó árið 2008 í borginni Xiamen í Kína. Hún var að vinna að nýju listaverki þar úti en ástæðan fyrir því að hún fór þangað var sú að Kínverjar eru komnir svo framarlega í steinsmíði.

Það eru þrjú grunnstef sem Erla vinnur með í verkum sínum en þau eru form, tími og samruni. Þórunn Erla Valdimarsdóttir sagði um myndlist Erlu að hún hefði „þróað með sér eigin stíl í málverki, bæði að formi og áferð. Í stað þess að láta sér liti nægja fór hún að stunda gullgerðarlist á striga.“[2]

Hún hefur sýnt verkin sín víða um heim, á Norðurlöndum og vítt og breitt um Evrópu, sem og í Bandaríkjunum og Kína.

Verk hennar eru í eigu ýmissa safna hérlendis en sem dæmi má nefna Kjarvalsstaði,Listasafn ASÍ og Nýlistasafnið.

Helstu sýningar[breyta | breyta frumkóða]

Samtímis, árið 2010 í Listasafni ASÍ.
Corpus lucis sensitivus, 2004 á Kjarvalsstöðum.
Tímasetningar, 2001 í Gerðarsafni .
Oxidasjónir, 1998 í Nýlistasafniinu.
Staðir, 1997 í Listasafni ASÍ.

Viðtökur gagngrýnenda[breyta | breyta frumkóða]

Eftirfarandi var skrifað um sýningu Erlu sem hét Corpus lucis sensitivus en hún var sýnd á Kjarvalsstöðum: „Hvað málverkin varðar er hver mynd sjálfstætt verk en saman skapa þær samtal á milli hins dýrslega og hins guðdómlega sem gefur sýningunni aukið gildi. Hafði ég talsverða ánægju af að lesa í og túlka táknmyndirnar sem Erla notar til að skapa þetta samtal.“[3] Um sömu sýningu sagði Þórunn Erla Valdimarsdóttir: „List Erlu er að því er ég fæ best séð djúpsæ og alvarleg. Hún afneitar flóknum formum æðri menningar og lífsögu, en heldur sig samt við hinn gamla striga. Hún heldur örlitlu einföldu myndmáli eftir sem nægir þó til að geta sagt skýra sögu, sem verður að stærri sögu þegar myndirnar tala saman. Með því að búa til svo einfalt myndmál hefur Erlu á sinn persónulega hátt tekist að afhugsa áhrif árþúsunda menningar. Í heimi Erlu hafa fáir litir og málmar verið fundir upp, og aðeins einföldustu form. Samt tala myndirnar algjörlega úr samtímanum. Eftir standa listgripir eða himintungl, corpus lucis sensitivus - ljósnæmar „skepnur“ sem kalla fram sterk minni úr heimi samvitundar.“[4]

Eftirfarandi var skrifað um verk Erlu sem voru á sýningu sem hét Búdda er Akureyri sem var sýnd árið 2008 á Listasafninu á Akureyri: „Verkin eru einföld og tær og sýna okkur hvernig fegurðin brýst fram í síbreytilegri endurtekningu, en það er einnig eitt af aðalsmerkjum Erlu. Hún lýsir tímanum og hringrás hans og leyfir honum að hafa mótandi áhrif á verk sín sem enduróma eilífðinni og staðfesta hvernig andinn getur tekið á sig hina kúnstugustu lögun.“[5]

Í sýningarskrá sem fylgdi sýningu Erlu „Samtímis“ í Listasafni ASÍ 2010 skrifar Ólafur Gíslason listfræðingur „Sýning Erlu er þrískipt þar sem við sjáum í gryfjunni skyggnimyndaseríu varpað á vegg með skyndimyndum frá ferðalögum hennar um stórborgir Indlands og Kína í bland við vesturlenskar stórborgarsvipmyndir. Í arinstofunni sjáum við ljósmyndir af geometrískum formum úr trúarlegri indverskri byggingarlist og í efri salnum óhlutbundin málverk á lérefti í félagsskap við ljósmynd af indverska guðinum Lakulish, sem mun vera einn af afkomendum Shiva og frumkvöðull indverskrar yoga-iðkunar. Sýningin er í raun og veru stefnumót hins varanlega og sértæka annars vegar og hins hverfula og hlutlæga hins vegar, en um leið er hún vitnisburður um stefnumót Erlu og hennar vestræna uppruna við austrið og austræna menningu. Sýningin gefur tilefni til að gaumgæfa þennan mismun og hvað þetta stefnumót ólíkra menningarstrauma getur leitt af sér.“

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Erla Thor, Skoðað 10. mars 2013.
  2. Erla Thor, Skoðað 10. mars 2013.
  3. „Spænsk fyndni, íslensk alvara“ á mbl.is (Skoðað 14. mars 2013).
  4. Erla Thor, Skoðað 10. mars 2013.
  5. „Erla Þórarinsdóttir“[óvirkur hlekkur]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Verk

  Þessi myndlistagrein sem tengist æviágripi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.