Ekrem İmamoğlu
Ekrem İmamoğlu | |
---|---|
![]() İmamoğlu árið 2024. | |
Borgarstjóri Istanbúl | |
Í embætti 27. júní 2019 – 23. mars 2025 | |
Forveri | Ali Yerlikaya (starfandi) |
Eftirmaður | Nuri Aslan (starfandi) |
Í embætti 14. apríl 2019 – 6. maí 2019 | |
Forveri | Mevlüt Uysal |
Eftirmaður | Ali Yerlikaya (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 4. júní 1970 Akçaabat, Trabzon, Tyrklandi |
Þjóðerni | Tyrkneskur |
Stjórnmálaflokkur | Lýðveldisflokkur alþýðunnar (CHP) |
Maki | Dilek Kaya (g. 1995) |
Börn | 3[1] |
Háskóli | Háskólinn í Istanbúl |
Undirskrift | ![]() |
Ekrem İmamoğlu (f. 4. júní 1970) er tyrkneskur stjórnmálamaður sem var borgarstjóri Istanbúl frá 2019 til 2025. İmamoğlu er meðlimur í Lýðveldisflokki alþýðunnar (CHP), stærsta stjórnarandstöðuflokki landsins. Hann var kjörinn borgarstjóri Istanbúl í sveitarstjórnarkosningum Tyrklands árið 2019 og endurkjörinn árið 2024. İmamoğlu er með vinsælli stjórnarandstöðuleiðtogum landsins og hefur verið álitinn mögulegur keppinautur Receps Tayyip Erdoğan um forsetaembætti Tyrklands.
Árið 2025 var İmamoğlu handtekinn og sakaður um spillingu og stuðning við hryðjuverkastarfsemi. Handtaka hans leiddi til fjöldamótmæla í Tyrklandi vegna tilfinningar stuðningsfólks İmamoğlu um að handtakan sé af pólitískum toga.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Ekrem İmamoğlu fæddist og ólst upp í Trabzon í norðausturhluta Tyrklands og er kominn úr trúaðri fjölskyldu. Hann útskrifaðist með meistarapróf í mannauðsstjórnun frá Háskólanum í Istanbúl. İmamoğlu var kjörinn formaður ungmennadeildar Lýðveldisflokks alþýðunnar (CHP) og varð virkur í borgarmálum í Istanbúl. Hann var valinn borgarstjóraefni flokksins í sveitarstjórnarkosningum Tyrklands árið 2019.[2]
İmamoğlu vann nauman sigur í borgarstjórnarkosningunum í Istanbúl á móti frambjóðanda Réttlætis- og þróunarflokksins (AKP), flokks Receps Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta. Frambjóðandi CHP sigraði einnig í höfuðborg landsins, Ankara.[3] Aðeins um 14.000 atkvæðum munaði á İmamoğlu og frambjóðanda AKP en Erdoğan neitaði frá fyrstu stundu að viðurkenna kosningaúrslitin. Erdoğan kærði úrslit kosninganna og fékk því framgengt að yfirkjörstjórn landsins ógilti þær og skipaði að þær skyldu endurteknar.[4] Þegar kosningarnar voru endurteknar vann İmamoğlu hins vegar aftur sigur og mótframbjóðandi hans viðurkenndi ósigur.[5]
Árið 2023 var İmamoğlu dæmdur í tæplega þriggja ára fangelsi og honum bannað að taka þátt í stjórnmálum fyrir að fara niðrandi orðum um opinbera embættismenn, en hann hafði látið þau orð falla að landskjörstjórnin í Tyrklandi væri skipuð fíflum. Áfrýjunarréttur hefur ekki tekið niðurstöðuna til umfjöllunar og því hefur hún ekki tekið gildi.[6] Lýðveldisflokkur alþýðunnar vann stórsigur í Istanbúl og fleiri borgum í sveitarstjórnarkosningum árið 2024 og İmamoğlu hélt því borgarstjórastólnum.[7]
Í mars árið 2025 felldi Háskólinn í Istanbúl niður háskólapróf İmamoğlu, en samkvæmt tyrkneskum lögum verður forseti landsins að hafa háskólagráðu. Þetta var fáeinum dögum áður en áætlað var að İmamoğlu yrði staðfestur sem forsetaefni CHP í næstu forsetakosningum Tyrklands. Þann 19. mars var İmamoğlu síðan handtekinn og hann sakaður um spillingu og um að hafa stutt Verkalýðsflokk Kúrdistan (PKK), sem er skilgreindur sem hryðjuverkasamtök af tyrkneska ríkinu.[8] Handtaka İmamoğlu leiddi til fjöldamótmæla í Tyrklandi þar sem stuðningsfólk hans sakar stjórn Erdoğans um pólitíska aðför gegn İmamoğlu til að koma í veg fyrir að hann geti boðið sig fram í forsetakosningum.[9] Nærri því 400 manns voru handtekin í mótmælum til stuðnings İmamoğlu þann 22. mars 2025.[10]
İmamoğlu var sviptur borgarstjóraembætti eftir handtökuna en Lýðveldisflokkur alþýðunnar hóf engu að síður atkvæðagreiðslu til að staðfesta hann sem forsetaefni flokksins og var atkvæðagreiðslan gerð opin öllum landsmönnum.[11]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Ekrem İmamoğlu'nun hayatı… Ekrem İmamoğlu kimdir, nereli ve kaç yaşında?“. Sozcu (tyrkneska). 28. desember 2018. Sótt 7 apríl 2019.
- ↑ Bogi Ágústsson (17. desember 2021). „Erfiðir tímar í Tyrklandi“. RÚV. Sótt 23. mars 2025.
- ↑ Atli Ísleifsson (17. apríl 2019). „Ljóst að Imamoglu mun stýra Istanbúl“. Vísir. Sótt 23. mars 2024.
- ↑ „„Við viljum stjórna Istanbúl"“. mbl.is. 9. maí 2019. Sótt 23. mars 2025.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (23. júní 2019). „Stjórnarflokkur Erdogan bíður ósigur í kosningum í Istanbúl“. Vísir. Sótt 24. september 2019.
- ↑ Ásgeir Tómasson (10. janúar 2023). „Helsti mótherjinn dæmdur í fangelsi“. RÚV. Sótt 23. mars 2025.
- ↑ „Tyrkir vilji hleypa nýju pólitísku andrúmslofti inn“. mbl.is. 2. apríl 2024. Sótt 23. mars 2025.
- ↑ Grétar Þór Sigurðsson (19. mars 2025). „Einn vinsælasti keppinautur Erdogans Tyrklandsforseta handtekinn“. RÚV. Sótt 23. mars 2025.
- ↑ „„Við búum í einræðisríki"“. Heimildin. 19. mars 2025. Sótt 23. mars 2025.
- ↑ Ólöf Ragnarsdóttir (23. mars 2025). „Á fjórða hundrað handtekin í Tyrklandi“. RÚV. Sótt 23. mars 2025.
- ↑ Þorgerður Anna Gunnarsdóttir (23. mars 2025). „Sviptur embætti borgarstjóra og tilnefndur forsetaframbjóðandi sama dag“. RÚV. Sótt 23. mars 2025.