Einar Þorleifsson hirðstjóri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einar Þorleifsson (d. 1452) var íslenskur hirðstjóri og sýslumaður á 15. öld.

Einar var sonur Þorleifs Árnasonar sýslumanns á Auðbrekku og víðar og konu hans, Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur Jórsalafara. Einar var í Danmörku veturinn 1444-1445 og hefur þá verið veitt embætti hirðstjóra norðan og vestan eftir lát Orms Loftssonar mágs síns. Hann var orðinn hirðstjóri 10. maí 1446 því þá lét hann dæma á Sveinsstaðaþingi Guðmund Arason á Reykhólum, mág sinn, útlægan vegna norðurreiðar hans 19 árum fyrr. Kann að vera að ástæðan fyrir þeim dómi hafi verið sú að Kristófer konungur vildi losna við Guðmund, sem hafði mikil viðskipti við Englendinga og var ríkasti og fyrirferðarmesti höfðingi landsins.

Eignir Guðmundar voru gerðar upptækar, hálfar til erfingja en hálfar til konungs, en settar í umsjá hirðstjóra og hirti Einar af þeim allar tekjur til dauðadags, en þá tók Björn bróðir hans við og keypti nokkru síðar hálfar eignirnar af konungi. Þeir gerðu systurdóttur sína arflausa með lagakrókum og sölsuðu sjálfir arfinn undir sig. Solveig dóttir Guðmundar og systurdóttir þeirra bræðra fékk ekkert og urðu af því deilumál sem entust út öldina.

Árið 1451 varð Torfi Arason (dáinn 1459) hirðstjóri norðan og vestan. Ef til vill hefur Einar látið af hirðstjóraembætti 1451, en hugsanlega hefur Torfi fyrst verið hirðstjóri sunnan og austan en fært sig á heimaslóðir eftir lát Einars. Hann var stórríkur og átti meðal annars um skeið höfuðbólin Auðbrekku, Geitaskarð, Reyki í Skagafirði og Hól í Bolungarvík. Ekki er vitað hvar hann bjó en líklega sat hann fyrst í Húnaþingi, á Auðkúlu í Svínadal eða á Stóru-Borg í Vesturhópi, en síðar á Hóli í Bolungarvík. Hann seldi Viðeyjarklaustri mestan hluta Vatnsleysustrandarinnar 1447 fyrir jarðir í Húnaþingi og keypt 1449 megnið af Bolungarvíkinni fyrir jarðir í Skagafirði.

Einar varð úti haustið 1452, þegar hann reið ásamt 12 öðrum yfir Sölvamannagötur á Laxárdalsheiði og lenti í miklu óveðri, komst þó lifandi að Stað í Hrútafirði og dó þar. Þessi atburður er í sumum heimildum sagður hafa orðið 1463 eða 1473 en víst er að Einar var látinn 1453. Hann var ókvæntur en átti að minnsta kosti eina laundóttur, Þuríði, sem varð kona Sigvalda langalífs Gunnarssonar kirkjusmiðs og amma Gissurar Einarssonar biskups.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir, 2. bindi, Reykjavík 1889-1904.
  • „Ráðgátan um Guðmund ríka. Lesbók Morgunblaðsins, 17. október 1998“.


Fyrirrennari:
Ormur Loftsson
Hirðstjóri
(14461450)
Eftirmaður:
Torfi Arason