Eftirmarkaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Líflegur eftirmarkaður fyrir verðbréf, er í Kauphöllinni í New York (enska: New York Stock Exchange eða NYSE), á Wall street.

Eftirmarkaður er fjármálamarkaður þar sem verslað er með verðbréf sem þegar hafa verið gefin út og seld til upphaflegra kaupenda.[1] Eftirmarkaður er aðgreindur frá frummarkaði[2] (sem einnig er kallaður „frumsölumarkaður“)[3] þar sem fyrsta útboð verðbréfa á sér stað[4] (enska: inital public offering eða IPO).[5] Á eftirmarkaði ganga ýmsar tegundir verðbréfa, sem þegar hafa verið gefin út, kaupum og sölu á milli fjárfesta, svo sem skuldabréf, hlutabréf og afleiður. Þá eru fjárfestar að kaupa verðbréf hver af öðrum, í stað þess að kaupa þau beint af útgefendum þeirra, eins og gert er á frummarkaði.[6] Viðskipti á eftirmörkuðum fara gjarnan fram í kauphöllum.

Þar sem frjáls markaður er við lýði, er eftirmarkaður mikilvægur fyrir hagkvæma ráðstöfun fjármagns í hagkerfinu.[7]

Saga eftirmarkaða[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti skipulagði eftirmarkaðurinn fyrir skuldabréf, og þá sérstaklega ríkisskuldabréf, varð til í fjármálabyltingu Bretlands á fyrri hluta 18. aldar.[8] Fyrr á öldum höfðu verðbréf ávallt verið frumstæð og óstöðluð.[9] Í fjármálabyltingu Bretlands á 18. öld átti sér stað fyrsta kerfisbundna þróun verðbréfa í átt að meira greiðsluhæfi og skiptanleika, þar sem ríkið beitti sér fyrst fyrir því að öll verðbréf skyldu vera stöðluð og samræmd, en það var mikilvæg forsenda þess að skipulagður eftirmarkaður fyrir skuldabréf gat orðið til.[10] Á þessum tíma varð einnig fyrst til skipulagður frummarkaður fyrir hlutabréf.[11]

Fyrsti skipulagði eftirmarkaðurinn fyrir hlutabréf myndaðist hins vegar ekki fyrr en á síðari hluta 19. aldar, þegar síðari iðnbyltingin átti sér stað, og stór hlutafélög og fjölþjóðafyrirtæki urðu veigamikil í hagkerfunum á Vesturlöndum.[12]

Skipulagður eftirmarkaður fyrir afleiður varð síðan ekki til fyrr en á síðari hluta 20. aldar, þegar tölvur og samskiptatækni fóru að umbylta fjármálum á heimsvísu. Tölvutækni var nauðsynleg til þess að sjá um þá flóknu útreikninga sem fylgja afleiðuviðskiptum, og á fullnægjandi hraða, sérstaklega þegar umfangsmikil viðskipti með afleiður fara fram á eftirmörkuðum.[13]

Eftirmarkaður á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Ísland var lengi vel langt á eftir öðrum löndum hvað fjármálaviðskipti varðar. Það var ekki fyrr en með stofnun Kauphallar Íslands árið 1985, og síðan með EES-samningnum árið 1994, sem skipulagður eftirmarkaður fyrir verðbréf varð til á Íslandi.[14] Í fyrstu fóru flest öll verðbréfaviðskipti fram á svokölluðum „búðarborðsmarkaði“[15] (enska: over-the-counter market, eða OTC),[16] og það átti einnig við um viðskipti á frummarkaði. Við slíkar aðstæður þurfa einkaaðilar, sem standa í verðbréfaviðskiptum, að koma sér í beint samband sín á milli að eigin frumkvæði, í staðinn fyrir að viðskiptin fari fram á skipulögðum markaði, eins og í kauphöll.[17] Líflegur eftirmarkaður varð því ekki til á Íslandi fyrr en á 10. áratugnum, en hann hafði orðið til áratugum áður, eða jafnvel öldum fyrr, í flestum öðrum iðnríkjum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Friðbjörn Orri Ketilsson (ritstj.), 2006, bls. 23.
  2. ACFE (e.d.), bls. 29.
  3. Hagfræðiorðasafn, 2010.
  4. ACFE (e.d.), bls. 29.
  5. Hagfræðiorðasafn, 2010.
  6. Friðbjörn Orri Ketilsson (ritstj.), 2006, bls. 23.
  7. Mankiw & Taylor, 2011, bls. 147-153.
  8. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
  9. Ferguson, 2009.
  10. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 3. þáttur: Fjármálabylting 18. aldar.
  11. Neal, 2000.
  12. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
  13. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
  14. Magnús Sveinn Helgason, 2010
  15. Magnús Sveinn Helgason, 2010, bls. 14.
  16. ACFE (e.d.), bls. 30-32.
  17. Magnús Sveinn Helgason, 2010, bls. 29-35.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • ACFE. (e.d.). Securities Fraud: Financial Markets and Investment Securities Geymt 4 maí 2015 í Wayback Machine. Association of Certified Fraud Examiners. Skoðað þann 8. maí 2015.
  • Ferguson, Niall (2009). Peningarnir sigra heiminn: fjármálasaga veraldarinnar (Elín Guðmundsdóttir þýddi á íslensku). Reykjavík: Ugla.
  • Friðbjörn Orri Ketilsson (ritstj.) (2006). Fjármálaskilgreiningar. Reykjavík: Vefmiðlun. ISBN 9979977302.
  • Hagfræðiorðasafn. (2010). Orðanefnd Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga tók saman; Brynhildur Benediktsdóttir, Jónína Margrét Guðnadóttir og Kirstín Flygenring (ritstj.) (2010). Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt orðasafn um hagfræði, viðskiptafræði og skyldar greinar. Reykjavík: Íslensk málnefnd. ISBN 997984213X.
  • Magnús Sveinn Helgason (2010). 5. Viðauki skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Reykjavík.
  • Magnús Sveinn Helgason. (2013). „Fjármalabyltingar og kauphallarhrun“. Útvarpsþáttur á RÚV. Sótt 10. maí 2015.
  • Mankiw, N. G. og Taylor, M. P (2011). Economics (2. útgáfa). Andover: Cengage Learning.
  • Neal, Larry. „How it all began: the monetary and financial architecture of Europe during the first global capital markets, 1648–1815“. Financial History Review. (7) (2000): bls. 117–140. Cambridge University Press.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]