Edward Misselden
Edward Misselden (1608-1654) var enskur kaupsýslumaður. Misselden er þekktastur fyrir framlög sín til kaupauðgisstefnunnar. Ásamt Thomas Mun er Misselden oft nefndur sem upphafsmaður fræðilegrar greiningar á hagkerfinu og raunhagkerfinu, fremur en afmarkaðra hagfræðilegra viðfangsefna sem fyrri fræðimenn höfðu fengist við. Mikilvægasta framlag Misselden til hagfræðinnar var hugmyndin um viðskiptajöfnuð sem muninn á útflutningi og innflutningi.
Kenningar sínar setti Misselden fram sem svar við hugmyndum Gerard de Malynes um orsakir efnahagskreppu sem reið yfir England í kringum 1620. Malynes taldi að gengi pundsins hefði verið fellt af erlendum (sérstaklega hollenskum) bankamönnum og gyðingum, í því skyni að grafa undan enskum útflutningi. Svarið við efnahagskreppunni var, samkvæmt Malynes, stórtæk íhlutun krúnunnar til að leiðrétta gengi gjaldmiðilsins. Misselden benti á að flæði góðmálma milli ríkja og gengissveiflur stýrðust af flæði viðskipta, ekki öfugt. Ríkið ætti að láta gengisskráninguna afskiptalausa, en einbeita sér að aðgerðum til að efla útflutning sem myndi sjálfkrafa leiða til aukins innflæðis góðmálma. Innsýn Misselden var sú að markaðir stjórnuðust af sjálfstæðum lögmálum, og lytu ekki veraldlegu boðvaldi konungs eða kaupahéðna.[1]
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Edward Misselden var staðgengill nýlendustjóra Ævintýramannafélagsins í Delft frá 1623 til 1633. Við brottför hans frá Englandi 1623 bauðst honum að starfa fyrir Breska Austur-Indíafélagið. Starfið fólst í sér fara til Amsterdam að semja um einkasamning við Hollendinga. Hann virðist hafa verið vel hæfur í stöðuna, hann var talinn vera almennilegur kaupmaður og kurteis. Samningaviðræður báru hinvegar engan árangur, einkum vegna óeðlilegrarar afstöðu Hollendinga. Þegar fréttir bárust um Amboyna-blóðbaðið í Suðaustur-Asíu komu upp nýir erfiðleikar og heilsu Misselden var einnig farið að hraka. Hann sneri þá aftur til Englands en fór þó aftur til Delft 1624 og starfaði þar í fjögur ár fyrir Austur-Indíafélagið í Amboyna-málinu. Honum var einnig falið að annast samningaviðræður fyrir hönd Kaupmannafélags ævintýramanna um lækkun opinbera gjalda á enskum klæðaefnum. Dudley Carleton, enski sendiherrann í Haag, taldi að honum hefði verið mútað af Hollendingum en engar sannanir fundust fyrir því. Hollenska stéttaþingið grunaði hann aftur á móti um að hafa teflt hagsmunum þeirra í hættu með því að senda leynilegar upplýsingar til Englands. Misselden misbauð þessi framkoma við sig og sleit samstarfi sínu við Breska Austur-Indíafélagið.
Misselden studdi áætlanir William Laud um að breyta helgisiðum enskra safnaða erlendis til samræmis við kirkjuna í Englandi. Félagsmenn Ævintýramannafélagsins í Delft voru mjög kirkjuræknir og John Forbes, prestur þeirra, hafði mikil áhrif. Tilraunir Misseldens til að knýja á um notkun Almennu bænabókarinnar varð til þess að honum var hótað brottrekstri. Þeir Forbes urðu harðir andstæðingar. Á endanum var honum bolað burt og félagið valdi í hans stað prestinn Samuel Avery.
Tveimur árum síðar (1635) reyndi Englandskonungur að koma honum að sem vararíkisstjóri í Rotterdam. Karl 1. sendi Ævintýramannafélaginu bréf þar sem hann óskaði eftir því að félagið svipti Robert Edwards stöðunni, en án árangurs. Að baki þessu lá sú staðreynd að Misselden hafði lofað Philip Burlamachi háum fjárhæðum fyrir þjónustu konungs, og í maí 1633 voru 13.000 pund enn ógreidd.
Misselden var í kjölfarið ráðinn í hin ýmsu verkefni hjá Ævintýramannafélaginu. Hann var í Hamborg 1650 að sinna erindum fyrir Ævintýramannafélagið og fékk góðar móttökur þar. Líklegt er að hann hafi á þessum tíma reynt að ná hylli þingsins, en án árangurs þar sem hann var sagður konungshollur.[2]
Helstu rit
[breyta | breyta frumkóða]Misselden gaf út tvö rit: The Free Trade: Or, the Meanes to Make Trade Florish (1622) var innlegg í umræður um ástæður kreppunnar 1618-1622, og ástæður útflæðis góðmálma frá Englandi. Misselden rakti vandræði ensks útflutningsiðnaðar til óhóflegs innflutnings, sem hafði verið fjármagnaður með gullútflutningi, sérstaklega af Austur-Indíafélaginu. Útflutningur gulls leiddi til skorts á peningum í umferð í Englandi, verðhjöðnunar og kreppu. Öflugri útflutningsiðnaður væri svarið. Misselden talaði einnig fyrir „fríverslun“ í riti sínu, en átti þar við frelsi kaupmanna til útflutnings frekar en frelsi til innflutnings. Misselden taldi að um innflutning, sérstaklega á munaðarvarningi, ættu að gilda strangar takmarkanir til að takmarka útflæði gulls.
Annað rit Misselden The Circle of Commerce: Or, the Balance of Trade (1623) var skrifað sem svar til Malynes. Í bókinni setti Misselden fyrst fram hugtakið „viðskiptajöfnuður“.[3]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Magnusson, Lars G., „Mercantilism“, A Companion to the History of Economic Thought, Blackwell Publishing Ltd, bls. 46–60, doi:10.1002/9780470999059.ch4
- ↑ Lee, Sidney, ritstjóri (1894), „Misselden, Edward“, Dictionary of National Biography, 1885-1900, Elder Smith & Co., 38. árgangur, sótt 23. september 2022
- ↑ „Misselden, Edward | Encyclopedia.com“. www.encyclopedia.com. Sótt 16. september 2022.