Fara í innihald

Drekkingarhylur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hylurinn um 1900.
Getur líka átt við Drekkingarhyl í Bessastaðaá.

Drekkingarhylur var aftökustaður í Öxará á Þingvöllum. Drekkingarhylur er rétt við brúna, þar sem Öxará fellur austur úr Almannagjá. Í Drekkingarhyl var konum drekkt fyrir dulsmál og blóðskömm.

Ekki var um fornan sið að ræða því sagt er að fornmenn hafi iðkað sund í hylnum um þinghaldið og konur þvegið þvotta. Þetta var fyrir kristnitöku og áður en dauðadómar voru leiddir í lög. Það var ekki fyrr en eftir siðbót Lúthers að tekið var að drekkja konum í hylnum. Eftir það fékk hann sitt núverandi nafn. Ekki er vitað hvað hann kallaðist áður. Stóridómur sem var samþykktur á Íslandi árið 1564 kvað fyrst á um dauðarefsingu fyrir blóðskömm. Karlar voru einnig líflátnir (hálshöggnir) á þinginu fyrir sömu brotin. Á kynningarspjaldi við hylinn má lesa að 18 konum hafi verið drekkt í hylnum, fyrst 1618 en síðast 1749. Þar eru nöfn kvennanna listuð upp en dauðasök þeirra var oftast tengd óleyfilegum barneignum, kynferðismálum eða galdri. Til er gömul lýsing á aftökuaðferðinni við Drekkingarhyl: „Sökudólgurinn var bundinn í poka sem steypt var yfir höfuð honum og tók niður á legg. Reipi sem böðullinn hélt í handan hylsins, var bundið um konuna. Eftir að hún hafði þannig staðið um stund var henni kippt í vatnið og haldið niðri með stöng uns hún var dauð.“ Drekkingarhylur var hátt í 100 m langur og 15 m á breidd. Nú er hann minni en áður var því möl og grjót hefur borist í hann bæði af náttúrulegum ástæðum og einnig samhliða vega- og brúargerð á síðari tímum.

  • Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson 2010. Öxará. Náttúrufræðingurinn 90. árg. bls. 5-15.
  • Björn Th. Björnsson 1994. Þingvellir, staðir og leiðir. Mál og menning, Reykjavík, 195 bls.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.