Dátar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dátar
Dátar í byrjun
Dátar í byrjun
Upplýsingar
UppruniReykjavík
Ár1965-1967
Stefnurbít
Dátar spila í Lídó 1965.
Dátar spila í Hlégarði.
Útitónleikar Dáta 17. júní 1966 við Vesturver, Aðalstræti 6.
Í myndatöku fyrir plötuumslag.
Dátar í Ríkisútvarpinu að taka upp fyrri plötuna.
Rúnar Gunnarsson í stafni á ferð um landið með Ingvari Haukssyni bílstjóra og reddara.
Hljómsveitin Hollies kom í bæinn.
Dátar á ferð um landið með Þorstein Eggertsson á milli sín.
Við Valhöll Eskifirði kvöddu þá ungir aðdáendur áður en lagt var í hann.
Frétt í Vísi um seinni plötu Dáta.
Á seinni plötu Dáta var gítarleikarinn Magnús Magnússon.

Dátar var íslensk hljómsveit sem gaf út tvær hljómplötur á ferli sínum hjá SG - hljómplötum. Hljómsveitin Dátar var stofnuð árið 1965. Hljómsveitina skipuðu: Rúnar Gunnarsson, söngur og rythma-gítar; Hilmar Kristjánsson, sóló-gítar; Jón Pétur Jónsson, bassi og söngur; Stefán Jóhannsson, trommur. Hljómsveitin starfaði með breytingum frá 1965 til 1967.

Sagan[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1963 gekk Bítlatíminn í garð með breyttum viðhorfum ungu kynslóðarinnar til lífsins og tilverunnar. Þetta birtist hvað sterkast í tónlistinni sem losnaði úr viðjum viðtekinna siða eldri kynslóða þegar bítið tók við. Bítið einkenndist af einföldum grípandi laglínum og textum fluttum af rafmögnuðum hljóðfærum; sóló-gítar, bassa, rythma gítar, trommum og söng. Þessi blanda sem breska hljómsveitin The Beatles á heiðurinn af, breytti heiminum til frambúðar.

Útlit[breyta | breyta frumkóða]

Hinn fágaði stíll Bítlana í útliti og framsetningu á upphaf sitt í bresku „Mods“ hreyfingunni sem var hópur ungs fólks í Bretlandi sem hittist á kaffihúsum og hlustaði einkum á jazz þess tíma. Þessu „trendi“ fylgdi yfirvegaður en ákveðinn stíll í útliti og háttum. Stíll sem krafðist sér einkenna og fágunar. Þessa blöndu nýttu Dátar sér til hins ítrasta í ímyndasrköpun sinni.

Dátar verða til[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndin um Dáta var útpæld, og líklega er þetta fyrsta íslenska hljómaveitin sem var beinlínis sköpuð til að vekja athygli og slá í gegn. Maðurinn á bak við það var Þráinn Kristjánsson (þáverandi formaður Jazzklúbbs Reykjavíkur), sem gerðist umboðsmaður hljómsveitarinnar eftir að hafa hjálpað Hilmari bróður sínum að koma henni á legg. Þráinn fékk Þóri Baldursson til að æfa hljómsveitina og kom henni á sporið fyrstu mánuðina. Í fyrstu vöktu Dátar athygli fyrir frumlegan klæðaburð, en þeir voru allir klæddir í búninga sem líktust amerískum einkennisbúningum sjóliða.

Meðlimir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu sporin[breyta | breyta frumkóða]

Alþýðublaðið segir frá því sunnudaginn 27. júní 1965 að ný hljómsveit taki til starfa þann dag. Nafn hljómsveitarinnar sé Dátar og að hún leiki í Silfurtunglinu við Snorrabraut frá klukkan tvö til fimm. Meðlimir hafi komið sér upp einkennisbúningum í anda dáta eða sjóliða ameríska flotans sem þeir íklæðist. Blaðið segir enn fremur að hljómsveitin hafi æft stíft að undanförnu undir stjórn Þóris Baldurssonar úr Savanna tríóinu og séu tilbúnir í slaginn með öll nýjustu „Beat“ lögin. Enn fremur kemur fram í máli hljómsveitarmeðlima að þeir muni alltaf gera sér far um að spila nýjustu og vinsælustu lögin á vinsældarlistunum.

Spilamennska[breyta | breyta frumkóða]

Blaða og þáttagerðarmaðurinn Andrés Indriðason var með pistil um tónlist í Vikunni á þessum árum sem nefndist; „Eftir eyranu“. Í febrúar 1966 segir hann meðal annars þetta um hljómsveitina.

„Dátar hafa að undanförnu leikið í Lídó og sankað þar að sér álitlegu aðdáendaliði. Þegar við spyrjum þá, á hvaða aldri aðdáendurnir séu, segja þeir; 15 til 18 ára. Og fyrir unglingana leika þeir auðvitað þessa svokölluðu bítlamúsik og jenka inn á milli, en þess sakar ekki að geta, að Dátar urðu fyrstir til að kynna íslenzkum unglingum jenka dansinn. Þeir segjast kæra sig kollótta um valsa og tangóa en jazzmúsík á hins vegar talsverðu fylgi að fagna hjá þeim.“[1]

Dátar á hljómplötu[breyta | breyta frumkóða]

Benedikt Viggósson blaðamaður skrifaði fyrir unga fólkið í vikublaðið Fálkann og nefndi þátt sinn; „Í sviðsljósinu“. Hann skrifar um Dáta í blaðið 21. mars 1966 um útgáfu á fyrstu plötu Dáta.

"Þriðjudaginn 22. febrúar 1966, klukkan 20:30 voru fjórmenningarnir mættir í stúdíó 2 á 6. hæð Fiskifélagshússins, þar sem Ríkisútvarpið er til húsa, og klukkan 21:05 voru fyrstu tónarnir af laginu Cadillac komnir inn á segulbandið hjá upptökumeistaranum, Pétri Steingrímssyni, en honum til aðstoðar var Jón Þór Hannesson, fyrrverandi bassagítarleikari. Á þessari hljómplötu verða fjögur lög, en þau eru: Cadillac Hljóðdæmi með hinum upprunalega enska texta, en lag þetta var geysilega vinsælt í Danmörku, sungið af þarlendri hljómsveit, sem nefnir sig Lollipops. Hin þrjú eru eftir Þóri Baldursson í Savanna, Leyndarmál Hljóðdæmi og Kling Klang Hljóðdæmi, en þriðji textinn var ekki ákveðinn, er þessi grein var rituð. Textarnir eru eftir Ólaf Gauk og Þorstein Eggertsson, en hann samdi einmitt textann við hið hugljúfa lag Þóris, Ást í meinum, sem Savanna tríóið söng inn á hljómplötu. Útsetningu á íslenzku lögunum þrem annaðist Þórir sjálfur."[2]

Platan sló rækilega í gegn og Dátaæði byrjaði. Allir vildu eiga útvíðar buxur og allir vildu fá Dáta til að spila á böllum. Dátar voru orðnir vinsælli en sjálfir íslensku bítlarnir Hljómar og þá var mikið sagt. Þetta kostaði stanslaust spil og ferðalög vítt og breytt um landið og það tók á ungar taugar. Nokkru eftir útkomu fyrstu plötunnar hætti Hilmar í hljómsveitinni en í stað hans kom inn Magnús Magnússon.

Stjörnur[breyta | breyta frumkóða]

Fréttablaðið var með upprifjun um Dáta í mars 1997. Þar var meðal annars viðtal við Þorstein Eggertsson um félaga hans og vin Rúnar Gunnarsson.

"Rúnar var stjarnan í hljómsveitinni, hafði mikla útgeislun og gekk í augun á stelpunum. Hann var í sambúð á þessum tíma, mjög ástfanginn og ekki að spá mikið í aðrar stelpur. Hann var sýnd veiði en ekki gefin og lenti stundum í vandræðum vegna ágangs og gat stundum ekki flutt lögin sín vegna þess að hangið var á löppum hans af æstum kvenkyns aðdáendum.“ Þorsteinn segir að út á við hafi Rúnar verið glannalegur og kæruleysislegur töffari sem talaði Keflavíkurmállýsku, sem þá var í tísku, en að undir niðri hafi hann ekki verið eins öruggur með sig og hann vildi vera láta."[3]

Allar vildu meyjarnar eiga þá[breyta | breyta frumkóða]

Í febrúar 1966 kom breska hljómsveitin Hollies hingað til lands og hélt tónleika í Háskólabíó. Hinir geysivinsælu Dátar og hljómsveitin Logar frá Vestmannaeyjum fengu þann heiður að vera upphitunarbönd fyrir „Beat“ hljómsveitina frá Manchester. Dagblaðið Tíminn skrifaði meðal annars þetta um tónleikana.

"Hljómleikar þessir hófust á því að tvær íslenzkar „beat“ hljómsveitir, Dátar og Logar, frömdu þar listir sínar tilheyrendum til óblandinnar ánægju. En þegar Hollies-piltarnir birtust, sýndu viðstaddir sína innri gleði og fögnuðu ódulin með því að rísa úr sætum.“ „Þegar kom að síðasta laginu náði múgsefjunin algeru hámarki og það skipti engum togum, hljómleikagestirnir risu á fætur allir sem einn maður og æddu að sviðinu líkt og í flóðbylgju. Verðir laganna reyndu að mynda varnarvegg, sem jafnhraðan brotnaði niður.“ „Meiri hluti þessara eldlegu aðdáenda var kvenkyns og reyndu stúlkurnar óspart að komast í snertingu við Hollies piltana. Þeir virtust kunna þessu vel og tóku í framréttar hendurnar, en Graham Nash varð hált á þessu, því að stúlkurnar gerðu sér lítið fyrir og kipptu honum niður af sviðinu. Hann komst þó við illan leik til félaga sinna, en sjónarvottar sögðu, að hann hefði mátt þakka fyrir að halda buxunum. “[4]

Dátar gera víðreist[breyta | breyta frumkóða]

Það var farið hljómleikaferð um landið sumarið 1967. Hljómsveitin spilaði á sveitaböllum víða um land og félagsheimilin voru þrædd hvert af öðru. Dátum til halds og trausts í þessum ferðum sumrin 1966 og 1967 var textaskáldið Þorsteinn Eggertsson sem var bæði hirðskáld Dáta og PR maður eða eins og Þorsteinn segir sjálfur: „Hlutverk mitt í ferðunum var að semja texta - og skrifa bréf til óskalagaþáttar Útvarpsins (til að fá plöturnar þeirra - sem voru bara tvær í allt síðara sumarið) sem mest spilaðar.“ Alþýðublaðið fjallaði um ferðalag Dáta og sagði meðal annars.

"Dátar héldu sinn fyrsta dansleik í Víðihlíð í Húnavatnssýslu og voru allir aðilar ánægðir með kvöldið. En þá gerðust menn nokkuð þaulsetnir í bifreiðinni, því ekið var alla leið í Breiðablik á Snæfellsnesi og þar var slegið upp balli á sunnudagskveldi.

Á mánudögum eru ekki haldin „böll" hvar sem er, en eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að brenna til Akureyri, enda Alþýðuhúsið tilvalinn staður til mánudagsdansleiks. Og piltarnir sluppu ekki samdægurs frá Akureyringum, því áfram var dansinn stiginn þriðjudag og miðvikudag og voru undirtektir gestanna slíkar, að rætt var um, hvort ekki væri athugandi að setjast að á staðnum fyrir fullt og allt. En þar sem Dátum er nú vel við alla landsmenn, svona almennt, hvar sem þeir búa, þá þótti ekki tilhlýðilegt að láta Akureyringa sitja eina að krásunum.

Á fimmtudegi var ekið til Siglufjarðar og að sjálfsögðu haldinn dansleikur í Hótel Höfn, Dátar fengu ágætis móttökur og ekki sízt Stefán, en hann er Siglfirðingur í húð og hár. Næst á dagskrá var Ólafsfjörður og kom bæjarstoltið upp í fáeinum unglingum, svona í lokin og kannski ekki að undra, því dansleiknum var ekki framlengt lengur en um hálftíma.

Laugardagskvöldið 15. júlí var haldinn dansleikur í Skúlagarði, Kelduhverfi. Þetta var fjörugasti dansleikur og voru þingeysku konurnar svo aðgangsharðar, að hljómsveitin var ekki vinnufær fyrr en kl. 10 kvöldið eftir, en þá léku Dátar í Hlöðufelli á Húsavík. Þar sem hljómsveitin var búin að leika stanzlaust á níu dansleikjum í ferðinni, eða á hverju einasta kvöldi síðan lagt var af stað, var ákveðið að taka tveggja kvölda frí að loknum dansleik á mánudagskvöldinu í Alþýðuhúsinu á Akureyri. Fyrra frí kvöldið 18. júlí fóru Dátar ásamt fylgdarliði sínu í Sjálfstæðishúsið á Akureyri, snæddu þar stóran kvöldverð og skemmtu sér þar um kvöldið. Dátum bar öllum saman um að hljómsveit Sjálfstæðishússins á Akureyri væri sérlega góð, en það er hljómsveit Ingimars Eydal. Á meðan Dátar voru á Akureyri, var gist á Hótel KEA, og þar er þjónusta öll alveg til fyrirmyndar, að sögn Dáta.

Að loknu tveggja daga fríi í höfuðstað Norðurlands var brennt austur á firði, en það átti að vera lokaþáttur ferðalagsins. Fyrsti austfjarðadansleikurinn var haldinn í Egilsbúð, Neskaupstað. Sá næsti í Valhöll, Eskifirði, og síðasti austurlandsdansleikurinn og jafnframt síðasti dansleikur ferðarinnar var haldinn í hinu nýja félagsheimili héraðsbúa á Egilsstöðum, Valaskjálf. “[5]

Seinni platan[breyta | breyta frumkóða]

Andrés Indriðason á Vikunni skrifaði gagnrýni um seinni plötu Dáta í þætti sínum; „Eftir eyranu“. Þar kemst hann meðal annars að raun um að seinni platan sé mun betri en sú fyrri og hljómsveitin sé í góðum gír.

"Lögin á plötunni heita Fyrir þig, Hvers vegna, Gvendur á eyrinni og Konur. Texta við öll lögin hefur Þorsteinn Eggertsson gert og hefur hann leyst það hlutverk af hendi með mestu prýði. Hann kemst víða skemmtilega að orði, eins og t. d. þegar hann segir frá kvenpeningnum í Kína, en þar eru konurnar svo margar, „að kringum jörðina þær næðu, ef þær stæðu í röð. ..."

Á einum stað í sama texta skýtur upp kollinum skemmtilegt suðurnesjaslang, þ. e. orðatiltækið „að pæla í e-u". Kannski ekki óeðlilegt, þar eð Þorsteinn óx úr grasi suður með sjó. Þorsteinn er án efa í hópi okkar beztu textagerðarmanna, og vonandi eiga fleiri eftir að njóta góðs af hæfileikum hans.

Þessi hljómplata verður án efa til þess að auka hróður Dáta um allan helming, og er það vel, því að hljómsveitin á góðar víðtökur skilið eftir að hafa sent frá sér svo ágæta plötu. Það er einhver ferskur blær yfir öllu gumsinu, og fyrir það hengjum við medalíu með stjörnu og hala í barminn á Rúnari og hinum „dátunum".“[6]

Gvendur á Eyrinni, hljóðdæmi Hljóðskráin "Datar-Fyrir_%C3%BEig.ogg" fannst ekki Hvers vegna, hljóðdæmi Konur, hljóðdæmi

Segja má að lagið Gvendur á Eyrinni af seinni plötu Dáta sé fyrsta íslenska popplagið sem sameinar allt það sem gott popplag þarf til að lifa og verða klassískt. Gott lag og ljóð sem er einfalt í uppbyggingu en um leið innihaldsríkt og gefandi, sannkallað „bít“ lag. Ljóð Þorsteins um líf hins venjulega verkamanns þar sem ekkert er sjálfgefið en lífið stöðug óvissa og hark ásamt lagi Rúnars sameina þessa þætti. Þegar platan kom út voru samt ekki allir á því að svona lag með slíku innihaldi ætti upp á pallborðið hjá ungu kynslóðinni.

PÚKÓ TEXTI[breyta | breyta frumkóða]

„Kæra Vika!

Við erum hérna tvær stelpur og erum báðar ægilegir aðdáendur Dáta. Núna nýlega er nýjasta platan þeirra loksins komin á markaðinn. Þar er eitt lag sem okkur finnst svaka næs, en textinn við það er svo púkalegur og gamaldags, að við erum alveg rasandi. Hann er um einhvern kall á Eyrinni og er svo dreifbýlislegur, að hann gæti verið frá því árið sautján hundruð og súrkál. Önnur okkar á fimmtuga frænku og hún syngur oft eitthvert lag sem heitir Bjössi á mjókurbílnum. Þessi texti um Gvend á Eyrinni er nákvæmlega eins. Hvernig dettur Dátum í hug að setja svona texta við verulega sætt og næs bítlalag?

Bless. Tvær með Dátum.

(Vikumenn svara)

Við höfum því miður ekki heyrt þetta lag, en getum samt ímyndað okkur að Gvendur karlinn á Eyrinni eigi lítið erindi inn í nýmóðins bítlalag. Hér hefur Dátum orðið á í messunni. Þeir hafa ruglað saman nýja og gamla tímanum, en milli þeirra er heilt hyldýpi, eins og allir vita. “[7]

Textar Þorsteins Eggertssonar[breyta | breyta frumkóða]

Teiknarinn, blaðamaðurinn, rokkarinn og textahöfundurinn Þorsteinn Eggertsson á langan og farsælan ferill í popp heimum. Þar hefur hann komið víða við sem blaðamaður skrifandi greinar um tónlist, sem teiknari við gerð plötuumslaga og ljóðskáld á flestum hljómplötum íslenskra poppara.

Á fyrri fjögurra laga plötu Dáta (svokölluð EP eða Extended play plata) á Þorsteinn heiðurinn að textanum við hið ljúfa ástarlag „Leyndarmál“ sem Þórir Baldursson samdi. Lagið sló rækilega í gegn og gerði Dáta að vinsælustu hljómsveit Íslands 1966.

Þegar seinni platan kom út 1967 átti Þorsteinn textana við öll fjögur lögin sem Rúnar Gunnarsson samdi: Gvend á Eyrinni, Fyrir þig, Hvers vegna og Konur. Sú plata fékk einróma lof gagnrýnenda og voru flestir á því að lagið um Gvend á Eyrinni væri gott lag með góðum texta og fullboðlegt í poppheimum.

Þorsteinn sem var vinur og félagi Rúnars fór með hljómsveitinni í spilaferðir um landið sumrin 1966 og 1967. Hlutverk hans í þessum ferðum var var að skrifa pistla sem kynningarfulltrúi hljómsveitarinnar fyrir blöð og tímarit ásamt því að hvetja Útvarpið (RÚV) til að spila Dáta sem mest.

Guðirnir deyja ungir[breyta | breyta frumkóða]

Stuttu eftir útkomu fyrri plötu Dáta hætti gítarleikarinn Hilmar en við stöðu hans tók Magnús Magnússon. Hann spilaði með þeim um hríð en Magnús var einfari, ekki allra og nokkru eftir útkomu seinni plötunnar tók hann eigið líf. Þessi hörmulegi atburður fékk mjög á meðlimi Dáta sem ákváðu þó að halda áfram. Við tók hljómborðsleikarinn Karl Sighvatsson sem fór með þeim um landið að skemmta á dansleikjum sumarið 1967. Þegar þeirri vertíð lauk sagði Kalli skilið við hljómsveitina og í kjölfarið lögðu Dátar upp laupana.

Rúnar, sem þá var búinn að stofna fjölskyldu og var orðinn ábyrgur faðir gekk til liðs við hljómsveit Ólafs Gauks, en álag Dátatímans, móðurmissir og vitneskja um óöruggan uppruna tóku sinn toll og árið 1972 féll hann fyrir eigin hendi. Hilmar valdi líka þessa leið árið 1978 en Karl Sighvatsson lést í bílslysi árið 1991. Stefán trommuleikarinn lést svo úr krabbameini árið eftir.

Örlög þessarar hljómsveitar eru því furðulega skrýtin. Hljómsveitin hafði alla burði til að leggja heiminn að fótum sér en flosnaði upp eftir aðeins tvö ár. Dauðinn virtist hafa tekið völdin og af þessum sex meðlimum Dáta frá 1965 – 1967 er aðeins Jón Pétur einn á lífi í dag.

Útgefið efni[breyta | breyta frumkóða]

SG hljómplötur[breyta | breyta frumkóða]

45-snúninga plötur.

  • SG 512 - Dátar - Leyndarmál - Lag - texti: Þórir Baldursson - Þorsteinn Eggertsson, Alveg ær - Lag - texti: Þórir Baldursson - Ólafur Gaukur, Kling - Klang - Lag - texti: Þórir Baldursson - Ólafur Gaukur, Cadillac - Lag - texti: Brown, Gibson, Johnson, Mallet - 1966
  • SG 520 - Dátar - Fyrir þig - Lag - texti: Rúnar Gunnarsson - Þorsteinn Eggertsson, Hvers vegna - Lag - texti: Rúnar Gunnarsson - Þorsteinn Eggertsson, Gvendur á Eyrinni - Lag - texti: Rúnar Gunnarsson - Þorsteinn Eggertsson, Konur - Lag - texti: Rúnar Gunnarsson - Þorsteinn Eggertsson - 1967

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Vikan 6. tbl. febrúar 1966 - Eftir eyranu - Andrés Indriðason:
  2. Fálkinn 11.tbl - 21. mars 1966 - Í sviðsljósinu Benedikt Viggósson:
  3. Fréttablaðið 10. maí 2003 - jakob@frettab1adid.is Heimild: meðal annars Mannlíf, mars 1997:
  4. Tíminn 9. febrúar 1966, bls,6 - Benedikt Viggósson:
  5. Alþýðublaðið 2. ágúst 1967, bls 7.:
  6. Vikan 32. tbl, 10. ágúst 1967, bls 7.-Eftir eyranu - Andrés Indriðason:
  7. Vikan 29. tbl, 1967:

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]