Fara í innihald

Cognac-bandalagsstríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl 5. keisari

Cognac-bandalagsstríðið var stríð milli ríkja Karls 5. keisara, einkum hins Heilaga rómverska ríkis og Spánar, og Cognac-bandalagsins sem í voru Frakkland, Páfaríkið, Lýðveldið Feneyjar, Lýðveldið Flórens, England og Hertogadæmið Mílanó. Stríðið stóð frá 1526 til 1530. Bandalagið var myndað að undirlagi Klemens 7. páfa í þeim tilgangi að hrekja Karl frá Ítalíu. Karl hafði unnið sigur á Frökkum í Fjögurra ára stríðinu og ógnaði nú valdi páfa.

Karl hélt með her sinn inn í Langbarðaland og lagði Mílanó brátt undir sig. Hann hélt svo til Rómar þar sem páfi kom litlum vörnum við og neyddist til að flýja borgina. Hinrik 8. Englandskonungur og Frans 1. Frakkakonungur gerðu þá með sér sáttmála um að snúa bökum saman gegn Karli. Franski herinn settist um Napólí en sjúkdómar urðu til þess að hann hörfaði þaðan. Andrea Doria, bandamaður Frans, snerist gegn honum og her hans beið ósigur í orrustunni um Landriano 21. júní 1529. Hann hóf því friðarsamninga við Karl. Friðarsamningarnir endurómuðu að stórum hluta skilyrði Madrídarsamningsins þremur árum áður. Frans lét Karli eftir héruðin Artois, Flandur og Tournai og þurfti að greiða tvær milljónir gullskúta í lausnargjald.

Nú voru því aðeins Feneyjar, Flórens og páfi eftir gegn Karli. Klemens og Karl sömdu frið í Bologna þar sem páfi lofaði að krýna Karl keisara gegn því að fá borgirnar Ravenna og Cervia sem Feneyjar neyddust til að láta af hendi, auk þeirra landsvæða sem lýðveldið átti í Apúlíu. Francesco 2. Sforza fékk völdin í Mílanó aftur gegn greiðslu 900.000 skúta. Eina andstaðan við Karl var nú í Flórens sem hann settist um haustið 1529. Þann 3. ágúst 1530 vann keisaraherinn sigur á her Flórens í orrustunni við Gavinana og tíu dögum síðar gafst borgin upp. Klemens gerði þá frænda sinn (sumir segja launson) og væntanlegan tengdason keisarans, Alessandro de' Medici, að hertoga.