Fara í innihald

Claus van der Marwitzen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Claus van der Marwitzen eða Kláus von Marwitzen (nafnið er raunar skrifað á ýmsa vegu í heimildum, svo sem Claues van der Merwytze, Claus von Marvitz o.fl) var þýskur eða hollenskur aðalsmaður sem var hirðstjóri á Íslandi á 16. öld.

Hirðstjórabréf Marwitzen var gefið út í Haderslev í Danmörku á jóladag 1535. Hann kom til Íslands 1536 og sat næstu tvö ár á Bessastöðum en sigldi héðan vorið 1538 og skildi Diðrik frá Mynden eftir sem fógeta sinn. Marwitzen kom aftur vorið 1539 og hafði þá fengið hjá konungi umboð yfir Viðeyjarklaustri og allar jarðir þess og skyldi setjast þar að en sjá munkunum og ábótanum fyrir viðurværi.

Skömmu eftir að hann kom aftur, að morgni hvítasunnudags, fóru hirðstjórinn og fógetinn í Viðeyjarklaustur, brutu þar og brömluðu, hröktu fólk nakið úr rúmum sínum og lögðu klaustrið undir sig. Þetta féll Ögmundi Pálssyni biskupi afar illa sem von var og lét hann um sumarið tylftardóm klerka dæma þá fógeta og hirðstjóra fallna í bann og allar eigur þeirra upptækar til kirkjunnar. Van der Marwitzen var þá farinn aftur til Danmerkur en Diðrik lét sér fátt um finnast og hélt um haustið austur í sveitir til að leggja undir sig eignir klaustranna í Þykkvabæ og Kirkjubæ. En á leið þangað var hann drepinn í Skálholti ásamt mönnum sínum, 10. ágúst 1539.

Marwitzen fékk fréttir af þessum atburðum til Kaupmannahafnar og kærði Ögmund biskup fyrir konungi fyrir að hafa hvatt til verksins. Ögmundur sór það af sér á Alþingi og dæmdi lögrétta þá van der Marwitzen rógbera sem hefði fyrirgert hirðstjóratign sinni og skyldi hann sviptur henni.

Konungur ætlaði fyrst að senda Marwitzen með herskip til Íslands til að koma lögum yfir morðingja Diðriks en hætti við það og sendi þess í stað Christoffer Huitfeldt til landsins vorið 1541, en Marwitzen var þó í för með honum. Áttu þeir þá fund í Kópavogi við Gissur Einarsson biskup. Christoffer Huitfeldt fór síðan að Hjalla í Ölfusi og handtók Ögmund biskup, sem þar var staddur, en þeir van der Marwitzen og Gissur fóru í Haukadal, þar sem Ögmundur bjó, og leituðu skjala og verðmæta en fundu fátt. Huitfeldt tókst þó síðar að ná öllum eignum Ögmundar af honum.

Þeir sigldu svo utan með gamla biskupinn, sem dó að öllum líkindum á leiðinni. Marwitzen var svo sviptur hirðstjóraembættinu og 1542 var hann dæmdur í ævilangt varðhald fyrir ýmsar sakir, þar á meðal rán og manndráp, en var þó náðaður eftir tvö ár.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • „Endalok Viðeyjarklausturs. Tíminn, 27. ágúst 1988“.
  • „Láttu ekki gamla refinn sleppa, leue Crystoffer. Sunnudagsblað Tímans, 21. febrúar 1965“.


Fyrirrennari:
Jón Arason
Ögmundur Pálsson
Hirðstjóri
(15361541)
Eftirmaður:
Christoffer Huitfeldt