Christine O'Donnell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Christine O'Donnell

Christine O'Donnell (fædd Christine Therese O'Donnell 27. ágúst 1969) er bandarískur stjórnmálamaður. Hún var frambjóðandi Repúblikanaflokksins í Delaware fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum sem haldnar voru 2. nóvember 2010 en tapaði fyrir Chris Coons, frambjóðanda Demókrataflokksins.

Persónuhagir[breyta | breyta frumkóða]

Hún hefur unnið við markaðsmál, almannatengsl og sem fréttaskýrandi fyrir Fox News. O'Donnell er af írskum og ítölskum ættum og ólst hún upp í Moorestown, New Jersey. Hún er önnur yngst af sex systkinum og var alin upp í kaþólskri trú en í dag aðhyllist hún evangelíska kristni. O'Donnell er ógift og barnlaus.

Framboð 2010[breyta | breyta frumkóða]

O'Donnell er hluti af svokallaðri Teboðshreyfingu og staðsetur sig sem repúblikana sem vill halda í ákveðin gildi, þegar kemur að samfélaginu í heild. Einn helsti leiðtogi Teboðshreyfingarinnar er Sarah Palin, fyrrverandi varaforsetaefni repúblikana. O'Donnell sigraði fyrrverandi ríkisstjórann Michael N. Castle, sem þótti sigurstranglegur en það kom mörgum á óvart að hún hafði betur og sýnir hvað Teboðshreyfingin er sterkt stjórnmálaafl. O'Donnell sigraði Castle með 6 prósenta mun og fékk meira en 30 þúsund atkvæði. Samkvæmt New York Times eru það aðallega stuðningsmenn úr suðurhluta Delaware-fylki sem vildu sjá hana í embætti og eru þeir flestir íhaldssamir repúblikanar.

Í kosningunum þann 2. nóvember 2010 bað O'Donnell ósigur fyrir Chris Coons, frambjóðanda Demókrataflokksins, með 40% atkvæða gegn 57%.[1]

Fyrri framboð[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2006 bauð O'Donnell sig fram í forkosningum fyrir repúblikana í Delaware. Hún hafnaði í þriðja sæti með 17 prósent atkvæða á eftir Michael D. Protack og sigurvegaranum Jan C. Ting. Sama ár bauð hún sig fram í almennum kosningum sem „write-in candidate“ (frambjóðandi sem ekki er á nafnalista á kjörseðli en getur hlotið atkvæði ef að kjósandi bætir nafni frambjóðandans á listann). Hún bauð sig fram á móti Jan C Ting og Thomas R. Carper og var Carper endurkjörinn. Árið 2008 var hún tilnefnd fyrir hönd Repúblikanaflokksins og skákaði þar viðskiptamanninum Tim Smith. Í almennu kosningunum sama ár var mótherji hennar öldungadeildarþingmaðurinn Joe Biden en hann var einnig á þeim tíma að bjóða sig fram til varaforseta Bandaríkjanna og var útnefndur í það af Barack Obama. O'Donnell gangrýndi Biden fyrir að vera í tveimur kosningabaráttum á sama tíma og vilja ekki taka þátt í rökræðum og opinberri umræðu. Biden sagði öldungadeildarstöðunni lausri þann 15. janúar 2009 í kjölfar þess að vera kosinn 47. varaforseti Bandaríkjanna. Biden sigraði O'Donnell með 65 prósentum atkvæða gegn 35 prósentum. Árið 2008 var það tilkynnt að sérstakar kosningar yrðu haldnar samhliða almennu kosningunum 2010 um öldungadeildarsætið sem fór til starfsmannastjóra Biden, Ted Kaufman sem átti að sitja í tvö ár af þeim sex sem Biden átti að sitja. O'Donnell var ekki lengi að tilkynna framboð sitt í þá kosningabaráttu.

Stefnumál og skoðanir[breyta | breyta frumkóða]

Aðal stefnumál O'Donnell er að setja sig upp á móti heilbrigðisfrumvarpinu og fella það úr gildi og koma á heilbrigðiskerfi sem útilokar samkeppni. Hún er ekki hlynnt því að auka skatta og er einnig harður talsmaður gegn fóstureyðingum, nema í sérstökum tilfellum. Hún vill harðari refsingar gegn vinnuveitendum sem ráða ólöglega innflytjendur og vill einnig hækka aldur varðandi bótaþega. O'Donnell hefur flaggað sínum skoðunum í gegnum tíðina og ekki farið leynt með þær. Hún hefur mótmælt sjálfsfróun og kynlífi sem ekki leiðir til getnaðar, gagnrýnt þróunarkenningu Darwins og sagt að samkynhneigðir séu haldnir blekkingu um eigið sjálf.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Evans, Ben; Randall Chase (2. nóvember 2010). „Tea Lacks Punch in Delaware as Coons Wins Senate“. ABC News. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. nóvember 2010. Sótt 25. september 2019.