Fara í innihald

Carlsbergsjóðurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Carlsbergssjóðurinn)

Carlsbergsjóðurinn – (danska: Carlsbergfondet) – er styrktarsjóður stofnaður af ölgerðarmeistaranum Jacob Christian Jacobsen árið 1876. Sjóðurinn á 30,3% í Carlsbergfyrirtækinu. Samkvæmt ákvörðun stofnandans skipar Vísindafélagið danska stjórn sjóðsins, sem er skipuð fimm mönnum. Carlsbergsjóðurinn hefur haft mikla þýðingu fyrir vísindastarfsemi í Danmörku.

Tilgangur sjóðsins

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Að leggja rannsóknarstofum Carlsberg (Carlsberg Laboratorium) til rekstrarfé og veita þeim forstöðu.
  2. Að efla og styrkja frumrannsóknir á sviði hugvísinda, náttúruvísinda og félagsvísinda.
  3. Að halda við og þróa Söguminjasafnið í Friðriksborgarhöll (Det Nationalhistoriske Museum).
  4. Að styrkja Ny Carlsberg Glyptotek og styðja við listastarfsemi og rannsóknir á listum og listiðnaði.
  5. Að veita styrki úr Tuborgsjóðnum til verkefna sem bæta danskt samfélag, einkum til að efla danskt atvinnulíf.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1881 stofnaði sonur J. C. Jacobsen, Carl Jacobsen, nýja bjórgerð, Ny Carlsberg, og auðgaðist brátt á rekstrinum. Hann var mikill listunnandi og varði mestum hluta tekna sinna til kaupa á listaverkum, gömlum og nýjum og varð safn hans á heimsmælikvarða. Jafnframt varði hann stórfé til að skreyta Kaupmannahöfn með listaverkum, og má þar nefna Litlu hafmeyna við Löngulínu og Gefjunargosbrunninn. Safn sitt, Ny Carlsberg Glyptotek, gaf hann í almennings eigu. Til að tryggja framtíð safnsins gaf hann Carlsbergsjóðnum Nýju Carlsberg verksmiðjurnar árið 1902, og var um leið stofnaður Nýi Carlsbergsjóðurinn, til stuðnings listum og listfræðum. Hann er sjálfstæð stofnun innan Carlsbergsjóðsins.

Árið 1882 tók sjóðurinn við langstærstu eign sinni, brugghúsinu Gamle Carlsberg. Samkvæmt stofnskránni skyldi Carlsbergsjóðurinn ávallt eiga 51% af hlutafénu í fyrirtækinu, sem í dag heitir Carlsberg A/S.

Árið 1970 voru Tuborg-verksmiðjurnar sameinaðar Carlsberg, en það breytti ekki starfsemi Carlsbergsjóðsins að öðru leyti en því að hann tók við rekstri Tuborgsjóðsins árið 1991.

Í maí 2007 heimilaði yfirstjórn sjóðamála (Civilstyrelsen) breytingu á stofnskránni þannig að Carlsbergsjóðurinn skuli eiga að minnsta kosti 25% af hlutafénu, og ráða 51% atkvæða á aðalfundi, sem er hægt af því að hlutafénu er skipt í tvo flokka, A- og B-hluti, þar sem A-hlutirnir hafa tífalt atkvæðavægi á við B-hlutina. Þá átti sjóðurinn 51,3% af hlutafénu, og skiptust hlutirnir þannig milli A- og B-hluta, að sjóðurinn réð yfir 81,9% atkvæða. Árið 2008 var efnt til hlutafjárútboðs til að víkka út starfsemi fyrirtækisins, og minnkaði eignarhlutur sjóðsins þá í 30,3% og atkvæðavægið í tæp 73%.

Carlsbergsjóðurinn hefur frá upphafi séð um rekstur Carlsberg Laboratorium og Söguminjasafnsins í Friðriksborgarhöll.

Starfsemi Carlsbergsjóðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Starfsemi sjóðsins fer fram í eftirtöldum deildum eða stofnunum:

  • Carlsberg Laboratorium – Frá stofnun 1876.
  • Det Nationalhistoriske Museum í Friðriksborgarhöll – Stofnað 1878.
  • Nýi Carlsbergsjóðurinn – Stofnaður 1902.
  • Tuborgsjóðurinn – Bættist við 1991.

Carlsbergsjóðurinn hefur til umráða íbúðarhús J. C. Jacobsens á verksmiðjusvæðinu í Valby. Húsið er kallað Carlsberg Akademi og er með 400 m² aðstöðu til ráðstefnuhalds og 200 m² íbúð fyrir vísindamann.

Carlsbergsjóðurinn gefur út árbók með greinasafni um starfsemi fyrra árs.

Carlsbergsjóður og Ísland

[breyta | breyta frumkóða]

Steindór Steindórsson frá Hlöðum hefur tekið saman yfirlit um styrki sem Carlsbergsjóður hefur veitt til Íslenskra vísindarannsókna. Skiptir hann yfirlitinu í þrjú tímabil.

  1. Tímabilið 1883–1918: Á þessu tímabili veitti sjóðurinn styrki til 19 vísindamanna, og fengu sumir þeirra marga styrki, svo sem Finnur Jónsson og Þorvaldur Thoroddsen.
  2. Tímabilið 1918–1944: Á þessu tímabili veitti sjóðurinn styrki til 4 vísindamanna, má þar nefna Jón Helgason prófessor og Árna Friðriksson fiskifræðing.
  3. Tímabilið eftir 1944: Á þessu tímabili veitti sjóðurinn styrki til eins vísindamanns, Péturs M. Jónassonar líffræðings.

Auk þess veitti sjóðurinn marga styrki til danskra vísindamanna og stofnana sem fengust við rannsóknir sem tengdust Íslandi, má þar nefna Daniel Bruun og Kristian Kaalund, og Árnasafn í Kaupmannahöfn.

Loks má nefna að sjóðurinn hefur styrkt tvö mikilvæg verk um náttúru Íslands:

  • The Botany of Iceland (Grasafræði Íslands), kom út í 5 bindum á árunum 1912–1949. Carlsbergsjóður greiddi útgáfukostnað, ferðir og mestan hluta rannsóknarvinnu.
  • The Zoology of Iceland (Dýrafræði Íslands), útgáfu er ekki lokið, en meginhluti fyrstu fjögurra bindanna (af fimm) kom út á árunum 1937–2005. Carlsbergsjóður greiddi útgáfu og talsverðan hluta rannsókna.
  • Steindór Steindórsson: Carlsbergsjóður og Ísland. Steindór Steindórsson frá Hlöðum - Aldarminning, Rvík 2002:79–163.
  • Freysteinn Sigurðsson: Vísindi Íslendinga og styrkir úr Carlsbergsjóði. Steindór Steindórsson frá Hlöðum - Aldarminning, Rvík 2002:30–78.
  • Kristof Glamann: The Carlsberg Foundation - the early years, Carlsbergfondet 2003. ISBN 87-987829-6-7.
  • Kristof Glamann: Carlsbergfondet siden 1970, Carlsbergfondet 1993. ISBN 87-983213-0-7.
  • Carlsbergfondet årsskrift, Rhodos/Carlsbergfondet, 1977–
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Carlsbergfondet“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. september 2009.