Fara í innihald

Burnirót

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Burnirót
Karlplanta burnirótarinnar, með gulum blómum.
Karlplanta burnirótarinnar, með gulum blómum.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Steinbrjótsbálkur (Saxifragales)
Ætt: Helluhnoðraætt (Crassulaceae)
Ættkvísl: Rhodiola
Tegund:
R. rosea

Tvínefni
Rhodiola rosea
L.
Samheiti

Sedum rosea (L.) Scop.
Sedum rhodiola DC.
Rhodiola arctica Boriss.
Rhodiola iremelica Boriss.
Rhodiola scopolii Simonk.
Sedum scopolii Simonk.

Burnirót (eða burn (kvk) [1]), einnig nefnd blóðrót (fræðiheiti: Rhodiola rosea) er fjölær jurt af helluhnoðraætt sem vex á köldum stöðum, svo sem á norðurslóðum og í fjalllendi í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Hún vex einna helst í þurrum sendnum jarðvegi, allt frá láglendi og upp í 2.280 metra hæð. Burnirót er fremur algeng um mest allt Ísland og eru kjöraðstæður helst í klettum og á öðrum stöðum þar sem sauðfé nær illa til.[2] En vegna þess hve sauðfé er sólgið í hana hefur hún horfið af stórum svæðum.[2]

Á þökum gömlu íslensku torfbæjanna óx burnirót milli bursta út úr veggstálinu milli burstanna og myndaði þar þétta brúska sem urðu gullrauðir þegar leið á sumarið. Vallhumall óx á vegglaginu. Það er gömul trú að burnirót varni bruna.[3]

Latneska heiti burnirótar er samkvæmt tvínafnakerfi Carl von Linné, Rhodiola rosea sem er vísun til rósarilms stöngulsins. Þegar um fæðubótarefni er að ræða er rótin þekktust undir nafninu Arctic Root á Íslandi. Erlendis er einnig mikið notað nafnið Rose Root eða Golden Root.[4][5]

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Rauð kvenblóm burnirótar.

Burnirótin er rótarmikill þykkblöðungur. Hún er einkynja, það er hver einstaklingur hefur aðeins karlblóm eða aðeins kvenblóm. Karlblómin eru gul á lit en kvenblómin rauðleit. Blómin liggja mörg þétt saman í greinóttum skúf eða hálfsveip á endum hliðarstöngla sem vaxa upp af gildum jarðstöngli. Krónublöðin eru tungulaga, 3–5 millimetrar á lengd en bikarblöðin nokkru styttri. Karlblómin hafa átta fræfla og fjórar vanþroska frævur. Kvenblómin hafa fjórar til fimm þroskalegar gulrauðar frævur, sem verða að 7–10 millimetra löngu hýðisaldini. Stöngullinn er 2–6 millimetra gildur og þétt settur laufblöðum. Blöðin eru venjulega ydd og oft ofurlítið tennt í endann, 2–4 sentimetrar á lengd og 1–1,5 sentimeter á breidd. Bæði stöngull og blöð eru hárlaus.[6][7]

Lækningarmáttur[breyta | breyta frumkóða]

Hún á sér langa sögu sem lækningajurt og hafa rót og stilkur plöntunnar verið notuð í þeim tilgangi. Hún hefur til dæmis mjög lengi verið notuð í hefðbundnum kínverskum lækningum þar sem hún er kölluð hóng jǐng tiān (紅景天). Áhrif hennar eiga að stuðla að almennri vellíðan og jafnvægi í líkamanum. Rannsóknir hafa samt ekki getað sannað þessa virkni hennar en hafa þó sýnt fram á ýmsa læknandi eiginleika svo sem það að hún virðist verka vel gegn stressi, þunglyndi, mígreni og einbeitingarskorti og bæta árangur í íþróttum en virkni hennar virðist svipa til ginsengs.[8] Að öðru leiti er burnirótin almennt talin örugg til inntöku en ekki skal neyta hennar lengur en í 2 vikur í senn og gæta skal þess að halda sig við ráðlagða dagsskammta.

Ritaðar heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Skráð saga burnirótar nær langt aftur eða til ársins 77 e.kr. þegar gríski læknirinn Dioscorides skráði læknisfræðilegt notagildi plöntunnar sem hann nefndi rodia riza í lyfjaskránni De materia medica. Carl von Linnaeus endurnefndi plöntuna latneska heitinu Rhodiola rosea í bók sinni,[4] Materia medica sem kom út árið 1749.[9]

Árið 1755 var plantan skráð í fyrstu sænsku lyfjaskrána. Árið 1985, rúmum 200 árum seinna, var burnirót viðurkennd sem náttúrulyf í Svíþjóð og því lýst yfir að hún virkaði við þreytu sem örvandi efni. Í margar aldir hefur plantan verið notuð við hefðbundnar lækningar í Rússlandi, Skandinavíu og öðrum löndum. Linnaeus sagði burnirót hafa herpandi eiginleika og vera notaða við kviðslitum, útferð frá leggöngum, móðursýki og höfuðverk.[4]

Fyrr á öldum var holdsveiku fólki ráðlagt að nota þessa jurt sér til lækninga. Þá var því trúað að te af jurtinni yki hárvöxt ef það væri borið í hársvörð kvölds og morgna þannig að hann yrði rakur.[2]

Plantan var notuð í mismunandi tilgangi eftir heimshluta og menningu. Víkingar notuðu m.a. plöntuna til þess að auka líkamlegan styrk og þol á meðan að kínverskir keisarar sendu menn til Síberíu á eftir „gullnu rótinni“ til notkunar við lækningar. Fólk frá Mið-Asíu áleit að te úr burnirót væri mjög áhrifaríkt við kvefi og flensueinkennum. Mongólskir læknar notuðu plöntuna við berklum og krabbameini.[10]

Ábendingar og notkun[breyta | breyta frumkóða]

Þau plöntulíffæri sem eru notuð til lækninga eru rótin og stilkurinn[5] og hefst söfnun hennar seinni hluta sumars og haust.[2][11]

Alþýðunotkun[breyta | breyta frumkóða]

Sem íslensk lækningajurt hefur burnirót helst verið notuð vegna barkandi eiginleika sinna, við bólgu og særindum í meltingarvegi. Einnig var hún notuð við niðurgangi, blóðsótt, bólgu í húð og særindum og útferð úr leggöngum.[2] Síberíubúar hafa notað burnirót til þess að auka líkamlegt þol, vinnugetu og langlífi, við háfjallaveiki og til að meðhöndla þreytu, við þunglyndi, blóðleysi, getuleysi meðal karlmanna, iðrasjúkdómum, taugasjúkdómum, kvefi, flensu, berklaveiki, krabbameini, kviðsliti, móðursýki, útferð úr leggöngum kvenna, tíðateppu, geðklofa, getuleysi, höfuðverk, skyrbjúg, gyllinæð og bólgum.[12]

Burnirót er einnig notuð til inntöku sem „adaptógen“ til þess að hjálpa líkamanum að aðlagast og vinna við mikið álag. Hún hefur verið notuð við meðhöndlun krabbameins, sykursýki, svínaflensu, öldrun, lifrarskemmdum og til að bæta heyrn og ónæmiskerfi.[13]

Hefðbundin notkun[breyta | breyta frumkóða]

Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt eina ábendingu út frá hefðbundinni notkun á burnirót. Hana á að nota til þess að létta tímabundið á álagseinkennum svo sem þreytu og þróttleysi.[14] Engar aðrar ábendingar byggðar á vísindalegum grunni eru skráðar hjá evrópsku lyfjastofnuninni.[14]

Innihaldsefni[breyta | breyta frumkóða]

Það er ekki til nákvæm efnainnihaldslýsing fyrir burnirót en talið er að mikilvægustu efnin sem hafa adaptógeníska virkni séu týrósól og salídrósíð (rhodiolosíð) og fenýlprópanóíðar glýkósíð (rósín, rósavín og rósarín).[5] Burnirót inniheldur meira en 30 efnasambönd og má skipta gróflega í 5 flokka:

 • Flavónóíðar: herbasetín, gossypetín, kaempferól og glýkósíðar þeirra eins og ródíónín, ródíónídín, ródíólgín, ródíólgidín, ródalín, ródalídín, ródíósín og kaempferól-7-O-alfa-L-ramnópýranósíð.[15]
 • Fenýlprópanóíðar: rósín, rósavín, sakkalísíð 1, vimalín, sinnamýl-O-beta-glúkópyranósíð, 4-metoxý-sinnamýl-O-beta-glúkópýranósíð og sinnamýl alkóhól.[16]
 • Fenýletanóíðar: hýdroxýfenýletýl tyrósól og salídrósíð, sem er glýkósílerað týrósól.[17]
 • Rokgjarnar olíur: Þurrkaðir jarðstönglar innihalda 0,05% ilmolíur með 25,40% mónóterpen-vetniskolum (e. hydrocarbons), 23,61% mónóterpen-alkóhól, 37,54% bein-keðju (e. straight chain) alífatísk alkóhól.[5] Efnasambönd sem finnast í miklu magni eru n-dekanól, geraníól og 1,4-p-mentadíen-7-ól.[18] Geraníól ilmar líkt og rósir og er mikið notað í ilmefnaiðnað. Eitt af niðurbrotsefnum þess er rósirídín.[17]
 • Önnur efnasambönd: Picein, bensýl-O-beta-D-glúkópyranósíð, steról, tannín, gallínsýra og esterar hennar.[18]

Salídrósíð er til staðar í öðrum plöntutegundum í meira magni en finnst í burnirót, en það þarf samlegðaráhrif með fenýlprópanóíð-glýkósíðum (rósavíni, rósíni og rósaríni) til að ná fram virkni. Samkvæmt sovéskri lyfjaskrá frá árinu 1989 þarf staðlaður úrdráttur af burnirót að innihalda minnst 3% rósavín og 0,8–1% salídrósíð. Þetta er sama hlutfall og fyrirfinnst í burnirót í náttúrunni eða 3:1.[4]

Verkun[breyta | breyta frumkóða]

Burnirót hefur verið kennd við ýmiskonar verkun. Sagt hefur verið að hún eigi að gagnast við streitu, þreytu, þunglyndi, svefnvandamálum, truflun á innkirtlastarfsemi, einbeitingaskorti og athyglisbresti. Einnig á hún að hafa hjartaverndandi áhrif, jákvæð áhrif á námsgetu og minni, auk þess sem hún er sögð stuðla að langlífi. Við úrdrátt burnirótarinnar hafa fundist kraftmiklir adaptógenar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir verndi dýr og menn gegn geðrænum kvillum, líkamlegu álagi og kvefi.[12] Adaptógenísk áhrif hennar eiga að stuðla að jafnvægi í líkamanum og hjálpa líkamanum að aðlaga sig að erfiðum aðstæðum sem gerir honum kleift að áorka meiru.[17]

In vitro-rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem tilgátur eru uppi um margvíslega verkunarmáta innihaldsefna burnirótar hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar á tilraunastofum til að fá betri hugmynd um líkleg áhrif þeirra í mannslíkamanum. Rannsóknir á úrdráttum úr burnirót hafa sýnt verndandi áhrif gegn hvarfgjörnum oxunarefnum.[19] Bæði úrdráttur úr burnirót og salídrósíð einangrað úr burnirót sýndu krabbameinshemjandi áhrif á frumur í rækt.[20]

Einnig hefur verið sýnt fram á að vatns- og etanólúrdrættir úr burnirót hindri angíótensín-1-converting ensím og alfa-glúkósídasa sem gefur tilefni til að rannsaka frekar áhrif úrdráttanna á háþrýsting og insúlínóháða sykursýki (sykursýki af gerð 2).[21]

Þó að in vitro-tilraunir hafi sýnt fram á margvíslegan verkunarmáta burnirótar þýðir það ekki að þau hafi endilega sömu áhrif í mannslíkamanum.

In vivo-rannsóknir (dýratilraunir)[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir í dýramódelum hafa sýnt fram á andoxunarvirkni innihaldsefna í burnirót[22] og einnig að úrdráttur úr burnirót geti lækkað blóðsykur hjá sykursjúkum og örvað ónæmiskerfið.[13]

Úrdráttur úr burnirót sem var staðlaður þannig að hann innihélt 3% rósavín og 1% salídrósíð sýndi jákvæð áhrif á þunglyndi og kvíða og hafði örvandi áhrif í dýramódelum. Einnig bentu dýrarannsóknir til þess að úrdráttur úr burnirót geti aukið námsgetu og bætt minni.[13]

Klínískar rannsóknir (tilraunir á mönnum)[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar til að skoða mismunandi virkni burnirótar.

Fasa III klínísk rannsókn, slembiröðuð og tvíblind, þar sem staðlaður úrdráttur (SHR-5) á burnirót var borinn saman við lyfleysu og stóð yfir í 6 vikur, sýndi að inntaka á úrdrættinum bætti markvisst líðan einstaklinga með vægt og meðalalvarlegt þunglyndi. 89 þátttakendum var slembiraðað í 3 hópa þar sem tveir fengu staðlaða úrdráttinn SHR-5 (annar 340 mg/dag en hinn 680 mg/dag) og einn hópur fékk lyfleysu. Báðir íhlutunarhóparnir sýndu marktæk jákvæð áhrif á þunglyndi, svefnleysi og tilfinningalegan óstöðugleika.[23]

Yfirlitsgrein (e. systematic review) þar sem 13 klínískar rannsóknir voru metnar sýndi óljósar niðurstöður um hvort burnirót geti gagnast sjúklingum með kransæðasjúkdóma. Ósamræmi var á milli skammtastærða og hvernig burnirótin var meðhöndluð áður en hún var gefin sjúklingum. Það hefði þurft að staðla úrdrætti til að fá betri niðurstöður. Einnig var misræmi á milli hvernig rannsóknirnar voru framkvæmdar og því erfitt að bera þær saman. Þótt einhverjar af rannsóknunum sem voru metnar bendi til þess að inntaka á burnirót geti verið gagnleg sjúklingum með kransæðasjúkdóma, bæði samhliða venjulegri meðferð eða ein og sér, þarf að gera betri rannsóknir til að staðfesta virknina.[24]

Burnirót er markaðssett á Íslandi sem efni til að auka úthald og einbeitingu og þannig árangur í íþróttum og námi. Samantekt hefur verið gerð á klínískum rannsóknum þar sem þessi áhrif eru könnuð. 11 klínískar rannsóknir voru skoðaðar og niðurstaðan er sú að ekki séu til nægilega góðar vísindalegar sannanir fyrir þessarri verkun.[25]

Um flestar klínískar rannsóknir sem gerðar hafa verið á burnirót er sömu sögu að segja: Það er mikil hætta á bjaga eða það vantar upplýsingar til að meta gæði rannsóknanna. Þær hafa flestar fáa þátttakendur og því er styrkur þeirra lítill. Einnig gerir misræmi milli úrdátta, preparata, skammtastærða og meðferðartíma erfitt að meta virkni.

Því er ekki hægt að segja að burnirót virki á ákveðin einkenni og kvilla heldur þarf að gera frekari rannsóknir til að staðfesta virknina. Þetta er ástæðan fyrir því að ekki eru neinar skráðar ábendingar byggðar á vísindalegum grunni heldur eru einungis skráðar ábendingar vegna hefðbundinnar notkunnar.

Skammtastærð[breyta | breyta frumkóða]

Hver skammtur skal vera um 144–200 mg af þurrkuðum úrdrætti stöngulsins og rótarinnar í einum skammti, einu sinni á dag. Börn og unglingar undir 18 ára skulu ekki nota burnirót þar sem ekki hafa fengist nægilega góðar upplýsingar um áhrif þess á þau. Meðferðarlengd skal ekki vara lengur en í 2 vikur samfleytt. Ef einkenni vara lengur, skal hafa samband við lækni.[14]

Annars konar skammtastærðir:[breyta | breyta frumkóða]

Urtaveig (tinktúra; 1:5 25% vínandi): 1-3 ml teknir inn þrisvar á dag.

Seyði (1:10): 25–50 ml teknir inn þrisvar á dag.[2]

Burnirót frásogast allra best þegar hún er tekin á tóman maga, minnst 30 mínútum fyrir morgunmat og hádegismat. Eins og á við um allar náttúruvörur, skulu sjúklingar tilkynna lækni sínum þegar þeir taka inn burnirót eða aðrar náttúruvörur.[12] Burnirót ætti ekki að nota í meira en 10 vikur í senn þar sem ekki hefur verið sýnt fram á öryggi langtímanotkunar.[13]

Aukaverkanir[breyta | breyta frumkóða]

Ekki hafa komið í ljós neinar alvarlegar aukaverkanir sem tengjast notkun á burnirót. Það eru örfáar aukaverkanir sem hafa komið fram en rótin er almennt talin örugg til notkunar og vel þolanleg. Taugaspenna og óróleiki geta fylgt notkun hjá einstaklingum sem hafa tilhneigingu til að vera kvíðnir og áhyggjufullir. Burnirót getur haft áhrif á svefn og valdið líflegum draumum. Hægt er að komast hjá þessum aukaverkunum með því að taka inn burnirót á morgnanna eða fyrri part dags.[12] Burnirót tekin inn um munn getur valdið svima og munnþurrki.[13]

Skortur er á klínískum rannsóknum sem staðfesta aukaverkanir en eins og áður segir er burnirót talin vera mjög örugg til notkunar.

Milliverkanir[breyta | breyta frumkóða]

Milliverkanir milli innihaldsefna burnirótar og annarra lyfja eru ekki mikið rannsakaðar. Í mónógrafíu frá Lyfjastofnun Evrópu hafa ekki verið skráðar neinar milliverkanir við lyf, náttúrulyf, jurtalyf eða mat.[14]

In vitro-rannsóknir gefa ástæðu til að skoða hugsanlegar milliverkanir við ákveðin lyf. In vitro-rannsókn sýndi að innihaldsefni hennar hindra CYP3A4-ensímið og p-glýkóprótín.[26] Þetta bendir til þess að burnirót geti milliverkað við lyf sem eru hvarfefni fyrir þessi tvö ensím og þar með hækkað þéttni þeirra lyfja í blóði og aukið líkur á aukaverkunum.[13]

Eins og fyrr hefur komið fram er burnirót stundum notuð við þunglyndi, en in vitro-rannsókn á verkun burnirótarúrdráttar á MAO-viðtaka gæti skýrt það, þ.e. vera má að burnirót verki á sömu viðtaka og þunglyndislyfin sem verka á MAO-viðtaka.[27]

Líkt og kemur fram í verkunarkafla þá eru in vitro-rannsóknir sem benda til þess að innihaldsefni burnirótarinnar geti milliverkað við lyf sem hvarfast við p-glýkóprótín og CYP3A4. Því gæti burnirót hugsanlega aukið líkur á aukaverkunum af þeim lyfjum.[26] Því ættu einstaklingar sem eru á annarri lyfjameðferð að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja inntöku á burnirót.

Frábendingar[breyta | breyta frumkóða]

Þeir sem eru með ofnæmi fyrir innihaldsefnum burnirótar skulu að sjálfsögðu ekki nota hana.[14] Þar sem burnirót hefur geðdeyfðaráhrif skulu einstaklingar með geðhvarfasýki, sem eru líklegir til þess að verða manískir (e. manic) við inntöku þunglyndislyfja eða örvandi efna, ekki taka hana inn. Plantan virðist ekki milliverka við önnur lyf, en samt sem áður gæti hún aukið áhrif annarra örvandi efna.[12]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Orðabók Háskólans“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 23. ágúst 2008.
 2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 Jóhannsdóttir, A. L. (2011). Burnirót. Úr Íslenskar lækningajurtir - söfnun þeirra, notkun og áhrif (3. útg, bls. 27). Reykjavík: Mál og menning.
 3. De rhodiolae – Flóra: tímarit um íslenzka grasafræði, 1. tölublað (01.02.1964), Bls. 77-82
 4. 4,0 4,1 4,2 4,3 Brown, R. P., Gerbarg, P. L. og Ramazanov, Z. (2002). Rhodiola rosea: A Phytomedicinal Overview. American Botanical Council, (56), 40-52
 5. 5,0 5,1 5,2 5,3 Herbal medicines (4. útg). (2013). London, UK: Pharmaceutical Press.
 6. „Burnirót“. Flóra Íslands. Sótt 5. september 2012.
 7. Kristinsson, H. (2010). Burnirót. Í Íslenska plöntuhandbókin (3. útg, bls. 178). Reykjavík: Mál og menning.
 8. „Burnirót - Original Artic Root“. heilsa.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. október 2012. Sótt 5. september 2012.
 9. Hagströmerbiblioteket; Materia medica. (e.d.). Sótt 25.9.2014. Sótt frá https://hagstromerlibrary.ki.se/books/17104
 10. Herbwisdom. (e.d.). Rhodiola Benefits & Information (Rhodiola Rosea). Sótt frá http://www.herbwisdom.com/herb-rhodiola.html. Sótt 26. 9.2014 – óritrýnd
 11. „Burnirót“. Flóra Íslands. Sótt 5. september 2012.
 12. 12,0 12,1 12,2 12,3 12,4 Khanum, F., Bawa, A. S. og Singh, B. (2005). Rhodiola rosea: A Versatile Adaptogen.Comprehensive Reviews in Food Science and Food Safety, 4, 55-61.
 13. 13,0 13,1 13,2 13,3 13,4 13,5 NMCD. (7. Júlí 2014). Natural Medicine Comprehensive Database | Rhodiola.
 14. 14,0 14,1 14,2 14,3 14,4 EMA. (2012). European Medicines Agency | Community herbal monograph on Rhodiola rosea L., rhizoma et radix | monograph. London, US. Sótt 24.9.2014. Sótt frá http://www.ema.europa.eu/docs/en_GB/document_library/Herbal_-_Community_herbal_monograph/2012/05/WC500127863.pdf Geymt 20 desember 2014 í Wayback Machine
 15. Tolonen, A. (2003). Analysis of secondary metabolites in plant and cell culture tissue of Hypericum perforatum L. and Rhodiola rosea L. Oulu: Oulun yliopisto.
 16. Tolonen, A., Pakonen, M., Hohtola, A. og Jalonen, J. (2003). Phenylpropanoid glycosides from Rhodiola rosea. Chem Pharm Bull, 51(4), 467-470.
 17. 17,0 17,1 17,2 Panossian, A., Wikman, G. og Sarris, J. (2010). Rosenroot ( Rhodiola rosea): Traditional use, chemical composition, pharmacology and clinical efficacy. Phytomedicine, 17(7), 481-493.
 18. 18,0 18,1 Rohloff, J. (2002). Volatiles from rhizomes of Rhodiola rosea L. Phytochemistry, 59(6), 655-661.
 19. Calcabrini, C., Bellis, R. D., Mancini, U., Cucchiarini, L., Potenza, L., Sanctis, R. D., Scesa, C. (2010). Rhodiola rosea ability to enrich cellular antioxidant defences of cultured human keratinocytes. Archives of Dermatological Research, 302(3), 191-200.
 20. Liu, Z., Li, X., Simoneau, A. R., Jafari, M., & Zi, X. (2012). Rhodiola rosea extracts and salidroside decrease the growth of bladder cancer cell lines via inhibition of the mTOR pathway and induction of autophagy. Mol Carcinog, 51(3), 257-267.
 21. Kwon, Y. I., Jang, H. D., & Shetty, K. (2006). Evaluation of Rhodiola crenulata and Rhodiola rosea for management of type II diabetes and hypertension. Asia Pac J Clin Nutr, 15(3), 425-432.
 22. Zhou, Q., Yin, Z. P., Ma, L., Zhao, W., Hao, H. W., & Li, H. L. (2014). Free radical-scavenging activities of oligomeric proanthocyanidin from Rhodiola rosea L. and its antioxidant effects in vivo. Natural Product Research, 28(24), 2301-2303.
 23. Darbinyan, V., Aslanyan, G., Amroyan, E., Gabrielyan, E., Malmstrom, C., og Panossian, A. (2007). Clinical trial of Rhodiola rosea L. extract SHR-5 in the treatment of mild to moderate depression. Nord J Psychiatry, 61(5), 343-348.
 24. Yu, L., Qin, Y., Wang, Q., Zhang, L., Liu, Y., Wang, T., Xiong, H. (2014). The efficacy and safety of Chinese herbal medicine, Rhodiola formulation in treating ischemic heart disease: A systematic review and meta-analysis of randomized controlled trials. Complement Ther Med, 22(4), 814-825.
 25. Ishaque, S., Shamseer, L., Bukutu, C. og Vohra, S. (2012). Rhodiola rosea for physical and mental fatigue: a systematic review. BMC Complement Altern Med, 70, 12-70.
 26. 26,0 26,1 Hellum, B., Tosse, A., Hoybakk, K., Thomsen, M., Rohloff, J. og Nilsen, O. G. (2010). Potent in vitro Inhibition of CYP3A4 and P-Glycoprotein by Rhodiola rosea. Planta Medica, 76(4), 331-338.
 27. Diermen, D. V., Marston, A., Bravo, J., Reist, M., Carrupt, P. og Hostettmann, K. (2009). Monoamine oxidase inhibition by Rhodiola rosea L. roots. Journal of Ethnopharmacology, 122(2), 397-401.
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu