Bruninn í Austurstræti (2007)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir horn Lækjargötu og Austurstrætis

Bruni varð í Reykjavík vorið 2007. Um kl. 14:00 18. apríl 2007 kom upp eldur í húsum við Austurstræti og Lækjargötu. Tilkynning barst Neyðarlínunni um 14:50. Eldurinn breiddist um húsin á horninu við Lækjargötu; Lækjargötu 2 þar sem Kebabhúsið er m.a. til húsa, og Austurstræti 22 þar sem skemmtistaðurinn Pravda var til húsa og húsið þar á milli sem hýsti upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og þar áður söluturninn Fröken Reykjavík.

Uppruni eldsins[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að kviknað hafi í út frá loftljósi í Upplýsingamiðstöð ferðamanna, þar sem áður var verslunin Fröken Reykjavík, og eldurinn breiðst þaðan yfir í húsin til beggja hliða. Starfsmaður upplýsingamiðstöðvarinnar sem kom að eldinum kveðst ekki hafa fundið handslökkvitæki í versluninni, og farið yfir í Hressingarskálann þar sem hún þekkti starfsmann til þess að fá slökkvitæki lánað.

Skemmdir og umfang[breyta | breyta frumkóða]

Ljósmynd af húsunum sem brunnu (fremst á mynd).

Lækjargata 2 brann að hluta en húsið að Austurstræti 22 brann til kaldra kola. Bæði þessi hús eiga stóran sess í sögu Reykjavíkur og Austurstræti 22 í Íslandssögunni en það var reist yfir stiftamtmann 1801-1802 og hýsti síðar landsyfirrétt. Var húsið miðpunktur atburðarrásarinnar sumarið 1809 þegar að Jörgen Hundadagakonungur tók þar völdin. Þegar bruninn varð var þar til húsa skemmtistaðurinn Pravda.

Hornhúsið við Lækjargötu 2 sem skemmdist mikið var reist árið 1852. Þar voru meðal annars veitingastaðurinn Café Ópera, ölkráin Café Rósenberg og skyndibitastaðurinn Kebabhúsið þegar bruninn varð.

Hressingarskálinn, sem liggur fyrir vestan Austurstræti 22, varð ekki fyrir skemmdum af eldi og opnaði að nýju eftir hreinsun næsta dag, en önnur hús á horninu urðu fyrir skaða. Iðuhúsið við Lækjargötu fylltist einnig af reyk en því var bjargað. Bókabúðin Eymundsson, neðar í götunni, var lokuð á sumardeginum fyrsta vegna hreinsunarframkvæmda.

Reykurinn frá brunanum barst alla leið að Stúdentagörðum Háskóla Íslands í Skerjafirði og lögreglan bað íbúa í nágrenni við brunann um að loka gluggum og gera aðrar ráðstafanir eins og að kynda íbúðir sínar vel upp.

Manntjón[breyta | breyta frumkóða]

Ekkert manntjón varð né heldur skaði af reykeitrun svo að vitað sé.

Slökkvistarf[breyta | breyta frumkóða]

Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna brunans, auk slökkviliðs frá Reykjanesbæ sem gerir um 110 manns. Stórvirk vinnuvél var síðan notuð til að rífa þakið af Pravda vegna hrunhættu. Erfitt var að koma vélinni að vegna þess að bíl var lagt fyrir framan húsið, en hann var síðan fjarlægður og þurfti lögregla að brjóta rúðu í honum til þess. Á vefsíðu Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins kemur fram að afkastageta þess „var þanin til hins ítrasta“.

Rannsókn[breyta | breyta frumkóða]

Eftir rannsókn lögreglu á vettvangi fékk tryggingarfélag eigenda afhent yfirráð yfir brunarústunum. Daginn eftir (20. apríl) var því hins vegar breytt og lögregla hóf rannsókn að nýju. Í þeirri rannsókn var ekkert útilokað og heldur ekki hugsanleg íkveikja að sögn lögreglu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Stórbruni í miðborginni“. Morgunblaðið. 18. apríl 2007. Sótt 18. apríl 2007.
  • „Stórbruni í hjarta borgarinnar“. D3. 18. apríl 2007. Sótt 18. apríl 2007.
  • Vefútsending RÚV 18. apríl 2007
  • „Húsnæði Iðu fullt af reyk“. D3. 18. apríl 2007. Sótt 18. apríl 2007.
  • „Slökkvilið og lögregla á vakt í alla nótt“. Morgunblaðið. 19. apríl 2007. Sótt 19. apríl 2007.
  • „Afkastageta SHS var þanin til hins ítrasta“. Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins. 19. apríl 2007. Sótt 19. apríl 2007.
  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.