Brislingur
Brislingur | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
![]() | ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Tannsíld |
Brislingur (Sprattus sprattus) er algengur nytjafiskur sem er að finna við strendur meginlands Evrópu og niður til Afríku. Hann er uppsjávarfiskur af síldarætt og heldur sig helst fyrir ofan 50 metra dýpi. Árið 2017 veiddist tegundin í fyrsta skipti á Íslandi. [1]
Útlit
[breyta | breyta frumkóða]Brislingur er smágerður fiskur af síldarætt. Hann er ekki svo frábrugðin smásíld (Clupea harengus) í útliti, þunnvaxinn og langur en ólíkt síldinni er hann hærri fyrir miðju.
Hann er örlítið yfirmynntur. Brislingur hefur nær aldrei tennur á plógbeini sem er lítið bein framarlega í miðjum efri góm á fiskum. Brislingur er blá- eða grænleitur að ofan en silfurgrár á hliðum, hann hefur enga dökka bletti.
Á kviðrönd fisksins er þunnur og skarptenntur kjölur sem aðgreinir hann frá síldinni. Auk þess eru rætur kviðugga undir eða rétt framan við byrjun bakugga brislings en á síld er kviðugginn undir honum miðjum.
Brislingur getur náð allt að 19 cm lengd en er hann yfirleitt á bilinu 11,5-14,5 cm þegar hann er veiddur. Af þeim hrygnum í Eystrasalti og Norðursjó sem náð hafa 10 cm lengd hefur um það bil helmingur þeirra náð kynþroska. Sama hlutfall hænga er orðið kynþroska við 9 cm, þá á aldursbilinu tveggja til þriggja ára[1]
Heimkynni og hrygning
[breyta | breyta frumkóða]Brislingur heldur sig helst rétt ofan landgrunns í Evrópu og Norður-Afríku. Á næturnar færir fiskurinn sig nær yfirborði sjávar í leit að fæðu en helsta fæða brislinga eru svifkrabbadýr. Heimkynni brislinga er í Norðursjó. Svæðið spannar frá Lofoten-svæðinu í Norður-Noregi, vestur af Bretlandseyjum, við Eystrasalt og til Marokkó í suðri. Brislingur heldur sig einnig til í Svartahafi og norðarlega í Miðjarðarhafi. Brislingar, einkum seiðin, halda sig stundum í árósum þar sem þeir þola seltulítinn sjó [2]. Hrygning brislinga getur átt sér stað allt árið um kring en helst fer hrygning fram vestan við strendur Skotlands frá mars til maí en í Eystrasalti er aðalhrygningartímabilið frá maí til júlí. Hrygningin fer fram í lotum og getur tekið einhverja daga, hugsanlega mánuði. Kjöraðstæður til klaks eru við 6-12°C [1]. Brislingur hrygnir á 10-20 metra dýpi. Hrygning á sér yfirleitt stað nærri ströndu en hún getur farið fram allt að 100 km út í sjó. Á meðan hrygningu stendur framleiðir fiskurinn á bilinu 6.000-14.000 sviflæg egg sem rekur svo við ströndu [2]
Veiðar og afli
[breyta | breyta frumkóða]Brislingur er ekki alinn í fiskeldi heldur er hann eingöngu veiddur beint úr sjónum. Langstærstur hluti veiða á brislingi er í Norðaustur-Atlantshafi, eða um 91%. Einnig er hann veiddur í Miðjarðahafinu og í Svartahafi . Fjölmargar þjóðir veiða brisling en á árunum 1950-2022 stóðu Danmörk, Svíþjóð og Sovétríkin fyrir stærstum hluta aflans. Brislingur hefur verið mikið veiddur í gegn um árin en þegar mest lét, árið 1975, var heimsaflinn næstum því 1 milljón tonn. Eftir það dróst verulega úr aflanum en árið 1985 var heildaraflinn rétt rúm 220.000 tonn og átti eftir að haldast undir 500.000 tonnum þar til árið 1994. Síðan þá hafa veiðar verið stöðugar að mestu, á bilinu 600-700 þúsund tonn, með fáeinum undantekningum. Smávegis hefur dregist úr veiðum undanfarin ár en heildarafli hefur ekki farið yfir 600.000 tonn síðan árið 2016 [3].
Aflinn nýtist að mestu í mjöl og lýsi en þó er einhver hluti hans sem nýtist til manneldis. Þá er fiskurinn til dæmis reyktur, niðursoðinn eða borinn fram hrár [1].
Brislingur á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Þessi mikilvægi nytjafiskur veiddist í fyrsta skipti innan íslenskrar lögsögu í ágúst árið 2017. Sá fiskur var veiddur í leiðangri Hafrannsóknastofnunar út frá Eyjafjallasandi við 20 metra dýpi en aðeins einn fiskur veiddist í þeirri ferð. Hann var 14,6 sentímetrar og að öllum líkindum fullþroska [1].
Næstu ár fann Hafrannsóknastofnun mismikið af brislingi í ferðum sínum og árið 2021 var hægt að staðfesta að hrygning hafi átt sér stað um sumarið í Ísafjarðardjúpi. Fiskurinn hefur veiðst víðsvegar um Suður- og Vesturland. Ástæða þess að hann hefur ekki fundist fyrir norðan eða austan land er líklega vegna þess að sjórinn þar er of kaldur hluta ársins en ekki er útilokað að hann berist þangað síðar. Þar sem brislingur er mjög heimakær tegund þykir líklegra að egg og lirfur brislinga hafi rekið til Íslands frá Færeyjum frekar en að fullvaxnir fiskar hafi synt yfir til Íslands [4].
Koma brislings til landsins hefur bæði góð og slæm áhrif á vistkerfið. Brislingur er feitur fiskur og þykir gott æti fyrir sjófugla, spendýr og aðra fiska. Á hinn bóginn getur hann verið í samkeppni um fæðu við smásíld þar sem þeir éta það sama. Brislingur étur einnig sviflæg egg og lirfur sem gæti mögulega haft áhrif á stofna þorsks og annarra nytjategunda [4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Jónbjörn Pálsson, Guðjón Már Sigurðsson, Ingibjörg G. Jónsdóttir, Klara B. Jakobsdóttir, Nicholas Hoad, Valur Bogason og Jón Sólmundsson (2021). „Brislingur, Sprattus sprattus (Linnaeus, 1758), ný fisktegund við Íslandsstrendur“ (PDF). Sótt janúar 2025.
- ↑ 2,0 2,1 Froese, R. og Pauly, D. „Sprattus sprattus (Linnaeus, 1758)“. FishBase. Sótt janúar 2025.
- ↑ FAO. (2022). Fishery and Aquaculture Statistics. [Global capture production 1950-2022] (FishStatJ). http://www.fao.org/fishery/statistics/software/FishStatJ/enTenglar á ytra svæði.
- ↑ 4,0 4,1 Guðjón Guðmundsson. (2022, 28. janúar). Virðist vera að festa sig í sessi við landið. Viðskiptablaðið: Fiskifréttir. https://fiskifrettir.vb.is/virdist-vera-ad-festa-sig-i-sessi-vid-landid/