Brekkuskóli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brekkuskóli er fjölmennasti grunnskólinn á Akureyri. Hann er einn af 10 grunnskólum bæjarins.

Brekkuskóli er grunnskóli, staðsettur við Skólastíg á Syðri Brekkunni á Akureyri. Þar eru tæplega 500 nemendur. Hann var stofnaður 1997 með sameiningu Gagnfræðiskólans á Akureyri og Barnaskóla Akureyrar.

Stærð[breyta | breyta frumkóða]

Brekkuskóli er fjölmennasti grunnskólinn á Akureyri. Árið 2021 voru 498 nemendur í 1.—10. bekk við skólann. Það ár voru 68.8 stöðugildi við skólann, þar af um 40 kennarar.[1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Skólastarf fyrirrennara Brekkuskóla má rekja aftur til þess er formlegt skólastarf af hálfu Akureyrarbæjar hófst árið 1871. Í fyrsti skólanum sem var í Aðalstræti í „Innbænum“, stunduðu um 20 nemendur nám. Árið 1900 var opnaður nýr barnaskóli fyrr bæjarfélagið, staðsettur í Hafnarstræti 25, á milli bæjarhlutanna Innbæjar og Oddeyrar. Árið 1930 flutti Barnaskóli Akureyrar í nýtt skólahúsnæði uppi á Brekkunni, í það hús sem nú er kallað „Rosenborg“ austan við núverandi Brekkuskóla.[2]

Árið 1903 voru samþykkt lög á Alþingi um uppbyggingu Gagnfræðaskóla á Akureyri í tveimur deildum „neðri gagnfræðadeild“ og „efri lærdómsdeild“ sem varð að Menntaskólanum á Akureyri árið 1930. Á sama tíma var settur á laggirnar nýr Gagnfræðaskóli að Lundargötu 12 á Oddeyrinni. Árið 1943 flutti sá skóli upp á brekkuna í nýtt og glæsilegt húsnæði við Laugargötu. Skólastarf var þar til ársins 1997. Þar er nú Brekkuskóli.[3] [4]

Núverandi Brekkuskóli hóf starfssemi haustið 1997 við sameiningu Gagnfræðiskólans á Akureyri og Barnaskóla Akureyrar.[5]

Staðsetning[breyta | breyta frumkóða]

Brekkuskóli er við Skólastíg á Syðri Brekkunni á Akureyri. Í sveitarfélaginu eru grunnskólarnir  ekki hverfaskiptir nema að því leyti að hvert barn á rétt til skólagöngu í sínum hverfisskóla.[6] [7] [8]

Stjórnun[breyta | breyta frumkóða]

Skólastjóri Brekkuskóla (2023) er Jóhanna María Agnarsdóttir og staðgengill skólastjóra er Sigríður Magnúsdóttir.[9]

Nám og kennsla[breyta | breyta frumkóða]

Brekkuskóli býður nám í 1.—10. bekk. Í öllu skólastarfi er lögð áhersla á skóla án aðgreiningar og leitast við að hver nemandi fái nám og kennslu miðað við hæfni og þroska einstaklingsins. Lögð er áhersla á snemmtæka íhlutun og staða nemenda er metin á fjölbreyttan hátt.[10]

Skólinn í samstarfi við heimilin undirbýr nemendur undir líf og starf, hjálpa þeim að finna og nýta hæfileika sína og stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði þeirra.[11]

Skólabragur og hefðir[breyta | breyta frumkóða]

Skólinn hefur með einkunnarorðum og gildum mótað heildstæða stefnu um jákvæðan skólabrag. Skólabragurinn einkennist af samvinnu og ábyrgð allra í skólasamfélaginu.[10]

Einkennisorð skólans eru menntun, gleði, umhyggja, framfarir.  Lögð er áhersla á að þessi hugtök setji mark sitt á allt starf í skólanum.[12]

Skólinn er ungur að árum. Engu að síður byggir starfið á hefðum. Dæmi um það er „Söngur á sal“ þar sem hefð er að hafa samsöng nemenda á sal undir stjórn tónmenntakennara eða staðgengil hans.[13]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Rekstur leik- og grunnskóla“. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sótt 8. ágúst 2023.
  2. „Saga Oddeyrarskóla“. Oddeyrarskóli Akureyri. 26. júní 2018. Sótt 9. ágúst 2023.
  3. Kristján Eldjárn, Tryggvi Gíslason, Steindór Steindórsson, Gísli Jónsson, og Þórhallur Bragason. (1981). „Saga Menntaskólans á Akureyri 1880-1980“. Sótt 9. ágúst 2023.
  4. Bjarki Jóhannesson (febrúar 2019 - febrúar 2021 1921). „Akureyrarbær: húsakönnun fyrir Oddeyri 2020“ (PDF). Akureyrarbær. Sótt 9. ágúst 2023.
  5. „Dagur - Tíminn Akureyri - 21. tölublað (31.01.1997) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 8. ágúst 2023.
  6. Akureyrarkaupstaður. „Skólaval“. Akureyrarbær. Sótt 8. ágúst 2023.
  7. Skóladeild Akureyrarbæjar (2007). „SKÓLAVAL 2007- Bæklingur um skólaval“ (PDF). Skóladeild Akureyrarbæjar. Sótt 8. ágúst 2023.
  8. Akureyrarbær (2023). „Skólasvæða Akureyri - Kort er sýnir 1.5 km radíus frá skólum bæjarins“ (PDF). Akureyrarbær. Sótt 8. ágúst 2023.
  9. Brekkuskóli. „Skólinn“. Brekkuskóli. Sótt 8. ágúst 2023.
  10. 10,0 10,1 Hanna Hjartardóttir og Unnar Þór Böðvarsson (2015). „Menntamálastofnun: Ytra mat grunnskóla: Brekkuskóli Akureyri“ (PDF). Ytra mat unnið á vegum Menntamálastofnunar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Akureyrarkaupstað. Sótt 8. ágúst 2023.
  11. Brekkuskóli. „Stefna og sýn“. Brekkuskóli. Sótt 8. ágúst 2023.
  12. Brekkuskóli. „Stefna og sýn“. Brekkuskóli. Sótt 8. ágúst 2023.
  13. Brekkuskóli (2022). „Brekkuskóli: menntun - gleði - umhyggja - framfarir. Starfsáætlun 2022 - 2023“ (PDF). Brekkuskóli. Sótt 8. ágúst 2023.