Breiðfylking

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Makedónsk breiðfylking

Breiðfylking (enska: phalanx, úr grísku φάλαγξ) er ferhyrnd herfylking, oftast með þungvopnuðu fótgönguliði sem ber spjót eða kesjur. Upphaflega var þessi tegund herfylkingar notuð á snemmgrískum tíma og skipuð hoplítum. fremstu hermennirnir læstu þá skjöldum sínum saman og næstu raðir fyrir aftan beindu spjótum sínum yfir skjaldborgina. Þetta gerði óvinum mjög erfitt fyrir að ráðast gegn framhlið fylkingarinnar sem aftur gat þvingað óvinaherinn til að hörfa. Þessi herfylking hentaði best á opnum flötum vígvöllum. Notkun breiðfylkingar átti sitt mesta blómaskeið á tímum Alexanders mikla á 4. öld f.Kr. en með tilkomu rómversku herdeildarinnar, sem er sveigjanlegri fylking, hnignaði breiðfylkingunni hratt og hún hvarf að mestu af sviðinu þegar Rómverjar lögðu Makedóníu undir sig. Ýmsar hliðstæður við breiðfylkinguna hafa verið notaðar síðar, eins og skjaldborg víkinga og schiltron Skota á miðöldum.

Orðið breiðfylking er líka oft notað í yfirfærðri merkingu yfir samstarf stjórnmálahreyfinga eða launþegasamtaka.