Fara í innihald

Borkum

Hnit: 53°35′00″N 06°40′00″A / 53.58333°N 6.66667°A / 53.58333; 6.66667
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

53°35′00″N 06°40′00″A / 53.58333°N 6.66667°A / 53.58333; 6.66667

Fáni Borkums Skjaldarmerki Borkums

Borkum er stærst og vestust austurfrísnesku eyjanna í Vaðhafinu í Norðursjó. Hún er jafnframt vestasta þýska eyjan.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]
Á Borkum er samnefndur bær. Myndin er tekin úr nýja vitanum.

Borkum er vestasta eyja Þýskalands. Hún er stærst Austurfrísnesku eyjanna með 31 km². Eyjan liggur í minni árinnar Ems, rétt vestan við eyjuna Juist. Fyrir vestan eru Vesturfrísnesku eyjarnar en þær tilheyra Hollandi. Borkum er langlengst frá meginlandinu allra austurfrísnesku eyjanna, eða 10 km. Ástæðan fyrir því er sú að Ems breiðir svo mjög úr sér í Vaðhafinu. Miklar leirur eru fyrir sunnan eyjuna en þar stóð áður fyrr eyja. Borkum er einnig eina eyjan í eyjaklasanum sem ekki er ílöng, heldur er hún þríhyrningslaga. Miklar sandstrendur eru á norðurströnd Borkum sem gjarnan eru notaðar til baða. Á vesturendanum er bærinn Borkum en þar búa rúmlega 5.000 manns. Annars staðar er mikil náttúra. Á suðvesturhorninu er meira að segja skógur. Syðsti punktur eyjarinnar er ferjuhöfn en þaðan er nokkuð langt til bæjarins (um 4 km). Lítil járnbraut gengur á milli staðanna. Leyfilegt er að taka bíla með til eyjarinnar en Borkum er ein af tveimur austurfrísneskum eyjum þar sem bílaumferð er leyfileg. Meðfram gjörvallri vesturströnd eyjarinnar er varnargarður til varnar ágangi sjávar. Á Borkum er flugvöllur.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Borkum á sér eigin fána og skjaldarmerki. Fáninn er ljósgrænn með hvítum krossi. Efst til vinstri er fáni Austur-Fríslands. Fyrir miðju er mynd af vita og áletrun sem tekin er úr gömlu kirkjuinnsigli á eyjunni. Græni liturinn stendur fyrir grænu eyjuna eins og Borkum var áður nefnd. Hvíti krossinn stendur fyrir hvítu strendurnar og hreina loftið. Fáni þessi var hannaður 1929 og settur að hún á eyjunni í fyrsta sinn 1930. Skjaldarmerkið sýnir gamla vitann en hann er einkennismerki eyjarinnar. Til vinstri eru tveir blásandi hvalir en hvalveiðar voru að einhverju leyti stundaðar frá eyjunni á 17. og 18. öld.

Á miðaldakortum og textum má sjá að áður fyrr var stór eyja á staðnum sem hét Bant. Í stormflóði 1170 brotnaði þessi eyja í sundur og myndaði nokkrar smærri eyjar, þar á meðal Juist og Borkum. Það sem eftir var af Bant sökk í sæ í næstu stormflóðum. Heitið Borkum kemur fyrst fyrir 1227 (ritað Borkna) en það merkir burkni. Merkingin er því Burkney. Upphaflega var Borkum tvær eyjar sem vatnsrás skildi að en hún sameinaðist á 19. öld. Hlutarnir hétu Westland og Ostland (Vesturland og Austurland). Frá miðri 15. öld tilheyrði Borkum greifunum í Austur-Fríslandi. Þegar síðasti greifinn dó barnlaus 1744, skipti eyjan allmörgu sinnum um eigendur.

Ár Eigandi Ath.
1744 Prússland
1807 Holland Meðan Napoleon réði ríkjum í Evrópu
1810 Frakkland
1815 Konungsríkið Hannover Samkvæmt úrskurði Vínarfundarins
1866 Prússland Er Prússland innlimaði Hannover
1918 Weimar-lýðveldið Eftir að Prússland var lagt niður sem keisararíki
1945 Breska hernámssvæðið Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni síðari
1946 Neðra-Saxland Við stofnun sambandslandsins
Baðgestir á 19. öld

Á fyrri hluta 19. aldar tók fólk að sækja baðstrendur eyjarinnar. Það var þó ekki fyrr en um miðja 19. öld að eyjan varð að þekktum baðstað. Síðan þá hafa atvinnuvegir eyjaskeggja breyst í það að þjónusta ferðamenn. Árið 1900 var fyrsta strandloftskeytastöð heims reist á Borkum, en það var ríkispóststöðin sem starfrækti hana. 1902 ákvað Vilhjálmur II keisari að hervæða eyjuna, þar sem hún var við norðvesturmörk ríkisins. Reist voru varnarbyrgi, hermenn og vopn voru flutt þangað og lestarkerfið lengt. Lengi áður en uppgangstími nasista kom til, var Borkum þekkt fyrir að harkalega afstöðu gegn gyðingum. Í bæklingi einum frá 1897 mátti lesa að eyjan væri með öllu laus við gyðinga. Við inngang hótela voru hengd upp skilti sem á stóðu: „Gyðingum og hundum bannaður aðgangur“. 1934 var eyjan notuð fyrir prófun á raketum sem vísindamaðurinn Wernher von Braun hannaði. Raketurnar voru þær fyrstu í heiminum sem náðu tvo km hæð og voru brautryðjandi fyrir þróun þeirra, sem fram fóru annars staðar eftir þetta. Borkum varð ekki fyrir loftárásum eða innrás herja í heimstyrjöldinni síðari. En í stríðslok girntust Hollendingar eyjuna (og reyndar fleiri eyjar) en bandamenn neituðu þeim um hana.

Skoðunarvert

[breyta | breyta frumkóða]
Strandlíf á Borkum
  • Nýi vitinn var reistur 1879 á aðeins 6 mánuðum eftir að gamli vitinn brann. Hann er 60 metra hár og opinn fyrir almenningi. Hægt er að fara upp í turninn, en til þess verður að stíga upp 315 þrep. Vitinn er enn í notkun.
  • Gamli vitinn var reistur 1576. Hann er þar með elsta nústandandi bygging eyjarinnar og er jafnframt einkennismerki eyjarinnar. Vitinn er aðeins 45 metra hár og stendur á grunni gamallar kirkju. Í upphafi var turninn aðeins siglingamerki, en 1817 fékk hann ljós þegar 27 olíulampar voru settir upp í honum. Í febrúar 1879 brann turninn í eldi og eyðilagðist þá ljósið. Turninn stendur enn og er opinn almenningi.
  • Vitaskipið Borkumriff liggur við festar í ferjuhöfninni. Það var síðasta virka vitaskip Þýskalands og var ekki tekið úr umferð fyrr en 1989. Í dag þjónar það sem skrifstofur og upplýsingamiðstöð fyrir þjóðgarðinn Vaðhafið í Neðra-Saxlandi (Nationalpark Niedersächsisches Wattenmeer), en hann er á heimsminjaskrá UNESCO. Skipið er opið almenningi.
  • Smálestin á Borkum er skoðunarverð. Hún var lögð 1888 frá höfninni til bæjarins. Járnbrautin er mjórri en gengur og gerist, en aðeins eru 90 cm milli teina. Járnbrautin er enn í gangi í dag og flytur farþega og vörur frá ferjuhöfninni til bæjarins og til baka.
  • Á eyjunni eru miklar baðstrendur, sundlaugar og baðhýsi. Stærsta sundlaugin, Gezeitenland, var á sínum tíma stærsta öldugangssundlaug Evrópu.
  • Wohner og Ney. Nordseeinseln. GeraNova/Bruckmann. 2005.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Borkum“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.