Borgarastríðið á Kosta Ríka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Borgarastríðið á Kosta Ríka var blóðug borgarastyrjöld í Kosta Ríka sem stóð í 44 daga; frá 12. mars til 24. apríl 1948. Um 2.000 manns létu lífið. Orsök átakanna var að þing Kosta Ríka, þar sem stuðningsmenn stjórnarinnar voru í meirihluta, ákvað að ógilda úrslit forsetakosninga í febrúar 1948 þar sem frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, Otilio Ulate, sigraði Rafael Ángel Calderón Guardia.

Þetta varð til þess að uppreisnarher, undir stjórn athafnamannsins José Figueres Ferrer, tók upp vopn gegn ríkisstjórn Teodoro Picado Michalski. Andstæðingar Ferrer voru bæði stjórnarherinn, sem fékk stuðning frá Níkaragva undir stjórn Anastasio Somoza García og kommúnistaflokkurinn Framvörður alþýðunnar. Ferrer fékk mikla hernaðaraðstoð frá Gvatemala undir stjórn Juan José Arévalo en afskipti Bandaríkjanna komu í veg fyrir að stjórnin fengi næga aðstoð frá Níkaragva, þar sem Bandaríkjamenn óttuðust valdarán kommúnistanna í Framverði alþýðunnar. Stjórnarherinn varð því brátt uppiskroppa með birgðir og gafst upp.

Eftir borgarastyrjöldina ríkti Ferrer um 18 mánaða skeið sem forystumaður herforingjastjórnar. Á þeim tíma kom hann á röð breytinga sem höfðu mikil áhrif á samfélag Kosta Ríka um langa framtíð; Meðal þess sem hann gerði var að leggja niður og banna her Kosta Ríka til frambúðar, gefa konum og ólæsum kosningarétt, koma á almannatryggingum, þjóðnýta banka, banna kommúnistaflokkinn, tryggja börnum þeldökkra innflytjenda ríkisborgararétt og sjá til þess að ný stjórnarskrá var samin.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.