Fara í innihald

Bolton

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bolton
Miðborgin í Bolton
Miðborgin í Bolton
Staðsetning Bolton
Bolton í Englandi
LandEngland
SvæðiNorðvestur-héruð Englands
SýslaStórborgarsvæði Manchester (áður fyrr Lancashire
Stofnun11. öld
Mannfjöldi
 (2011)
 • Samtals139.403
TímabeltiGMT
Vefsíðawww.bolton.gov.uk

Bolton er borg í Norðvestur-hérað Englands og tilheyrir stórborgarsvæði Manchester. Íbúar eru um 140 þúsund. Þrátt fyrir stærðina hefur Bolton aldrei hlotið almenn borgarréttindi.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Bolton liggur yst á mörkum Stór-Manchestersvæðisins, en miðborg Manchester liggur aðeins 15 km til suðausturs. Aðrar stærri borgir nálægt Bolton eru Blackburn til norðurs (15 km), Preston til norðvesturs (20 km) og Liverpool til suðvesturs (30 km). Í Bolton er mikill iðnaður, en stór iðnaðarsvæði eru sérlega áberandi í austurhluta borgarinnar við dalbotn árinnar Croal.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Bolton er dregið af gömlu ensku orðunum bothel og tun. Bothel er sérstök bygging eða hús. Tun er gamalt orð yfir (sbr. town í nútímaensku). 1185 er bærinn ritaður Boelton og 1212 Bothelton. Heitið breytist Bowelton, Botelton og Boulton áður en rithátturinn breytist í Bolton. Íbúarnir eru kallaðir Boltonians.

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Bolton er rauður skjöldur með tveimur gullnum þverröndum. Efst til hægri er ör, næla og vefaraprik, allt gulllitað. Neðst til rauð rós á gullnum smáskildi. Þverrendurnar eru gamlar og er merking þeirra ekki þekkt. Hugsanlega eru þær belti hermanns. Skjaldarberarnir eru tvö svört ljón frá Flæmingjalandi til að minnast þess að það voru Flæmingjar sem færðu borgarbúum vefnaðinn. Nælan og vefaraprikið eru einnig tákn um vefnaðinn mikla í borginni á 19. öld. Ljónin halda á flöggum ríkjandi ætta (jarlanna í Derby og herragarðsins í Bolton). Örin er til tákns um þátttöku íbúa Bolton í orrustunni við Flodden Field 1513 en rósin er tákn Lancashire, sem Bolton tilheyrði í nokkrar aldir. Fíllinn efst var upphaflega tekinn úr merki Coventry, en Bolton var eitt sinn í biskupsdæminu Mercia, en höfuðstaður þess var Coventry. Neðst er borði með áletruninni: SUPERA MORAS, sem merkir að yfirstíga tafir. Bolton-super-Moras er gamla latneska heiti borgarinnar. Skjaldarmerkið var veitt 5. júní 1890.

Saga Bolton[breyta | breyta frumkóða]

Jarlinn af Derby (James Stanley)
Swan Lane Mills, ein af spunaverksmiðjunum í Bolton

Bolton kom fyrst við skjöl 1067 og kallaðist þá Bolton-le-Moors. Herrasetur var á staðnum og bjuggu þar lengst af ættmenn jarlsins af Derby. Svæðið var á þessum tíma skipt í tvennt, Great Bolton og Little Bolton, en áin Croal skildi á milli. Í kringum herrasetrið myndaðist svo bær. 1251 veitt Hinrik III konungur bænum markaðsréttindi og varð hann eigið sveitarfélag innan Lancashire. Flæmskir vefarar settust að í Bolton 1337 og komu af stað umfangsmiklum vefnaði, sem og framleiðslu á klossum. Vefnaðurinn varð mikil lyftistöng fyrir bæinn næstu aldir. Fleiri flæmingjar fluttust til Bolton á 17. öld er þeir flýðu ofsóknir á hendur húgenottum í heimalandi sínu. Sökum þessa var Bolton algerlega á bandi lýðveldissinna og púrítana í ensku borgarastyrjöldinni. Jarlinn af Derby fór því þangað með 10 þúsund manna herlið 28. maí 1644 og nær gjöreyddi bænum. 1.500 manns voru drepnir og 700 teknir til fanga. Atburður þessi gekk í sögubækurnar sem Bolton Massacre (fjöldamorðin í Bolton). Þegar borgarastríðinu lauk var jarlinn sóttur til saka og tekinn af lífi í bænum. Segja má að iðnbyltingin hafi hafist í bænum er spunavél var smíðuð þar 1779 af Samuel Crompton (fæddur í Bolton). Vefnaður jókst þá til muna og blómstraði hann alla 19. öldina. Fyrir flutninga var skipaskurður grafinn til Manchester 1791 og járnbrautartenging þangað 1828. Árið 1911 voru 36 þús manns starfandi í vefnaðargeiranum. Iðnaður þessi hrundi ekki fyrr en á þriðja áratugnum. 26. september 1916 varð Bolton fyrir einni fyrstu loftárás sögunnar er Zeppelin-loftfar varpaði 21 sprengju á bæinn. Bolton kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni síðari. Þá tók við annars konar iðnaður og þjónustugreinar ýmiss konar. 2004 var háskólinn University of Bolton stofnaður. Bærinn hefur allt til dagsins í dag ekki hlotið borgarréttindi. Great Bolton og Little Bolton voru sameinaðir í eitt sveitarfélag 1838 og hefur bærinn verið stækkaður nokkru sinnum síðan. 2011 sótti bærinn um að verða sérstakt sveitarfélag en fékk ekki.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Í Bolton fer árlega fram keppnin Ironman-UK, en það er breska landskeppnin í þríþraut. Hér er um sund, hjólreiðar og hlaup að ræða. Keppnin í Bretlandi hófst 2005 í Sherbourne en var færð til Bolton 2009, þar sem hún hefur farið fram síðan. Síðan 2010 fer sundið þó fram í nágrannaborginni Wigan.

Helsta knattspyrnulið borgarinnar er Bolton Wanderers. Það hefur leikið í 73 ár í efstu deild án sigurs, lengur en nokkurt annað enskt félag. Að öðru leyti hefur liðið fjórum sinnum unnið bikarkeppnina, síðast 1958.

Íslendingar hafa leikið með liðinu: Guðni Bergsson (1995-2003), Eiður Smári Guðjohnsen (1998-2000, 2014-2015), Grétar Rafn Steinsson (2008-12) og Jón Daði Böðvarsson. (2022-)

Hokkí, krikket og rúgbý skipa einnig stóran sess í íþróttasögu borgarinnar.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Bolton viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir :

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Kráin Ye Olde Man & Scythe
  • Ye Olde Man & Scythe er eitt elsta hús Englands og elsta húsið í Bolton. Það kemur fyrst við skjöl 1251 og er trúlega frá fyrri hluta 13. aldar. Húsið var endurreist 1636. Framhliðin var endurgerð á 20. öld. Það var fyrir framan þetta hús sem jarlinn af Derby var tekinn af lífi 1651 fyrir þátt sinn í fjöldamorðunum í Bolton. Húsið er krá í dag. Þar er stóll sem sagt er að jarlinn hafi setið á áður en hann var leiddur út til aftöku sinnar.
  • Péturskirkjan er höfuðkirkja anglísku kirkjunnar í Bolton. Hún var reist 1867-71 og er þriðja kirkjan á reitnum. Fyrsta kirkjan var reist af engilsöxum og önnur kirkjan á tímum normanna. Sú kirkja var rifin 1866 og fannst þá í henni kross frá 8. öld. Hann er, ásamt öðrum gömlum kirkjumunum, geymdur til sýnis í núverandi kirkju. Turninn er 55 m hár. Kirkjusókn Péturskirkjunnar kallast gamla heitinu Bolton-le-Moors.
  • Ráðhúsið í Bolton var reist 1866-73 í nýklassískum stíl og stækkað á fjórða áratug 20. aldar. Í viðbót sem kallast Civic Centre er sögusafn, bókasafn, heilsugæsla, lögreglustöð og dómssalur. Húsin eru friðuð.
  • Reebok Stadium er knattspyrnuvöllur og heimavöllur Bolton Wanderers. Hann var tekinn í notkun 1997 og tekur 28 þúsund manns í sæti.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]