Fara í innihald

Bolludagur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslensk vatnsdeigsbolla með rjóma, sultu og súkkulaði ofaná
Dönsk bolludagsbolla úr vínarbrauðsdeigi.
Sænsk bolludagsbolla, gerbolla með marsípan- og rjómafyllingu.

Bolludagur er mánudagurinn í föstuinngangi, 7 vikum fyrir páska, en föstuinngangur kallast síðustu þrír dagarnir fyrir lönguföstu, sem hefst á miðvikudegi með öskudegi.

Algengt var í kaþólskum sið að fastað væri á kjöt dagana tvo fyrir lönguföstu og var það boðið í þjóðveldislögunum. Önnur merki um siði tengda þessum degi er ekki að finna fyrr en á 19. öld. Í Sturlungu og biskupasögum er talað um „að fasta við hvítan mat“ (mjólkurmat) í föstuinngang. Líklegt er að menn hafi nýtt sér þessa daga fyrir langt föstutímabil til að gæða sér á ýmsu góðgæti, ekki síst brauðmeti. Í dönskum heimildum frá því um 1700 er talað um hveitibollur sem muldar eru og hrærðar með mjólk og smjöri og borðaðar í föstuinngang.[1] Bolluát og feitmetisát virðist á öðrum Norðurlöndum reyndar hafa verið meir bundið við þriðjudaginn næsta í föstu. En á Íslandi hafa menn bundið þennan sið við mánudaginn, sennilega til að trufla ekki hefðbundinn matarsið sprengidagsins. Á síðustu áratugum hefur bolluátið þó færst að hluta yfir á sunnudaginn.

Bolludagur á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Flengingar og bolluát berst líklega til Íslands fyrir dönsk eða norsk áhrif á síðari hluta 19. aldar, líklega að frumkvæði þarlendra bakara sem settust hér að. Heitið Bolludagur er ekki þekkt fyrr en eftir aldamót og mun orðið til hérlendis. Upphaflega bárust siðirnir að slá köttinn úr tunnunni og að marsera í grímubúningum frá Danmörku fyrir 1870 en lagðist víðast hvar af eftir aldamótin. Þessir siðir héldust samt áfram á Akureyri en 1915 færðust þeir yfir á öskudaginn og hafa síðan smásaman breiðst þaðan út aftur sem öskudagssiðir. Heitið bolludagur sést fyrst á prenti 1910 en annars var dagurinn oft kallaður flengingardagur.

Á Ísafirði, Bolungarvík og nágrenni færðust ekki allir siðir bolludagsins yfir á öskudag. Þar viðhélst sá siður að strákar klæddu sig upp og gengu í hús með leik, söng og betli líkt og krakkar gera á öskudaginn. Þar heitir þessi dagur Maskadagur og má rekja uppruna hanns aftur til síðari hluta 19. aldar líkt og bolludaginn og hefur hann haldist síðan. Upp úr 1940 var farið að halda grímudansleiki og krakkar eignuðust daginn en upphaflega tóku fullorðnir líka þátt í leiknum og hefur þessi siður haldist síðan. Ólíkt þeim söng sem tíðkast á öskudaginn var líka sú hefð áður fyrr að leika stutt leikrit og átti þá sá sem verið var að betla af að geta sér til um hverjir það væru sem földu sig bakvið grímur og búninga. Sá siður hefur þó lagst af og grímubúningar og söngur eins og á öskudeginum tekið alfarið við. Lengst af var bara gengið í hús en í seinni tíð hafa krakkar farið að fara í verslanir og fyrirtæki fyrri part dags líkt og tíðkast á öskudaginni en á kvöldin er gengið í heimahús. Sökum þessa fá krakkarnir frí á Sprengidag, enda stendur dagurinn yfir fram á kvöld, en ekki á Öskudag líkt og tíðkast annarstaðar á landinu. Tilheirandi Maskadagsböll eru haldin þennan dag þar sem krakkar jafnt sem fullorðnir koma saman uppáklædd í búningum til að skemmta sér.[2]

Bolluát á bolludag

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi hefur tíðkast í yfir hundrað ár að borða bollur á þessum degi og í Þjóðólfi 1910 er talað um bolluát á bolludaginn.[3] Þó mun það hafa þekkst eitthvað áður og í matreiðslubók Þ.A.N. Jónsdóttur frá 1858 er uppskrift að langaföstusnúðum, þ.e. bolludagsbollum. Reykvísk bakarí fara að auglýsa bollur á bolludaginn á öðrum áratug aldarinnar og í Morgunblaðinu 1915 er kvartað yfir hnignun bolludagsins: „... það eina sem virðist vera eftir af kætinni frá fyrri tímum á »bolludaginn«, er óhemju kökuát barnanna — og full búðarskúffan af smápeningum hjá bökurum bæjarins. »Bollan« kostar því miður þrjá tveggeyringa í þetta sinn!“[4]

Áætlað hefur verið að íslenskir bakarar baki um eina milljón bolla fyrir bolludaginn en einnig eru margir sem baka bollur heima. Bollurnar eru nú oftast bornar fram með sultu og rjóma innan í og hattur bollunnar skreyttur með súkkulaðihulu eða glassúr en þó eru margar aðrar útgáfur til. Tvær tegundir af bollum eru algengastar: vatnsdeigsbollur (sem eru mjúkar og frauðkenndar) og gerbollur (sem eru öllu fastari í sér). Bollur bolludagsins breytast lítið frá ári til árs, en bolluskrautið breytist alltaf lítillega eftir smekk tímans. Í Morgunblaðinu 1935 auglýsir bakaríið Freia til dæmis eftirfarandi bollutegundir á bolludeginum:

Rjómabollur, rommbollur, krembollur, súkkulaðibollur, rúsínubollur, vínarbollur, hveitibollur. [5]

Ýmsir hafa líka þann sið að borða fisk- eða kjötbollur á bolludaginn og má rekja það að minstakosti aftur á fjórða áratug 20. aldar en þá auglýsti niðursuðuverksmiðja S.Í.F. fiskbollur á bolludaginn undir slagorðinu: „Gerið bolludaginn þjóðlegan“.[6] Fyrst og fremst hafa það þó verið rjóma-og krembollur sem einkennt hafa mataræðið þennan dag.

Bolluvendir

[breyta | breyta frumkóða]

Það er einnig rík hefð fyrir því að föndraðir séu bolluvendir, oftast úr litríkum pappírsræmum sem límdar eru á prik. Börn flengja svo foreldra sína með eða forráðamenn með vendinum og hrópa: „Bolla! Bolla! Bolla!“. Sá siður að vekja menn með flengingum á bolludaginn er talinn hafa borist til Danmerkur frá mótmælendasvæðunum í norðanverðu Þýskalandi og síðan til Íslands með dönskum kaupmönnum á 19. öld. Í upphafi taldist flenging ekki gild nema flengjarinn væri alveg klæddur og fórnarlambið óklætt, og því ekki óalgengt að börn vöknuðu snemma til að geta „bollað“ foreldra sína í rúminu. Sá sem er flengdur getur losnað undan þjáningunum með því að gefa bollu í staðinn, og fyrir hvert högg átti barnið að fá eina bollu.

Flengingar þessar eiga sér líklega kaþólska fyrirmynd í táknrænum hirtingum á öskudag. Vöndurinn minnir á stökkul sem notaður var til að dreifa vígðu vatni við föstuinngang. Sumir telja hýðingarnar upprunalega lið í frjósemisgaldri og með þeim eigi að vekja alla náttúruna til lífs og starfa þegar vorið sé í nánd.

Dagsetningar bolludags á næstu árum

[breyta | breyta frumkóða]
  • 2024 - 12. febrúar
  • 2025 - 3. mars
  • 2026 - 16. febrúar

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Dagligt liv i Norden i det sekstende århundrede Á Runeberg.org.
  2. „Maskadagur á Ísafirði“. ruv.isn. Sótt 9. febrúar 2016.
  3. Þjóðólfur, 18. febrúar 1910.
  4. Morgunblaðið, 14. febrúar 1915.
  5. Morgunblaðið 1935
  6. Alþýðublaðið, 18. febrúar 1939
  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.