Boeing 787 Dreamliner

Boeing 787 Dreamliner er farþegaflugvél frá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing. Vélin er breiðþota sem ber yfirleitt á bilinu 200 til 350 farþega og er nýjasta flugvélagerðin sem hönnuð var frá grunni af Boeing.
Vélin var fyrst kynnt undir nafninu Boeing 7E7 árið 2003 og þá var stefnt að því að afhenda fyrstu vélarnar 2008. Japanska flugfélagið All Nippon Airways varð fyrst til þess að leggja inn pöntun á vélinni. Ýmis konar vandræði komu þó upp við hönnun og framleiðslu vélarinnar sem töfðu fyrir afhendingu þeirra. All Nippon Airways fékk fyrstu vélarnar afhentar 2011. Markmiðið með hönnun Boeing 787 var að nýta nýjustu tækni til þess að ná fram meiri sparneytni á eldsneyti. Helsta nýjungin var að nota samsett efni (aðallega koltrefjar) í skrokk vélarinnar í stað álblöndu eins og algengast er en það var gert í því skyni að létta vélina til að draga úr eldsneytisneyslu.[1]
Við framleiðslu vélarinnar reiddi Boeing sig mun meira á útvistun einstakra framleiðsluþátta til verktaka úti um allan heim en áður hafði tíðkast. Lokasamsetning hennar fór fram í Everett í Washington-fylki til 2021 en eftir það í verksmiðju Boeing í Suður-Karólínu.[2]
Allar Boeing 787 vélar voru kyrrsettar 2013 vegna hættu á bruna í liþín-jóna-rafhlöðum en ekki urðu þó alvarleg slys af þessum völdum. Fyrsta banvæna flugslysið þar sem Boeing 787 kom við sögu varð 12. júní 2025 þegar vél Air India hrapaði til jarðar strax eftir flugtak frá flugvelli í Ahmedabad á Indlandi en vélin var á leið til London Gatwick-flugvallar. Um borð voru 242 og af þeim lifði aðeins einn maður af en einnig létust margir á jörðu niðri og tala látinna í heild er yfir 270.[3]
Í maí 2025 höfðu 2.137 Boeing 787 flugvélar verið pantaðar frá upphafi en 1.189 afhentar til kaupenda.[4]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Boeing 787: A Matter of Materials -- Special Report: Anatomy of a Supply Chain“. IndustryWeek. 15. nóvember 2007. Sótt 16. júní 2025.
- ↑ „Boeing's Big Dream“. Fortune (enska). 5 maí 2008. bls. 182. (vefútgáfa) Geymt 30 júlí 2013 í Wayback Machine
- ↑ „Air India plane crash death toll rises to 270“ (enska). BBC News. 16. júní 2025. Sótt 16. júní 2025.
- ↑ „Orders & Deliveries“. The Boeing Company (enska). 31 maí 2025. Sótt 10 júní 2025.
