Blöndudalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Séð út eftir Blöndudal. Bærinn Blöndudalshólar lengst til hægri

Blöndudalur er dalur í Austur-Húnavatnssýslu, næstaustastur húnvetnsku dalanna, og má segja að hann sé framhald af Langadal og taki við þar sem Svartá sameinast Blöndu úr austri.

Áin Blanda rennur eftir Blöndudal. Dalurinn er fremur djúpur og þröngur, þótt engin eiginleg fjöll liggi að honum, og þar er lítið um undirlendi en hann er vel gróinn, víða upp á brúnir. Dalurinn skerst langt inn í heiðarnar og er fremri hluti hans óbyggður og telst til afréttarinnar. Heiðin austan Blöndu kallast Eyvindarstaðaheiði en vestan árinnar er Auðkúluheiði. Fremsta drag dalsins kallast Rugludalur, grunnur og grösugur dalur þar sem áður var bærinn Rugludalur. Hann er nú í eyði en hefur lengi verið í eigu hreppsfélagsins, er afgirtur og hefur verið nýttur af nokkrum bæjum í dölunum. Blöndudalur er veðursæll og þar eru margar góðar bújarðir. Af þeim má nefna Höllustaði, Guðlaugsstaði og Löngumýri. Bollastaðir og Eyvindarstaðir er innstu jarðir austan ár og hafa lengi talist til vildisjarða. Hengibrú er á Blöndu í neðanverðum dalnum.

Dalurinn skiptist áður milli tveggja sveitarfélaga, austurhlutinn tilheyrði Bólstaðarhlíðarhreppi en vesturhluti dalsins var í Svínavatnshreppi. Nú er allur dalurinn hluti af Húnavatnshreppi. Kirkjustaður og prestssetur var áður í Blöndudalshólum og áttu bæirnir austan ár og þrír fremstu bæir vestan ár þangað kirkjusókn. Kirkjan var lögð af árið 1880 og prestssetrið fluttist að Bergsstöðum í Svartárdal.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Frá óbygðum. Réttur, 1. hefti 1928“.
  • „Heimasíða Húnavatnshrepps. Skoðuð 17. febrúar 2011“.