Blakksgerði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Blakksgerði er bær í Svarfaðardal um 6 km frá Dalvík og er næsti bæt innan við Grund. Bærinn er neðan þjóðvegarins og stendur á háum malarhjalla upp af Svarfaðardalsá. Sunnan bæjarins er golfskáli Golfklúbbsins Hamars á Dalvík. Þar er Arnarholtsvöllur, 18 holu golfvöllur, en hann er að mestu í landi Ytra-Garðshorns. Blakksgerði er gamalt örnefni en ekki er vitað til þess að þar hafi verið búið fyrr en 1898 þegar þar var reist íbúðarhús og stofnsett bú. Jörðin tilheyrði Grund til að byrja með en varð svo sjálfstæð bújörð. Þar var búið fram yfir 1950 en nú er gamla íbúðarhúsið notað sem sumarbústaður.

Örnefnið Blakksgerði er nefnt á tveimur stöðum á Svarfdælu. Í fyrra skiptið er það nefnt í sambandi við sérkennilega skipasmíði þar í nágrenninu en í seinna skiptið tengist það frásögninni um það þegar landnámsmaðurinn Þorsteinn Svörfuður var heygður á melnum gegnt Blakksgerði. Þar er að líkindum átt við Arnarholtið en þar fannst mikill kumlateigur úr heiðnum sið um miðja 20. öld.