Blóðörn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Að rista blóðörn var aftökuaðferð sem er þekkt úr íslenskum fornritum. Í Þætti af Ragnars sonum er því lýst hvernig synir Ragnars loðbrókar hefndu hans með því að drepa Ella konung.

Létu þeir nú rista örn á baki Ellu og skera síðan rifin öll frá hryggnum með sverði, svo að þar voru lungun út dregin.

Svipaða lýsingu er að finna í Orkneyinga sögu þar sem Torf-Einar lætur drepa Hálfdan hálegg, son Haralds hárfagra. Þar virðist drápið vera blóðfórn.

Þar fundu þeir Hálfdan hálegg, og lét Einar rista örn á baki honum með sverði, og skera rifin öll frá hryggnum og draga þar út lungun, og gaf hann Óðni til sigurs sér.

Í Haralds sögu hárfagra segir einnig frá því þegar Einar jarl drepur Hálfdán hálegg. Hálfdán hafði myrt föður Einars. Síðan hafði Hálfdán ráðist inn í Orkneyjar og rekið Einar frá völdum.

Þá gekk Einar jarl til Hálfdanar. Hann reist örn á baki honum við þeima hætti að hann lagði sverði á hol við hrygginn og reist rifin öll ofan á lendar, dró þar út lungun. Var það bani Hálfdanar.