Björn Ingi Hrafnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Björn Ingi sem þáttastjórnandi fréttaskýringarþáttarins Eyjan á Stöð 2.

Björn Ingi Hrafnsson (f. 5. ágúst 1973) er íslenskur fjölmiðlamaður, og fyrrum útgefandi og stjórnarformaður Vefpressunnar sem átti hluti í fjölda fjölmiðla. Fjölmiðlaveldi hans sligaðist þó undan skuldum og var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2017.[1] Hann er einnig fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík, var aðstoðarmaður forsætisráðherra og aðstoðarmaður utanríkisráðherra og umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins Eyjunnar. Hann hefur undanfarin ár rekið fréttamiðilinn Viljann.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Björn Ingi fæddist í Hveragerði og ólst þar upp, en einnig á Flateyri, Akranesi og í Reykjavík. Foreldrar hans eru Hrafn Björnsson (f. 1945) og Björk Gunnarsdóttir (f. 1948).[2] Árið 2001 kvæntist Björn Ingi Hólmfríði Rós Eyjólfsdóttur hjúkrunarfræðingi (f. 1976) og eiga þau tvo syni, Hrafn Ágúst (f. 1999) og Eyjólf Andra (f. 2004). Seinni eiginkona Björns Inga er Kolfinna Von Arnardóttir og eiga þau tvö börn, Jóhannes Örn, f. 2012 og Björk Von, f. 2015. Björn Ingi er stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1993. Eftir það starfaði hann við fjölmiðla og víðar, og nam sagnfræði við Háskóla Íslands, án þess þó að ljúka prófi.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Björn var þingfréttaritari Morgunblaðsins til 2002, þegar hann gerðist skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, sem hann var til 2003. Árin 2002-2004 var hann varaformaður Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu. Sama ár tók hann sæti í miðstjórn SUF frá 2002, og 2003 varð hann aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra 2003-2004 sem síðar varð forsætisráðherra 2004-2006. Árin 2003-2005 var Björn stjórnarformaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Kjörtímabilið 2003-2007 var Björn í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og var því varaþingmaður Jónínu Bjartmarz.

Deilur um Orkuveitu Reykjavíkur[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir sveitarstjórnarkosningar 2006 bar hann sigurorð af Óskari Bergssyni og Önnu Kristinsdóttur í prófkjöri og fékk fleiri atkvæði en þau tvö samanlagt. Náði hann í kjölfarið kjöri sem eini borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, með 6% atkvæða -- þvert á allar skoðanakannanir. Myndaði hann borgarstjórnarmeirihluta með Sjálfstæðisflokknum, sem hélt til 11. október 2007, þegar hann sleit samstarfinu eftir harðar deilur um Orkuveitu Reykjavíkur, Geysi Green Energy og Reykjavik Energy Invest. Meðan á þeirri samvinnu stóð var Björn formaður borgarráðs, varaforseti borgarstjórnar, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs, stjórnarformaður Faxaflóahafna og varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.

24. janúar 2008 sagði Björn af sér sem borgarfulltrúi og við tók Óskar Bergsson. Vikuna sem á undan var gengin var Björn harðlega gagnrýndur af samflokksmanninum Guðjóni Ólafi Jónssyni, fyrrverandi þingmanni, vegna fatakaupa fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006. Björn Ingi kvaðst í tilkynningu ekki lengur geta starfað undir slíkum kringumstæðum og að Framsóknarflokkurinn þyrfti að hætta eilífum innanflokkserjum, ætlaði hann sér forystuhlutverk í íslenskum stjórnmálum.

Björn Ingi var ráðinn ritstjóri Markaðarins, viðskiptarits Fréttablaðsins, og yfirmaður viðskiptaumfjöllunar Stöðvar 2 í apríl 2008. Hann hætti síðar störfum hjá 365 miðlum, til að stofna vefritið Pressuna.

Í maí 2010 var hann kjörinn formaður Íþróttafélags Reykjavíkur.

Björn Ingi hefur skrifað þrjár bækur, þar af eina rafbók. Fram í sviðsljósið, Barist fyrir frelsinu og rafbók um upphaf kvikmyndasýninga á Íslandi.

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

  • Björn Ingi Hrafnsson: Fram í sviðsljósið - Endurminningar Halldórs G. Björnssonar, Mál og menning, Reykjavík 2001, ISBN 9979-3-2257-8.
  • Björn Ingi Hrafnsson: Barist fyrir frelsinu - áhrifamikil saga Guðríðar Örnu Ingólfsdóttur og Hebu Shahin og ævintýralegur flótti þeirra frá Egyptalandi, Vaka-Helgafell, Reykjavík 2002, ISBN 9979-2-1652-2 (innbundin) og 9979216921 (óinnbundin).

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Pressan gjaldþrota“. RÚV. 13. desember 2017. Sótt 22. september 2021.
  2. Hrafn Björnsson; grein í DV 1995

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni