Bjarni Sæmundsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bjarni Sæmundsson (f. á Járngerðarstöðum í Grindavík 15. apríl 1867, d. 6. nóvember 1940) var íslenskur náttúrufræðingur og kennari.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni lauk stúdentsprófi við Lærða skólann árið 1889, þá 22 ára gamall. Þá hélt hann til Kaupmannahafnar og nam landafræði og náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hann lauk prófi þar árið 1894 og sneri þá strax aftur til Reykjavíkur þar sem hann kenndi náttúrufræði við Lærða skólann næstu 29 ár.

Bjarni samdi fyrstu kennslubækurnar í náttúrufræði fyrir íslenska skóla. Bókin Náttúrufræði handa barnaskólum var áratugum saman kennd í barnaskólum landsins og fleiri kunnar kennslubækur lifðu eftir hans daga. Meðal annarra kennslubóka eftir hann eru Dýrafræði handa gagnfræðaskólum og Landafræði handa gagnfræðaskólum auk þess sem hann skrifaði kennslubókina Sjór og loft sem kennd var í náttúrufræðideildum menntaskólanna í áratugi.

Bjarni er þó þekktari fyrir rannsóknir sínar í fiskifræði. Danski dýrafræðingurinn Johannes Schmidt kom hingað í því skyni að rannsaka lífríki hafsins umhverfis Ísland ásamt föruneyti á rannsóknaskipinu Thor vorið 1903. Johannes fékk Bjarna til að taka þátt í leiðangrinum og upp frá því hélt Bjarni rannsóknum áfram á grunnsævinu við Suður- og Suðvesturland á leigðum bát. Þar rannsakaði hann hinar ýmsu fisktegundir fram til ársins 1930.

Bjarni hætti kennslu 1923, þá 56 ára gamall. Hann tók saman viðamikla þekkingu sína í bókinni Fiskarnir sem kom út 1926 og er 528 blaðsíður að lengd og prýdd 290 myndum. Á eftir fylgdu Spendýrin árið 1932 og Fuglarnir 1936.

Bjarni var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1905-1940. Fyrir merkar vísindarannsóknir og framlag til náttúrurannsókna var Bjarni Sæmundsson kjörinn heiðursdoktor við Hafnarháskóla á 450 ára afmæli skólans árið 1929.

Bækur[breyta | breyta frumkóða]

Bók Útgáfuár Útgáfustaður
Fiskarnir 1926 Reykjavík
Fuglarnir 1936 Reykjavík
Icelandic Malacostraca in the museum of Reykjavík 1937 Reykjavík
Kennslubók í landafræði 1945 Reykjavík
Kennslubók í dýrafræði 1914 Reykjavík
Lýsing Íslands 1912 Reykjavík
Sjór og loft 1919 Reykjavík
Sjórinn og sævarbúar 1943 Reykjavík
Spendýrin 1932 Reykjavík
Synopsis of the fishes of Iceland 1927 Reykjavík
Um láð og lög 1942 Reykjavík


Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hver var Bjarni Sæmundsson og hvert var hans framlag til náttúrufræða á Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  • Bjarni Sæmundsson dr. phil. h. c., Náttúrufræðingurinn, 3.-4. Tölublað (01.10.1940), Blaðsíða 97
  Þetta æviágrip sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.