Fara í innihald

Bjarni Benediktsson (f. 1908)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bjarni Benediktsson
Forsætisráðherra Íslands
Í embætti
14. nóvember 1963 – 10. júlí 1970
ForsetiÁsgeir Ásgeirsson
Kristján Eldjárn
ForveriÓlafur Thors
EftirmaðurJóhann Hafstein
Borgarstjóri Reykjavíkur
Í embætti
8. október 1940 – 4. febrúar 1947
ForveriPétur Halldórsson
EftirmaðurGunnar Thoroddsen
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. apríl 1908
Reykjavík, Íslandi
Látinn10. júlí 1970 (62 ára) Þingvöllum, Íslandi
DánarorsökEldsvoði
StjórnmálaflokkurSjálfstæðisflokkurinn
MakiValgerður Tómasdóttir (g. 1935; d. 1935)
Sigríður Björnsdóttir (g. 1943)
BörnBjörn, Guðrún, Valgerður og Anna
ForeldrarBenedikt Sveinsson og Guðrún Pétursdóttir
HáskóliHáskóli Íslands
StarfStjórnmálamaður

Bjarni Benediktsson (30. apríl 190810. júlí 1970) var borgarstjóri Reykjavíkur, alþingismaður, ráðherra og forsætisráðherra Íslands. Hann fæddist í Reykjavík, sonur Benedikts Sveinssonar, alþingismanns og bókavarðar, og Guðrúnar Pétursdóttur frá Engey, landsfrægs skörungs.

Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík átján ára að aldri og gegndi hann embætti forseta Framtíðarinnar árið 1925[1]. Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1930 með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin. Hann stundaði framhaldsnám í stjórnlagafræði í Berlín 1930-1932, var skipaður prófessor í lögum í Háskóla Íslands 1932 og gegndi því starfi til 1940. Hann varð heiðursdoktor í lögfræði frá Háskóla Íslands 1961.

Bjarni kvæntist Valgerði Tómasdóttur 1935 en missti hana eftir nokkurra mánaða sambúð. Hann kvæntist aftur 1943, Sigríði Björnsdóttur (1. nóvember 191910. júlí 1970) , og eignuðust þau fjögur börn, Björn, Guðrúnu, Valgerði og Önnu.

Borgarfulltrúi og borgarstjóri

[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni skipaði öruggt sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í bæjarstjórnarkosningunum 1934 og sat í bæjarstjórn til 1942. Við fráfall Péturs Halldórssonar 1940 varð Bjarni borgarstjóri Reykjavíkur. Hann var kosinn á þing 1942 og gegndi borgarstjórastarfi jafnhliða þingmennskunni næstu árin en lét af því árið 1947, þegar hann varð utanríkis- og dómsmálaráðherra. Hann sat einnig í borgarstjórn Reykjavíkur á árunum 1946-1949. Árið 1948 var Bjarni kosinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Þingmaður og ráðherra

[breyta | breyta frumkóða]
Bjarni Benediktsson og Levi Eshkol forsætisráðherra Ísraels árið 1964.

Bjarni var utanríkisráðherra 1949-1956 og átti drjúgan þátt í að marka þá utanríkisstefnu, sem Íslendingar hafa síðan fylgt. Hann var jafnframt dómsmálaráðherra sama tímabil og menntamálaráðherra 1953-1956.

Árið 1956 varð Bjarni Benediktsson aðalritstjóri Morgunblaðsins við hlið Valtýs Stefánssonar en sat jafnframt áfram á Alþingi. Hann var ritstjóri fram í nóvember 1959 er hann varð dóms-, kirkju- heilbrigðis- og iðnaðarmálaráðherra í viðreisnarstjórninni. Hann gegndi jafnframt fjölda trúnaðarstarfa og átti sæti í ýmsum stjórnum og nefndum.

Á landsfundi 1961 var dr. Bjarni kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Árið 1963 varð hann forsætisráðherra og gegndi þeirri stöðu þangað til hann fórst ásamt konu sinni og dóttursyni, Benedikt Vilmundarsyni, í eldsvoða á Þingvöllum aðfaranótt 10. júlí 1970.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Forsetar Framtíðarinnar frá 1883“. Menntaskólinn í Reykjavík.
  • Hannes Hólmsteinn Gissurarson (1989). Sjálfstæðisflokkurinn í sextíu ár. Sjálfstæðisflokkurinn.Fyrirrennari:
Ólafur Thors
Forsætisráðherra
(14. nóvember 196310. júlí 1970)
Eftirmaður:
Jóhann Hafstein
Fyrirrennari:
Ólafur Thors
Formaður Sjálfstæðisflokksins
(22. október 196110. júlí 1970)
Eftirmaður:
Jóhann Hafstein
Fyrirrennari:
Pétur Magnússon
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins
(8. nóvember 194822. október 1961)
Eftirmaður:
Gunnar Thoroddsen
Fyrirrennari:
Gunnlaugur Briem Einarsson
Forseti Framtíðarinnar
(19251925)
Eftirmaður:
Bjarni Sigurðsson