Fara í innihald

Björk Vilhelmsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Björk Vilhelmsdóttir (fædd 2. október 1963) er íslensk stjórnmálakona og félagsráðgjafi. Björk sat í borgarstjórn Reykjavíkur árin 2002 til 2015, fyrst fyrir Reykjavíkurlistann en frá og með með árinu 2006 fyrir Samfylkinguna.

Björk er fædd í Reykjavík og foreldrar hennar eru Kristín Pálsdóttir húsmóðir og verslunarmaður og Vilhelm Heiðar Lúðvíksson fyrrverandi lyfsali. Björk er gift Sveini Rúnari Haukssyni lækni og eiga þau samtals fjögur börn.[1]

Menntun og starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Björk lauk stúentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1983, BA prófi í uppeldisfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og starfsréttindanámi í félagsráðgjöf sama ár. Björk var formaður Stúdentaráðs HÍ 1986 og formaður Félags vinstri manna í HÍ 1985-1987.

Hún starfaði hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík 1987-1989, var félagsráðgjafi hjá Stígamótum 1990-1991, framkvæmdastýra Kvennaráðgjafarinnar 1992-1997, félagsráðgjafi hjá kvennadeild Landspítalans 1992-1997 og hjá Blindrafélaginu 1997-2002. Frá 2002-2015 var Björk borgarfulltrúi í Reykjavík, fyrstu fjögur árin fyrir Reykjavíkurlistann en svo fyrir Samfylkinguna.[1] Hún einbeitti sér að velferðarmálum í borgarstjórn og var m.a. formaður velferðarnefndar Reykjavíkur um árabil.[2] Björk var varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík í október 2013[3] og starfar nú sem sérfræðingur hjá Virk starfsendurhæfingu.

Frá 1986-1988 var hún í miðstjórn Alþýðubandalagsins, var varaformaður Stéttarfélags ísl. félagsráðgjafa frá 1992-1994 og formaður frá 1998-2000, formaður Bandalags háskólamanna frá 1998-2002 og var um tíma í stjórn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Björk hefur látið sig friðarmál miklu varða og hefur starfað innan félagsins Ísland-Palestína, m.a. hefur hún verið sjálfboðaliði í Palestínu á vegum alþjóðlegrar friðarþjónstu kvenna.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn A-Í bls. 111-112, (Reykjavík, 2003)
  2. Ruv.is, „Björk Vilhelms hættir í pólitík“ (skoðað 3. apríl 2021)
  3. Alþingi - Björk Vilhelmsdóttir (skoðað 3. apríl 2021)
  4. Mbl.is, „Íslenskir sjálfboðaliðar handteknir í Palestínu“ (skoðað 3. apríl 2021)