Fara í innihald

Björgunarbúningur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Björgunarbúningur sem er notaður á olíuborpöllum Statoil.

Björgunarbúningur eða viðlagabúningur er vatnsheldur þurrbúningur sem er hannaður til að verja þann sem í honum er gegn ofkælingu þegar skip er yfirgefið. Björgunarbúningar eru oftast með samfelldri hettu, vettlingum og stígvélum og hylja því allan líkamann nema andlitið. Sumir björgunarbúningar eru búnir flotholtum sem halda höfðinu upp úr vatninu ef viðkomandi er meðvitundarlaus. Samkvæmt SOLAS-samþykktinni eiga björgunarbúningar að tryggja að líkamshitinn lækki ekki um meira en 2°C við 6 tíma veru í 0-2° köldum sjó.[1] Skylt er að hafa björgunarbúninga fyrir alla áhafnarmeðlimi á skipum sem falla undir samþykktina, en ekki er gerð krafa um það sama fyrir farþega. Á Íslandi gildir frá 2012 að öll skip yfir 6 metrum eiga að hafa björgunarbúninga fyrir alla um borð.[2] Eina undantekningin eru farþegar á farþegaskipum, en aðeins er gerð krafa um björgunarvesti fyrir þá, auk björgunarbáta. Íslenska reglugerðin var sett eftir að skipið Hallgrímur SI 77 fórst við strendur Noregs og skipverjinn Eiríkur Ingi Jóhannsson komst einn lífs af. Talið var víst að ástæða þess hefði verið að honum einum tókst að komast í björgunarbúning og loka honum rétt.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Immersion Suit SOLAS Requirements – Explained in Simple Terms“. iMariners. 23. október 2023.
  2. „Hafa náð stórum öryggisáfanga“. Mbl.is. 21.6.2012.
  3. „Hröð atburðarás þegar Hallgrímur sökk - dælurnar biluðu á ögurstundu“. Vísir.is. 31. janúar 2012.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.