Fara í innihald

Látra-Björg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Björg Einarsdóttir)
Minnisvarði um Látra-Björgu. Kirkjan í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd í baksýn. Höfundur verksins er Sigurður Guðmundsson.

Látra-Björg eða Björg Einarsdóttir (1716–1784) skáldkona, er talin fædd í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd en fór með foreldrum sínum, Margréti Björnsdóttur og Einari Sæmundssyni að Látrum á Látraströnd árið 1722. Foreldrarnir fluttu þaðan aftur þremur árum síðar en Björg varð eftir, þá 9 ára. Á Látrum átti hún að líkindum heima fram um miðjan aldur og var því kennd við þann bæ. Á seinni hluta ævinnar gerðist hún förukona og flakkaði milli sveita. Hún lést á vergangi í Svarfaðardal í Móðuharðindunum 1784 og var jarðsett að Upsum.

Björg var alla tíð einhleyp. Hún var kona stórskorin og mikil vexti og þótti karlmannsígildi til allra verka. Hún sótti sjó frá Látrum á sínum yngri árum og kvað um sjóróðra og um átök hafsins. Vísur Látra-Bjargar eru margar hverjar sérkennilegar, kraftmiklar og stundum kaldhæðnar. Snúast þær oftast um daglegt líf og baráttu manna við náttúruöflin. Eftir hana liggur fjöldi vísna um sveitir (t.d. Fnjóskadal, Fjörður, Melrakkasléttu o.fl.), þar sem hún ber lof á sumar en last á aðrar. Meðal þekktustu vísna Látra-Bjargar eru Fagurt er í Fjörðum þá frelsarinn gefur veður blítt.

Látra-Björg var oft níðskældin þegar hún orti um menn sem henni geðjaðist ekki að, og þar sem hún var talin kraftaskáld kom það fyrir að henni voru eignaðar ófarir eftir að hún hafði ort níð um menn -- til dæmis töldu margir að Jón Benediktsson sýslumaður á Rauðuskriðu í Þingeyjarsýslu hefði lagst banaleguna eftir að Björg heitaðist við hann í vísu eftir að hann dæmdi hana fyrir vergang. Áður en hann lést hugði hann vandlæta um háttu hennar, en þá á Látra-Björg að hafa kveðið:

Táli pretta örgu ann,
aldrei sóma stundar;
máli réttu hallar hann,
hvergi dóma grundar.

Þessi vísuorð voru flutt Jóni og varð hann reiður við og stefndi hann Látra-Björgu um kveðling þennan, en þegar málsrekstur fór fram bar hún af sér ámælið og kvað aðra hafa rangfært fyrir sér vísuorðin af illvilja og haft sig fyrir rógi. Hefði hún einmitt kveðið hana um valdsmanninn öfugt við það sem hún væri flutt eftir sér og mátti hún ekki varast að vísan væri lesin aftur á bak. Væri hún rétt höfð svona:

Grundar dóma, hvergi hann
hallar réttu máli.
Stundar sóma, aldrei ann
örgu pretta táli.

Og mátti valdsmaður láta svo búið standa.

Minnisvarði um Látra-Björgu er á fæðingastað hennar í Stærra-Árskógi. Hanan er eftir Sigurð Guðmundsson og var afhjúpaður sumarið 2016.

Skáldsagan Bjargræði eftir Hermann Stefánsson frá árinu 2016 fjallar um Látra-Björgu. Sama ár kom út ljóðabókin Tungusól og nokkrir dagar í maí eftir Sigurveigu Bjarneyju Gísladóttur en þar kemur Látra-Björg mikið við sögu.

  • Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.
  • Helgi Jónsson. Látra-Björg. Helgafell 1949.
  • Syrpa úr handritum Gísla Konráðssonar. Sagnaþættir 2. Skuggsjá 1980.
  • Guðrún P. Helgadóttir. Skáldkonur fyrri alda 2. Kvöldvökuútgáfan 1963.