Björgúlfur Ólafsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Björgúlfur Aðalsteinn Ólafsson

Fæddur 1. mars 1882
Mávahlíð, Snæfellsnesi
Látinn 15. febrúar 1973 (90 ára)
Reykjavík
Þjóðerni Íslenskt
Titill Læknir
Maki Þórunn Benediktsdóttir
(9. júní 1893 - 29. nóv. 1981)
(g. 15. apríl 1915)[1]
Börn Sigrún, Ása, Egill, Þórunn og Ólafur[2]
Foreldrar Guðbjörg Melkjörsdóttir og Ólafur Jónsson
Háskóli Kaupmannahafnarháskóli

Björgúlfur Aðalsteinn Ólafsson (1. mars 1882 – 15. febrúar 1973) var íslenskur læknir, rithöfundur, þýðandi og frumkvöðull. Hann starfaði lengi sem læknir í nýlenduher Hollendinga, var helsti framámaðurinn í stofnun Skeljungs hf. og bjó við heimkomuna á Bessastöðum í tólf ár.

Hann var fæddur á Snæfellsnesi og ólst upp að hluta til í Ólafsvík. Vorið 1903 fór Björgúlfur til Vestmannaeyja til að kenna knattspyrnu og stofnaði Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (KV) sem tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu 9 árum síðar árið 1912. Félagið skipti síðar um nafn og heitir ÍBV í dag.

Björgúlfur var herlæknir í nýlenduher Hollendinga í Austur-Indíu 1913 – 1917. Hann kynnti sér hitabeltissjúkdóma á hermannasjúkrahúsi í Tjimahi á Jövu 1913 – 1914, var herdeildarlæknir á Borneó 1914 – 1917. Þá var hann læknir í Singapore 1917 – 1926 en fluttist eftir það til Íslands. Hann var formaður Rauða kross Íslands um skeið.[3]

Björgúlfur nýtti sér hollensk sambönd sín við heimkomuna til Íslands og stofnaði Shell á Íslandi (nú Skeljungur) árið 1928, fékk hann til liðs við sig öfluga menn úr íslensku viðskiptalífi. Björgúlfur var stjórnarformaður Shell á Íslandi í rúma tvo áratugi.[4]

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

Björgúlfur frumsamdi sex bækur og kom sú fyrsta, Frá Malaja-löndum, út 1936. Þegar hún kom út var Björgúlfur kominn á sextugsaldur. Síðan koma bækurnar Sígræn sólarlönd, tvær bækur í bókaflokknum: Lönd og lýðir. Þær eru Indíalönd og Ástralía og Suðurhafseyjar. Seinasta frumsamda bókin hans kom út árið 1966, endurminningar frá ýmsum tímum æviskeiðsins og bar titilinn: Æskufjör og ferðagaman.

Björgúlfur þýddi einnig bækur. Þar á meðal: Þú hefur sigrað, Galilei, eftir Dmítríj Merezhkovskíj og Leonardo da Vinci, eftir sama höfund. Einnig þýddi hannn: Rembrandt eftir Hollendinginn Theun de Vries og einnig Kamelíufrúna eftir Alexandre Dumas yngri og Maríukirkjuna í París eftir Victor Hugo.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. https://timarit.is/page/1440164?iabr=on#page/n21/mode/2up/search/bj%C3%B6rg%C3%BAlfur%20%C3%B3lafsson
  2. https://timarit.is/page/1440012?iabr=on#page/n21/mode/2up/search/bj%C3%B6rg%C3%BAlfur%20%C3%B3lafsson
  3. https://timarit.is/page/1440035?iabr=on#page/n12/mode/2up/search/bj%C3%B6rg%C3%BAlfur%20%C3%B3lafsson
  4. „Vísir - 10. tölublað (14.01.1953) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. febrúar 2021.