Björgúlfur Ólafsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Björgúlfur Aðalsteinn Ólafsson
Fæddur1. mars 1882
Mávahlíð, Snæfellsnesi
Dáinn15. febrúar 1973 (90 ára)
ÞjóðerniÍslenskt
MenntunKaupmannahafnarháskóli
TitillLæknir
MakiÞórunn Benediktsdóttir
(9. júní 1893 - 29. nóv. 1981)
(g. 15. apríl 1915)[1]
BörnSigrún, Ása, Egill, Þórunn og Ólafur[2]
ForeldrarGuðbjörg Melkjörsdóttir og Ólafur Jónsson

Björgúlfur Aðalsteinn Ólafsson (1. mars 1882 – 15. febrúar 1973) var íslenskur læknir, rithöfundur, þýðandi og frumkvöðull. Hann starfaði lengi sem læknir í nýlenduher Hollendinga, var helsti framámaðurinn í stofnun Skeljungs hf. og bjó við heimkomuna á Bessastöðum í tólf ár.

Hann var fæddur á Snæfellsnesi og ólst upp að hluta til í Ólafsvík. Vorið 1903 fór Björgúlfur til Vestmannaeyja til að kenna knattspyrnu og stofnaði Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (KV) sem tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu 9 árum síðar árið 1912. Félagið skipti síðar um nafn og heitir ÍBV í dag.

Björgúlfur var herlæknir í nýlenduher Hollendinga í Austur-Indíu 1913 – 1917. Hann kynnti sér hitabeltissjúkdóma á hermannasjúkrahúsi í Tjimahi á Jövu 1913 – 1914, var herdeildarlæknir á Borneó 1914 – 1917. Þá var hann læknir í Singapore 1917 – 1926 en fluttist eftir það til Íslands. Hann var formaður Rauða kross Íslands um skeið.[3]

Björgúlfur nýtti sér hollensk sambönd sín við heimkomuna til Íslands og stofnaði Shell á Íslandi (nú Skeljungur) árið 1928, fékk hann til liðs við sig öfluga menn úr íslensku viðskiptalífi. Björgúlfur var stjórnarformaður Shell á Íslandi í rúma tvo áratugi.[4]

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

Björgúlfur frumsamdi sex bækur og kom sú fyrsta, Frá Malaja-löndum, út 1936. Þegar hún kom út var Björgúlfur kominn á sextugsaldur. Síðan koma bækurnar Sígræn sólarlönd, tvær bækur í bókaflokknum: Lönd og lýðir. Þær eru Indíalönd og Ástralía og Suðurhafseyjar. Seinasta frumsamda bókin hans kom út árið 1966, endurminningar frá ýmsum tímum æviskeiðsins og bar titilinn: Æskufjör og ferðagaman.

Björgúlfur þýddi einnig bækur. Þar á meðal: Þú hefur sigrað, Galilei, eftir Dmítríj Merezhkovskíj og Leonardo da Vinci, eftir sama höfund. Einnig þýddi hannn: Rembrandt eftir Hollendinginn Theun de Vries og einnig Kamelíufrúna eftir Alexandre Dumas yngri og Maríukirkjuna í París eftir Victor Hugo.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. https://timarit.is/page/1440164?iabr=on#page/n21/mode/2up/search/bj%C3%B6rg%C3%BAlfur%20%C3%B3lafsson
  2. https://timarit.is/page/1440012?iabr=on#page/n21/mode/2up/search/bj%C3%B6rg%C3%BAlfur%20%C3%B3lafsson
  3. https://timarit.is/page/1440035?iabr=on#page/n12/mode/2up/search/bj%C3%B6rg%C3%BAlfur%20%C3%B3lafsson
  4. „Vísir - 10. tölublað (14.01.1953) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. febrúar 2021.