Bergþóra Árnadóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Bergþóra Árnadóttir
Bergþóra Árnadóttir-06.jpg
Bergþóra Árnadóttir
Fæðingarnafn Bergþóra Árnadóttir
Önnur nöfn Óþekkt
Fædd(ur) 1948
Dáin(n) 2007
Uppruni Óþekkt
Hljóðfæri Rödd og gítar
Tegund Óþekkt
Raddsvið Óþekkt
Tónlistarstefnur Óþekkt
Titill Söngvaskáld
Ár Óþekkt
Útgefandi Óþekkt
Samvinna Óþekkt
Vefsíða Óþekkt
Meðlimir
Núverandi Óþekkt
Fyrri Óþekkt
Undirskrift

Bergþóra Árnadóttir (f. 15. febrúar 1948; d. 8. mars 2007), var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Bergþóra ólst upp í Hveragerði með systkinum sínum Bergi Sverrissyni og Margréti Sverrisdóttur en foreldrar hennar eru Árni Jónsson trésmiður, frá Ísafirði (f.20.6. 1923, d. 26.8. 1993) og Aðalbjörg Margrét Jóhannsdóttir, fædd á Reykjum á Reykjaströnd (f.5.3. 1922). Foreldrar Bergþóru voru bæði unnendur tónlistar og spiluðu á hljóðfæri, Aðalbjörg á gítar og munnhörpu og Árni á gítar.

Nokkru áður en Bergþóra skellti sér í hæfileikakeppnina hjá Ólafi Gauk.
Bergþóra með foreldrum sínum á tónleikum í Norræna húsinu 1986.
Vísnavinir: Bergþóra Árnadóttir, Gísli Helgason og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.
Myndataka fyrir Bergmál.
Í Kabarett á Borginni 1974.
Skemmtilegt í Hollywood 1987.
Bergþóra með gítarinn.
Vinsældalisti Æskunnar 1983.
Fjölskyldan; Bergþóra, Jón Tryggvi, Birgitta og Jón.


Það var mikið sungið heima í Hveragerði frá því að ég man eftir mér. Þegar ég var krakki var sem betur fer ekki til neitt sjónvarp. Mamma og pabbi voru með skátana í Hveragerði og flestir fundir voru haldnir heima því þeir voru á hrakhólum með húsnæði. Foreldrar mínir voru skátaforingjar og svo á ég líka tvö systkini sem eru sex árum eldri en ég og þau voru líka skátaforingjar.

Það var sagt á staðnum að öll fjölskyldan spilaði á eitthvað - nema hundurinn. Hins vegar söng hann alltaf með ef spilað var á harmóníku eða munnhörpu. Og hann var lagvissasti hundurinn í Hveragerði. Hann hét Andi Kolsson og lést í hárri elli - sautján ára, -

 
NN[1]

Bergþóra var þrígift. Með fyrsta manni sínum Karli Lárusi Valdimarssyni, (f. 22. febrúar 1941, d. 13. febrúar 2001), eignaðist hún dótturina, Birgittu, f. 17. apríl 1967. Þau skildu. Árið 1971 gekk Bergþóra að eiga Jón Ólafsson skipsstjóra, (f. 8. júlí 1940, d. 24. desember 1987). Þau eignuðust eitt barn, Jón Tryggva, f. 1. apríl 1972. Jón ættleiddi Birgittu þegar hún var sex ára. Þau skildu 1982. Árið eftir giftist Bergþóra Þorvaldi Inga Jónssyni, f. 3. mars 1958, þau skildu 1988. Sambýlismaður Bergþóru til 17 ára var daninn Peter Sørensen, f. 22. mars 1941.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1968 kom Bergþóra fyrst fram á opinberum vettvangi. Það var í hæfileikakeppni sem Ólafur Gaukur stóð fyrir í Tónabæ.

Ég spilaði rifbeinsbrotin þá og bara lög eftir mömmu," sagði Bergþóra brosandi. „Ég man ekki betur en Jörundur Guðmundsson (eftirherma) hafi stigið sín fyrstu spor í „bransanum" við þetta sama tækifæri.

Þótt þetta hafi verið í fyrsta skipti sem Bergþóra kom fram opinberlega, hafði hún dundað við lagasmíðar og söng frá því hún var barn að aldri. Sjálf segir hún að fyrsta lagið, sem hún samdi, hafi verið spilað í útvarpinu þegar hún var bara sex ára gömul. Var það lag hennar við ljóðið „Sveinninn rjóða rósu sá". -Ég spurði Bergþóru á hvaða hljóðfæri hún hafi samið þetta fyrsta lag sitt. Hún hló, en sagði svo: „Pabbi átti rosastóran spánskan gítar með miklum belg. Ég var vön að sitja með hann í sófanum og spila bara á gítarhálsinn. Það var ekki nokkur leið fyrir mig að beita honum á annan hátt á þeim aldri." -

 

Árið 1975 koma svo fyrstu lög hennar út á hljómplötu. Það var á safnplötunni Hrif 2 sem Ámundi Ámundason gaf út en Jakob Frímann Magnússon stjórnaði upptökum á. Lögin eru „Þrá“ við texta Björns Braga og „Ég elska“ við ljóð Páls J. Árdal.

Eintak[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta sólóplata Bergþóru; Eintak kom út árið 1977 í beinu framhaldi af þátttöku hennar á safnplötunni Hrif2. Platan var tekin upp í hinu nýja og fullkomna hljóðveri Hljóðrita í Hafnarfirði og var þar valinn maður í hverju rúmi. Á plötunni eru 12 lög eftir Bergþóru við ljóð og texta ýmissa skálda, þar á meðal „Verkamaður“ eftir Stein Steinarr en það átti eftir að verða kennimark Bergþóru og það laga hennar sem farið hefur hvað víðast.

Ásgeir Tómasson tónlistargagnrýnandi Dagblaðsins fór yfir plötuna og í umsögn sinni sagði hann meðal annars:

Við fyrstu heyrn virtist mér platan helzt einföld en með tímanum vandist hún ágætlega.

Ljóð þau sem Bergþóra kýs að gera lög við eru flest mjög góð og hjálpa enn frekar til að gera Eintakið að því sem það er. Aðeins einn gauksungi er í hreiðrinu — Þorlákshafnarvegurinn. Ég hef grun um að er Bergþóra valdi þann texta hafi hún látið smekkvísi lönd og leið en látið efnisinnihald ráða.

Eintak er engin partíplata heldur setur maður hana á fóninn þegar róleg stund gefst. Söngur Bergþóru lætur þægilega í eyrum og er afslappandi. Hún er ekki raddmikil og oft á tíðum minnir hún á frönsku söngkonuna Claude Longot (þá sem skaut elskhuga sinn fyrr á árinu og sat fyrir það inni í tíu daga).

Eitt get ég ekki látið hjá líða að minnast á, svona í lokin, og það er plötuumslagið. Það er með síkum endemum ljótt að það fælir kaupendur frá frekar en hitt. Þar með er það farið að virka þveröfugt við það sem plötuumslög eiga að gera.“ –

 

Platan fékk dræmar undirtektir og seldist illa.

Vísnavinir[breyta | breyta frumkóða]

Félagsskapurinn Vísnavinir var stofnaður 1976 af áhugafólki um þjóðlega íslenska tónlist og vísnasöng. Þessi tegund tónlistar átti þá undir högg að sækja frá breskri Bítlamenningu sem tröllreið öllu. Vísnavinafélaginu óx fljótlega fiskur um hrygg sem leiddi til fastra reglulegra vísnakvölda á Hótel Borg. Þar var öllum frjálst að taka þátt og brátt mynduðust kjarnar eða hópar sem fluttu íslensk þjóðlög.

Einn þeirra var hópurinn Vísnavinir sem Bergþóra tengdist. Þau gáfu út plötuna Heyrðu 1981 þar sem Bergþóra á tvö lög. Þessi hópur Vísnavina breytti svo fljótlega um gír og úr varð sönghópurinn Hálft í hvoru sem gaf út plötuna „Almannarómur“ 1982. Einn af félögum hópsins, tónlistarmaðurinn Eyjólfur Kristjánsson segir svo um kynni sín af Bergþóru:

Ég kynntist Bergþóru árið 1980, þá ekki orðinn tvítugur. Það var svo merkilegt að í miðju pönkfári hittist hópur fólks reglulega á Borginni til að spila vísnatónlist. Bubbi þar á meðal. Fljótlega varð til hljómsveitin Hálft í hvoru, skipuð mér, Inga Gunnari, Gísla Helga, Aðalsteini Ásberg, Örvari Aðalsteins og Bergþóru.

Bergþóra var eiginlega,“júník". Það voru ekki margir kventrúbadúrar sem störfuðu af viðlíka krafti. Söngröddin var hrjúf, sterk ... og mikill karakter í henni. Þú veist um leið að þetta er Bergþóra þegar þú heyrir lag með henni. –

 

Bergmál[breyta | breyta frumkóða]

Önnur sólóplata Bergþóru sem nefndist Bergmál kom út 1982. Á þeirri plötu er 15 lög eftir Bergþóru við ljóð skálda líkt og á fyrri plötu hennar en eitt ljóð er eftir Bergþóru. Það er textinn; „Einu sinni þú“ sem hún samdi í júlí 1981 og tileinkaði þáverandi sambýlismanni sínum og útgefanda plötunnar, Þorvaldi Inga Jónssyni. Platan fékk ágæta dóma og seldist vel. Á sama tíma og Bergmál kom út var haldin Íslensk Iðnsýning (Heimilið) í Laugardalshöll. Bergþóra ásamt Þorvaldi Inga og samstarfsfólki í SATT, MFA, Galleri Lækjartorg (Jóhann G. Jóhannsson) og ÞOR opnuðu bás á sýningunni og kynntu íslenska menningu.

Blaðamaður Þjóðviljans mætti á sýninguna og ræddi við Bergþóru og Þorvald Inga.

Við stofnuðum þetta fyrirtæki, ÞOR, í kringum plötuna og út á það höfum við fengið margháttaða fyrirgreiðslu. Til þess að hafa upp í einhvern part af kostnaði þurftum við að leita á náðir Sparisjóðs Reykjavíkur, þess utan tóku nokkrir þeirra sem vinna við plötuna það á sig að krefja ekki um laun fyrr en eitthvað fer að koma inn. Platan er tekin upp í spánýju stúdíói, Nema, og mun vera sú fyrsta sem stúdíóið vinnur. Satt að segja þá erum við afar ánægð með útkomuna, það er hvergi að finna hnökra á vinnunni við þessa plötu, enda þaulvanir menn sem þarna standa að málum.

Lögin eru útsett á margvíslegan hátt. Stílbrigðin: sálmarokk, vísnapopp, djass, reggeae o.s.frv.

Þess má geta að í bás FMA, SATT, ÞOR og Galleri Lækjartorgs er að finna eftirprentanir, plötur, kassettur og margt fleira á tækifærisverði. Þannig kostar plata Bergþóru 160 krónur í básnum, en í verslunum að lokinni sýningu mun hún kosta það sama og aðrar íslenskar plötur, eitthvað í kringum 230 krónur.

 
NN[5]

Í Morgunblaðinu 27. ágúst 1982 er viðtal við Bergþóru í tilefni af útkomu plötunnar og líkir hún tilfinningunni við útkomu Bergmáls eins og því að fæða velskapað barn.

Þetta er sjálfsagt svipuð þörf og hjá myndlistarmanni sem heldur sýningu. Manni finnst þetta ekki nóg að semja þessi lög bara fyrir sjálfan sig,“ sagði Bergþóra Árnadóttir, þegar við hittum hana að máli vegna útkomu nýju plötunnar hennar „Bergmál". Bergþóra kynnti plötuna á fundi með fréttamönnum í hljóðverinu Glóru og voru þar viðstaddir ýmsir aðstandendur plötunnar, svo og aðstandendur Bergþóru sjálfrar, en Bergþóra tileinkar plötuna börnum sínum, Birgittu og Jóni Tryggva fyrir að hafa „sýnt móðurmyndinni sinni mikla þolinmæði undanfarin ár", — eins og Bergþóra orðar það sjálf.
 
NN[6]

Eins og áður segir fékk platan ágæta dóma og var útkoma hennar viss sigur fyrir Bergþóru og íslenska þjóðlega tónlist. Jafnvel harðir naglar eins og pop skríbent Helgarpóstsins gat ekki látið hjá líða að fjalla um plötuna þrátt fyrir yfirlýst áhugaleysi á vísnatónlist.

Nú hefur vísnasöngur aldrei verið í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég held nú samt að ég sé ekki heyrnarlausari en það að ég tel mig geta sagt um að hér er á ferðinni tónlist sem unnin er af vandvirkni og alúð. Lögin eru öll, utan eitt, eftir Bergþóru en ljóðin eru komin víðar að. Þar koma við sögu menn eins og Steinn Steinar, Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson, Halldór Laxness, Hannes Pétursson o.fl.

Allmargir tónlistarmenn eru Bergþóru til aðstoðar og er þar fátt að finna sem hægt er að fetta fingur út í, en hins vegar er margt vel gert. Mikið mæðir á Helga Eiríki Kristjánssyni, sem leikur á ýmis hljóðfæri, en aðrir eiga einnig góða spretti og dettur mér þá einna helst í hug ágætur píanóleikur Guðmundar Ingólfssonar og flauturnar hans Gísla Helgasonar krydda tónlistina af smekkvísi.

Útsetningar eru flestar gerðar af þeim Helga og Gísla einkum þó þeim fyrrnefnda, og eru þær margar hverjar hinar ágætustu og í þeim daðrað við ýmsar stefnur.

Bergþóra er þokkaleg söngkona en röddin kannski frekar takmörkuð og sum lögin hefði mátt vinna betur, þ.e. sjálfar tónsmíðarnar en þetta eru þó minni háttar gallar, því í heild er platan hin ágætasta. -

 

Afturhvarf[breyta | breyta frumkóða]

Þriðja plata Bergþóru Árnadóttur kom út síðsumars 1983. Á henni eru 13 lög við ljóð ýmissa skálda og rithöfunda eins og; Steins Steinarr, Sigurðar Á. Friðþjófssonar, Jóhannesar úr Kötlum, Páls J. Árdal, Benedikts Gröndal, Tómasar Guðmundssonar og Páls Ólafssonar.

Sérfræðingur Morgunblaðsins um tónlist var á þessum tíma Sigurður Sverrisson. Hann gerði plötunni skil í blaðinu þar sem þetta kom meðal annars fram.

Með nafninu Afturhvarf segist Bergþóra m.a. vilja endurspegla vinnubrögð plötunnar. Hér sé um visst afturhvarf til einfaldleikans að ræða, enda hafi aðeins verið stuðst við svokölluð „grunnhljóðfæri“ við upptöku plötunnar.

Auk Bergþóru bera þeir Tryggvi Hübner og Pálmi Gunnarsson hitann og þungann af hljóðfærarleiknum. Framlag þeirra er hnökralaust og Tryggvi sýnir á þessari plötu svo ekki verður um villst, að honum er fleira í lófa lagið en að leika grjóthörð „riff". Pálmi leikur á kontrabassa og það að sleppa rafbassanum á þessari plötu kemur til mótvægis við trommuleysið. Auk bassatilþrifanna sem hvergi eru eftirminnilegri en í laginu Gígjan, syngur Pálmi lagið Afturhvarf á eftirminnilegan hátt. Þá leggja þeir Gísli Helgason og Kolbeinn Bjarnason til flautuleik, sem er beitt af smekkvísi í hljóðblöndun.

Þegar Bergmál Bergþóru kom út í fyrra fannst mér þar vera góð plata á ferð. Afturhvarf er mjög góð plata. Á henni er að finna að minnsta kosti 3 lög sem hljóta að vera með því allra besta sem gert hefur verið á þessu sviði hérlendis og jafnvel þótt víðar væri leitað. Vil ég þar nefna Ofstæki, Móðursorg og Gígjuna. Það síðastnefnda vekur upp sérstaka tilfinningu í brjósti manns. -

 

Í seinna lagi[breyta | breyta frumkóða]

Það liðu ein fjögur ár þar til næsta sólóplata kom út og sem reyndist síðasta plata Bergþóru. Haustið 1987 kom platan „Í seinna lagi“ í verslanir. Platan inniheldur 19 lög og er sérstök fyrir þær sakir að hún var tekin upp „Live“ á fimm tímum í Stúdíó Stemmu sem Sigurður Rúnar Jónsson rak þá úti á Seltjarnarnesi. Að auki kom Sjónvarpið (RÚV) að málum og tók upp „hljómleikana“ sem voru síðar sýndir í Sjónvarpinu. Tónlistarfólkið sem vann plötuna með Bergþóru og spilaði með henni á sviðinu í Stemmu voru: Abdou á slagverk; Eyjólfur Kristjánsson á gítar; Hjörtur Howser á hljómborð; Kristinn Svavarsson á saxófón; Pálmi Gunnarsson á bassa; Sigurður Reynisson á trommur og Tryggvi Hübner á gítar.

Blaðamaður Morgunblaðsins átti spjall við Bergþóru í tilefni að útkomu plötunnar og innti hana um útgáfuna og viðtökurnar:

-Nú er þetta eina platan sem kemur út á þessu ári sem kona gefur út, og henni hefur ekki verið mikið hampað. Hefur það háð þér að vera kona í poppiðnaðinum?

Já, það kom mér á óvart hvað fólki er mismunað eftir kynferði í tónlistinni. Ég er mikið farin að spá í að reyna verða mér út um skegg og fara í kynskiptingaraðgerð, vegna þess hve ég hef fundið það að það háir mér að vera kona; að vera „kelling". Það er allt í lagi fyrir strákana að vera á svipuðum aldri og ég, en ég er bara kelling og á ekkert að vera að blanda mér í þessi mál. Ef konur vilja syngja þá eiga þær að vera skrautpíur með fallega rödd sem syngja bakraddir í popptónlist.

Það sagði mér maður um daginn að ég væri með ljóta rödd og kynni ekkert að syngja og ég var alveg sammála honum, en ég held nú að ég sé sæmilega lagviss og sæmilega vel að mér í tónlist og ég hef aldrei stílað inn á það að syngja með einhverri englarödd

Ég kann ágætlega við röddina í mér eins og hún er.

-Nú hefur plötunni ekki verið mikið hampað í fjölmiðlum en hvernig viðtökur hefur þú fengið þegar þú ert að spila fyrir fólk?

Alveg frábærlega góðar. Það kom mér verulega á óvart, ég var að spila efni af plötunni, reyndar rétt áður en hún kom út, og fólk bað aftur um þau lög sem ég hefði reyndar talið að væru í þyngri kantinum og ekki beint formúlulög.

Það er allt of útbreiddur misskilningur að plötukaupendur séu allir unglingar með lofttæmi á milli eyrnanna sem taki ekki við neinu nema diskótakti. Mér finnst, þegar ég held tónleika, að fólk sé að hlusta á það sem ég er að syngja. Og þess vegna finnst mér að ég þurfi að syngja eitthvað sem er hlustandi á.

Viltu segja eitthvað að lokum?

Já, ef einhver veit um gott skeggmeðal eða leið til að öðlast ákveðið líffæri þá endilega að láta mig vita.-

 


Lífsbókin[breyta | breyta frumkóða]

Ljúktu nú upp lífsbókinni
lokaðu ekki sálina inni.
Leyfðu henni í ljóði og myndum,
leika ofar hæstu tindum.
Svipta burtu svikahulu.
Syngja aftur gamla þulu
líta bæði ljós og skugga,
langa til að bæta og hugga.
Breyta þeim sem böli valda
breyta stríði margra alda.
Breyta þeim sem lygin lamar,
leiða vit og krafta framar.
Gull og metorð gagna ekki
gangir þú með sálarhlekki.


Ljóð: Laufey Jakobsdóttir
Lag: Bergþóra Árnadóttir

Útgefið efni[breyta | breyta frumkóða]

Sólóplötur[breyta | breyta frumkóða]

LP

 • FM 008 - Eintak – Fálkinn - 1977
 • ÞOR 001 - Bergmál – ÞOR -1982
 • ÞOR 002 - Afturhvarf – ÞOR – 1983
 • ÞOR 008 - Skólaljóð – ÞOR - 1986
 • SLP 003 - Í seinna lagi – Skífan - 1987

Söngflokkar[breyta | breyta frumkóða]

LP

 • VV 001 - Heyrðu – Vísnavinir – Vísnavinir - 1981
 • MFA 001 - Almannarómur - Hálft í hvoru – Menningar og friðarsamtök alþýðu - 1982
 • VV 004 - Að vísu – Vísnavinir – Vísnavinir - 1986

Safnplötur[breyta | breyta frumkóða]

LP

 • ÁÁ 028 - Hrif 2 - 1976
 • SHA2 - Eitt verð ég að segja þér - Heimavarnarliðið 1979
 • SHA - Hvað tefur þig bróðir – Heimavarnarliðið – 1982

CD

 • Lífsbókin (Safndiskur) – 1998
 • Baráttusöngvar fyrir friði og þjóðfrelsi – Ýmsir - 1999
 • Skref fyrir skref (Safndiskur) - 1985 – 2005
 • Bezt - 2011

Snældur

 • ÞOR – Ævintýri úr Nykurtjörn (Snælda og bók) - 1984
 • Á felgunni – bílasnælda – 1984
 • Skólaljóð – snælda - 1986

Annað

 • ÞOR 006 – Það vorar – Bergþóra Árnadóttir & Graham Smith – ÞOR - 1985
 • Ævintýri úr Nykurtjörn

Litlar plötur 45 snúninga

 • EBA 001 – Jólasteinn – Bergþóra Árnadóttir – EBA - 1981

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. DV. miðvikudagur 30. apríl 1986. Bls. 36.
 2. Morgunblaðið, miðvikudagur 19. október 1983 bls. 62.
 3. Dagblaðið, miðvikudagur 14. desember 1977.
 4. Morgunblaðið 24. ágúst 2008. Bls.47.
 5. Þjóðviljinn — Aukablað— Helgin 28.-29. ágúst 1982, bls. 12.
 6. Morgunblaðið 27. ágúst 1982, bls. 48.
 7. Helgarpósturinn 12. nóvember 1982, bls. 8.
 8. Morgunblaðið, miðvikudagur 12. október 1983, bls. 65.
 9. Morgunblaðið, þriðjudagur 29. desember 1987m Bls. 56.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]