Berengaría af Navarra
Berengaría af Navarra (um 1165 – 23. desember 1230) var drottning Englands frá 1191-1199, kona Ríkharðs ljónshjarta Englandskonungs. Hún kom þó aldrei til Englands á meðan hún var drottning.
Foreldrar Berengaríu voru Sancho 6., konungur Navarra, og kona hans, Sancha af Kastilíu. Lítið er vitað um uppvöxt hennar eða kynni þeirra Ríkharðs en þau munu þó hafa hist einu sinni, mörgum árum fyrir brúðkaup sitt. Berengaría var orðin hálfþrítug þegar þau giftust en á þessum öldum var algengt að konungsdætur giftust á barnsaldri og svo var til dæmis um allar alsystur Ríkharðs.
Ríkharður hafði sjálfur verið heitbundinn Alísu systur Filippusar 2. Frakkakonungs, frá því að hann var tólf ára og hún níu og var hún alin upp við ensku hirðina. Þau höfðu þó aldrei gifst en það orð lék á að Alísa hefði verið hjákona föður Ríkharðs, Hinriks 2. Þegar Ríkharður og Filippus bróðir Alísu höfðu viðdvöl á Sikiley í Þriðju krossferðinni sömdu þeir um að trúlofuninni skyldi slitið en þá hafði hún varað í meira en 20 ár.
Ríkharður lét síðan fylgja Berengaríu til sín og hefur væntanlega verið búinn að semja við föður hennar um hjúskaparmálin nokkru fyrr. Þegar hún kom til Sikileyjar stóð fastan yfir og þau gátu því ekki gifst strax. Ríkharður tók hana því með þegar hann hélt áfram ferð sinni. Floti hans lenti í óveðri á austanverðu Miðjarðarhafi og skipið sem Berengaría og Jóhanna Sikileyjardrottning, systir Ríkharðs, voru á hraktist til Kýpur, þar sem stjórnandi eyjarinnar, Ísak Komnenos, hélt þeim föngnum. Ríkharður kom þó fljótt á vettvang, fékk krossferðariddara frá Landinu helga sér til aðstoðar, lagði eyna undir sig og bjargaði konuum. Síðan gekk hann að eiga Berengaríu í Georgskirkjunni í Limassol. Hann tók svo Berengaríu með sér í krossferðina.
Þau urðu ekki samferða heim. Ríkharður var tekinn höndum á leiðinni og haldið föngnum en Berengaría fór um og reyndi að afla fjár til að kaupa hann lausan. Að lokum losnaði hann úr haldi og fór til Englands en tók ekki konu sína með sér. Hann hélt svo til Frakklands að berjast við Filippus 2. um lendur sem hann hafði lagt undir sig en sinnti ekkert um konu sína. Það var ekki fyrr en Selestínus III páfi skipaði honum að taka við henni og vera henni trúr sem hann lét sér segjast. Eftir það var Berengaría með honum en hann virðist hafa lítið sinnt henni. Fátt er vitað um samband þeirra. Þau áttu engin börn og sumir hafa haldið því fram að konungurinn hafi engan áhuga haft á konum. Berengaría tók þó mjög nærri sér þegar Ríkharður dó 6. apríl 1199.
Berengaría er oft sögð eina Englandsdrottningin sem aldrei steig fæti á enska jörð. Hún kann þó að hafa komið þangað eftir lát hans og svo mikið er víst að hun sendi oft fulltrúa sína til Englands tl að reyna að herja út fé sem henni bar sem ekkjudrottningu úr Jóhanni landlausa, bróður Ríkharðs. Bæði Elinóra af Akvitaníu, tengdamóðir Berengaríu, og Innósentíus III páfi reyndu að þrýsta Jóhanni til að borga en þó skuldaði hann henni enn 4000 sterlingspund þegar hann dó. Hinrik 3., sonur hans, stóð hins vegar við allar greiðslur.
Berengaría settist að í Le Mans og gekk síðar í klaustur, þar sem hún lést rúmum þrjátíu árum eftir að Ríkharður dó.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Berengaria of Navarre“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. ágúst 2010.