Benigno Aquino III
Benigno Aquino III | |
---|---|
![]() Aquino árið 2010. | |
Forseti Filippseyja | |
Í embætti 30. júní 2010 – 30. júní 2016 | |
Varaforseti | Jejomar Binay |
Forveri | Gloria Macapagal-Arroyo |
Eftirmaður | Rodrigo Duterte |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 8. febrúar 1960 Sampaloc, Maníla, Filippseyjum |
Látinn | 24. júní 2021 (61 árs) Quezon City, Filippseyjum[1][2] |
Þjóðerni | Filippeyskur |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi flokkurinn |
Móðir | Corazon Aquino |
Faðir | Benigno Aquino Jr. |
Háskóli | Ateneo de Manila-háskóli |
Undirskrift | ![]() |
Gælunafn | Noynoy |
Benigno Simeon Cojuangco Aquino III (8. febrúar 1960 – 24. júní 2021), gjarnan kallaður Noynoy, var filippseyskur stjórnmálamaður sem var forseti Filippseyja frá 2010 til 2016.
Aquino var sonur fyrrum forsetans Corazon Aquino (1933-2009) og fyrrum öldungadeildarþingmannsins Benigno Aquino Jr. (1932-1983). Hann var meðlimur í filippseyska Frjálslynda flokknum. Aquino gekk í Ateneo de Manila-háskóla og særðist þegar uppreisnarmenn gerðu misheppnaða valdaránstilraun gegn móðir hans árið 1987. Hann var kjörinn á fulltrúadeild filippseyska þingsins árið 1998 fyrir 2. kjördæmi Tarlac-héraðs. Hann var kjörinn á öldungadeild þingsins árið 2007. Hann var loks forseti Filippseyja frá 2010 til 2016.
Aquino var bróðir sjónvarpskynnisins og leikkonunnar Kris Aquino.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Benigno Aquino III fæddist 8. febrúar 1960 í Maníla. Hann var þriðja af fimm börnum og einkasonur hjónanna Benigno og Corazon Aquino. Þegar hann fæddist var faðir hans varasveitastjóri Tarlac-héraðs og móðir hans var heimasæta. Eftir að Benigno lauk gagnfræðaskóla nam hann hagfræði við Ateneo de Manila-háskóla. Faðir hans varð ötull andstæðingur Ferdinands Marcos forseta þegar Marcos tók við völdum. Eftir að Marcos lýsti yfir herlögum þann 21. september 1972 var Benigno Aquino Jr. meðal þeirra fyrstu sem voru handteknir. Eftir að Benigno Aquino III lauk bakkalársprófi árið 1981 flutti hann til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni, þar sem hún hafði hlotið hæli árið áður. Árið 1983, stuttu eftir að faður hans var myrtur, sneri Benigno Aquino III aftur til Filippseyja og tók sér virkt hlutverk í samtökunum Philippine Business for Social Progress, sem börðust gegn fátækt í landinu. Frá 1985 til 1986 var hann sölustjóri hjá fyrirtækinu Mondragon Industries Philippines, Inc.
Þann 28. ágúst 1987, þegar móðir hans var forseti, særðist Aquino þegar herforingjar undir stjórn Gregorio Honasan reyndu að ræna völdum í landinu. Þrír lífverðir hans létust í árásinni og sá fjórði særðist.
Frá 1993 til 1998 vann Aquino hjá sykurhreinsunarstöðinni Central Azucarera de Tarlac.
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1998 var Aquino kjörinn á fulltrúadeild filippseyska þingsins í öðru kjördæmi Tarlac-héraðs.[3] Hann var endurkjörinn árin 2001 og 2004.[4] Á þriðja kjörtímabili sínu sem þingmaður var Aquino varaforseti þingsins frá 8. nóvember 2004 til 21. febrúar 2006,[4] en þá sagði hann upp því embætti og krafðist þess ásamt flokki sínum, Frjálslynda flokknum, að forsetinn Gloria Macapagal-Arroyo segði af sér vegna ásakana um að hún hefði svindlað í kosningum árið 2004.[5]
Árið 2007 bauð Aquino sig fram í miðkjörtímabilskosningum til öldungadeildar þingsins fyrir kosningabandalag „Hinnar sönnu stjórnarandstöðu“ (Genuine Opposition). Bandalagið taldi til sín Frjálslynda flokkinn og naut stuðnings systur Aquinos, Kris, sem stýrði sjónvarpskappræðum, og móður hans, fyrrum forsetans Corazon Aquino. Benigno Aquino III lenti í sjötta sæti á landsvísu og var kjörinn öldungadeildarþingmaður þann 15. maí 2007.[5] Hann tók sæti á þinginu þann 30. júní.
Nokkrum mánuðum eftir að Corazon Aquino lést í ágúst 2009 var stungið upp á því að Benigno Aquino III byði sig fram til forseta og undirskriftasöfnun hófst þess efnis. Aquino var í upphafi tregur til að bjóða sig fram en þann 1. september lýsti leiðtogi Frjálslynda flokksins, Mar Roxas, því yfir að hann myndi sjálfur stíga til hliðar svo Aquino gæti orðið forsetaframbjóðandi flokksins. Aquino bauð sig því fram fyrir hönd flokksins með slagorðinu Kung walang corrupt, walang mahirap (Án spillingar, minni fátækt).

Aquino var kjörinn 15. forseti Filippseyja þann 10. maí 2010 með 42,08 % atkvæðanna, á undan fyrrum forsetanum Joseph Estrada, sem hlaut 26,25 %. Hann tók við embætti þann 30. júní 2010, eftir að þingið staðfesti niðurstöður kosninganna 9. júní 2010.[6]
Í stjórnartíð sinni var Aquino mjög gagnrýninn gegn Alþýðulýðveldinu Kína vegna ágangs Kínverja gegn nágrönnum sínum og krafa þeirra um yfirráð í Suður-Kínahafi. Árið 2015 gekk Aquino svo langt að líkja Kína við Þýskaland Hitlers.[7] Árið 2013 kærðu filippseysk stjórnvöld Kína til Alþjóðadómstólsins í Haag fyrir brot á hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna vegna kröfu Kínverja um lögsögu yfir Suður-Kínahafi.[8] Dómstóllinn dæmdi Kínverja brotlega árið 2016, eftir að Aquino lét af embætti, en Kínverjar gáfu út að þeir myndu ekki hlíta niðurstöðunni.[9]
Aquino studdi innanríkisráðherra sinn, Manuel Roxas, í forsetakosningum Filippseyja árið 2016.[10] Í kosningabaráttunni varaði hann við því að ef mótframbjóðandinn Rodrigo Duterte ynni sigur myndi það boða nýtt „tímabil einræðisstjórnar“ á Filippseyjum.[11] Duterte vann kosningarnar og tók við af Aquino sem forseti þann 30. júní 2016.
Benigno Aquino III lést þann 24. júní 2021 úr nýrnabilun.[12] Eftirmaður hans, Rodrigo Duterte, lýsti yfir sex daga þjóðarsorg vegna andlátsins.[13]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „LIVE UPDATES: Death of former Philippine president Noynoy Aquino“. Rappler.com (enska). 24 júní 2021. Sótt 24 júní 2021..
- ↑ Javier Joe Ismael; Catherine S. Valente (24 júní 2021). „Former president Noynoy Aquino dies“. The Manila Times (enska). Sótt 24 júní 2021..
- ↑ Aquino, Benigno Simeon III | Personal Information
- ↑ 4,0 4,1 Resume of Senator Aquino - Senate of the Philippines
- ↑ 5,0 5,1 Senator Benigno S. Aquino III - Senate of the Philippines
- ↑ „Aquino forseti Filippseyja“. RÚV. 30. júní 2010. Sótt 17. mars 2025.
- ↑ „Líkti Kína við Þýskaland Hitlers“. mbl.is. 3. júní 2015. Sótt 18. mars 2025.
- ↑ „Kæra Kínverja til Alþjóðadómstólsins“. RÚV. 22. janúar 2013. Sótt 18. mars 2025.
- ↑ „Kínverjar eiga að virða úrskurð gerðardóms“. mbl.is. 14. júlí 2016. Sótt 18. mars 2025.
- ↑ Heimir Már Pétursson (31. júlí 2015). „Leiðtogaskipti á Filipseyjum“. Vísir. Sótt 18. mars 2025.
- ↑ Atli Ísleifsson (24. júní 2021). „Fyrrverandi forseti Filippseyja fallinn frá“. Vísir. Sótt 18. mars 2025.
- ↑ „Fyrrverandi forseti Filippseyja látinn“. mbl.is. 24. júní 2021. Sótt 18. mars 2025.
- ↑ „Philippines: l'ex-président Benigno Aquino décédé, deuil national“. 5minutes.rtl.lu (franska). Sótt 29 ágúst 2021..
Fyrirrennari: Gloria Macapagal-Arroyo |
|
Eftirmaður: Rodrigo Duterte |