Fara í innihald

Bayer-heiti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af stjörnuþyrpingunni Óríon með bókstafamerkingum.

Bayer-heiti er kerfi fyrir stjörnuheiti þar sem stjörnurgrískan eða latneskan bókstaf ásamt latnesku nafni stjörnumerkisins þar sem stjarnan birtist í eignarfalli. Þetta nafnakerfi var búið til af þýska stjörnufræðingnum Johann Bayer árið 1603 fyrir stjörunatlasinn Uranometria. Stjörnuskrá Bayers innihélt nánast aðeins stjörnur sem sýnilegar voru frá Þýskalandi, en síðari tíma stjörnufræðingar eins og Nicolas-Louis de Lacaille og Benjamin Apthorp Gould bættu við þeim stjörnum sem aðeins sjást á suðurhveli Jarðar.

Bayer notaðist við gríska stafrófið (α - alfa, β - beta, γ - gamma, o.s.frv.) og fékk þannig 24 stafi, en ef þeir dugðu ekki til bætti hann við stöfum úr latneska stafrófinu, frá A (með hástaf til að forðast rugling við gríska α) og síðan lágstafina b, c, d o.s.frv. að undanskildum j og v. Þannig fékk hann 24 stafi í viðbót. Dæmi um Bayer-stjörnuheiti er α Tauri (borið fram „alfa tárí“) sem er stjarnan Aldebaran í Nautsmerkinu (Taurus á latínu). Algengt er að stytta heiti stjörnumerkisins í þrjá stafi. Bayer-heiti Aldebaran verður þá „α Tau“.

Röð stafanna fer gróflega eftir birtustigi stjarnanna, þannig að α er sú stjarna sem virðist björtust í hverju stjörnumerki, en á tíma Bayers var engin leið að mæla birtustig stjarna með nákvæmum hætti. Bayer notaði sex birtuflokka, þar sem fyrsti flokkur voru björtustu stjörnurnar og sjötti flokkur þær dimmustu, og raðaði stöfunum eftir þessum flokkum. Af þeim 88 stjörnumerkjum sem þekkt eru í dag eru 30 þar sem alfastjarnan er ekki bjartasta stjarnan og fjögur þeirra eru ekki með neina alfastjörnu.

Þar sem Bayer notaði einn staf fyrir stjörnupör, eins og tvístirni sem virðast ein stjarna frá Jörðu séð, hafa stjörnufræðingar bætt við brjóstvísum til aðgreiningar. Dæmi um það eru stjörnurnar π1, π2, π3, π4, π5 og π6 Orionis.

  Þessi stjörnufræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.