Baník Karviná

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Baník Karviná, HCB Karviná eða HC Baník OKD Karviná er tékkneskt handknattleiksfélag frá borginni Karviná í tékkneska hluta Slésíu. Félagið er eitt það sigursælasta í tékkneskum handknattleik og var áður í hópi sterkari félagsliða í Tékkóslóvakíu.

Saga og titlar[breyta | breyta frumkóða]

Baník Karviná var stofnað árið 1955, fyrst sem drengjafélag í grunnskóla en jafnt og þétt fóru umsvif þess vaxandi. Liðið vann sér sæti í efstu deild í handknattleik karla í Tékkóslóvakíu og varð síðan meistari árið 1968 og skaut þar með Dukla Prag ref fyrir rass, en Dukla var eitt albesta handknattleikslið Evrópu og bar höfuð og herðar yfir samlanda sína á sjötta og sjöunda áratugnum. Árið 1972 hlaut Baník sinn annan Tékkóslóvakíumeistaratitil. Næstu áratugina var Baník Karviná í efstu deild og gerði nokkrum sinnum atlögu að titlinum, án árangurs.

Eftir að Tékkland og Slóvakía fóru hvort í sína áttina, fór hagur Baník Karviná að vænkast. Á árunum 2000 til 2010 varð liðið Tékklandsmeistari tíu sinnum, aðeins árið 2003 gekk meistaratignin því úr greipum. Yfirburðir Baník Karviná heimafyrir hafa þó ekki skilað sér í alþjóðlegum keppnum. Ástæðan er sú að sterkustu leikmenn Tékka leika undantekningarlítið utan heimalands síns og er styrkleiki tékkneskra félagsliða því ekki í samræmi við styrk tékkneska landsliðsins.

Baník Karviná heimsótti Ísland síðla árs 1965 í boði Knattspyrnufélagsins Fram og lék þá vígsluleik Laugardalshallar gegn úrvalsliði reykvískra handknattleiksmanna.