Fara í innihald

Bülent Ecevit

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bülent Ecevit
Ecevit árið 2000.
Forsætisráðherra Tyrklands
Í embætti
11. janúar 1999 – 18. nóvember 2002
ForsetiSüleyman Demirel
Ahmet Necdet Sezer
ForveriMesut Yılmaz
EftirmaðurAbdullah Gül
Í embætti
5. janúar 1978 – 12. nóvember 1979
ForsetiFahri Korutürk
ForveriSüleyman Demirel
EftirmaðurSüleyman Demirel
Í embætti
21. júní 1977 – 21. júlí 1977
ForsetiFahri Korutürk
ForveriSüleyman Demirel
EftirmaðurSüleyman Demirel
Í embætti
26. janúar 1974 – 17. nóvember 1974
ForsetiFahri Korutürk
ForveriNaim Talu
EftirmaðurSadi Irmak
Persónulegar upplýsingar
Fæddur28. maí 1925(1925-05-28)
Istanbúl, Tyrklandi
Látinn5. nóvember 2006 (81 árs) Ankara, Tyrklandi
ÞjóðerniTyrkneskur
StjórnmálaflokkurLýðræðislegi vinstriflokkurinn (1985–2006)
Lýðveldisflokkur alþýðunnar (1943–1980)
MakiRahşan Ecevit (g. 1946)
HáskóliRobert College
School of Oriental and African Studies
Undirskrift
GælunafnKaraoğlan, Halkçı Ecevit, Kıbrıs Fatihi

Mustafa Bülent Ecevit (28. maí 1925 – 5. nóvember 2006) var tyrkneskur stjórnmálamaður, skáld, rithöfundur, fræðimaður og blaðamaður.[1] Hann var fjórum sinnum forsætisráðherra Tyrklands frá 1974 til 2002; árin 1974, 1977, 1978–1979 og 1999–2002. Ecevit var formaður Lýðveldisflokks alþýðunnar (CHP) frá 1972 til 1980 og Lýðræðislega vinstriflokksins (DSP) frá árinu 1987.

Stjórnartímabil Ecevits einkenndust meðal annars af innrás Tyrkja á Kýpur árið 1974, upphafi aðildarviðræðna Tyrkja við Evrópusambandið og af handtöku kúrdíska uppreisnarforingjans Abdullah Öcalan árið 1999.

Bülent Ecevit hóf feril sinn sem blaðamaður og vann sem blaðafulltrúi hjá tyrkneska sendiráðinu í London stuttu eftir seinna stríð. Hann stundaði nám í Bandaríkjunum og ótti meðal annars tíma hjá Henry Kissinger. Ecevit var jafnframt ljóðskáld og þýddi ljóð eftir T. S. Eliot á tyrknesku.[2] Ecevit hafði lítinn áhuga á stjórnmálum fyrr en árið 1957, þegar hann var fenginn til að bjóða sig fram á þing fyrir Lýðveldisflokk alþýðunnar (CHP). Hann varð verkamálaráðherra í ríkisstjórnum İsmet İnönü frá 1961 til 1965 og var kjörinn ritari CHP árið 1971.[3]

Ecevit átti þátt í því að stefna CHP varð vinstrisinnaðri en hún hafði verið. Árið 1972 bauð Ecevit sig fram gegn İnönü í formannskjöri flokksins og vann sigur.[4]

Innrásin á Kýpur

[breyta | breyta frumkóða]

Ecevit leiddi Lýðveldisflokkinn til óvænts sigurs í þingkosningum Tyrklands árið 1973 og myndaði ríkisstjórn með Hjálpræðisflokknum, flokki íslamista, næsta ár. Stuttu eftir að Ecevit varð forsætisráðherra var forseta Kýpur, Makaríos 3., steypt af stóli í valdaráni kýpur-grískra herforingja sem vildu að Kýpur sameinaðist Grikklandi.[4]

Þann 20. júní 1974 skipaði Ecevit tyrkneska hernum að gera innrás á Kýpur til að verja hagsmuni Kýpur-Tyrkja á eynni. Innrásin bar þann árangur að Níkos Sampson, sem herforingjarnir höfðu sett á valdastól á Kýpur, var hrakinn frá völdum og herforingjastjórnin í Grikklandi hrundi. Tyrkir gerðu stuttu síðar vopnahlé með milligöngu Breta sem tryggði tyrkneska hernum fótfestu á eynni og yfirráð yfir hafnarbænum Kýreníu. Stjórn Ecevit hélt áfram að flytja tyrkneska hermenn til Kýpur eftir að vopnahléið var samþykkt. Í ágúst 1974 voru um 40.000 tyrkneskir hermenn staðsettir á eynni með um 300 skriðdreka.[2] Vegna innrásarinnar er Norður-Kýpur enn þann dag í dag aðskilið frá Kýpur.

Ecevit varð mjög vinsæll vegna framgöngu sinnar í Kýpurmálinu og var hylltur sem þjóðhetja í kjölfarið. Ágreiningsmál innan stjórnarinnar urðu honum hins vegar erfið. Necmettin Erbakan, leiðtogi Hjálpræðisflokksins, taldi sjálfan sig eiga mestan heiður af innrásinni á Kýpur þar sem hann hefði knúið Ecevit til að fyrirskipa hana, en að Ecevit hefði eignað sér hana eftir á.[5] Erbakan vildi að Kýpur yrði skipt í tvö ríki en Ecevit vildi að Kýpur yrði sambandsríki þar sem þjóðarbrotin hlytu aukna sjálfsstjórn.[2] Helmingur þingmanna Hjálpræðisflokksins snerist jafnframt gegn frumvarpi Ecevits um sakaruppgjöf fyrir vinstrisinnaða stjórnmálamenn sem höfðu verið handteknir á valdatíma tyrkneska hersins á sjöunda áratugnum. Að endingu sagði Ecevit af sér þann 18. september og efndi til nýrra kosninga.[6] Eftir kosningarnar tókst keppinauti Ecevit, Süleyman Demirel, að mynda fjögurra flokka ríkisstjórn.[4]

Valdaránið 1980 og pólitísk útlegð

[breyta | breyta frumkóða]

Ecevit og Demirel skiptust að mestu á því að fara með stjórn Tyrklands næstu árin, en hvorugum þeirra tókst að mynda traustar stjórnir. Veikburða samsteypu- og minnihlutastjórnir skiptust á að fara með völd og á sama tíma versnaði efnahagur Tyrklands til muna og hryðjuverkaógn í landinu færðist í aukana. Svo fór að árið 1980 framdi tyrkneski herinn undir forystu Kenans Evren valdarán gegn stjórn Demirels og bannaði starfsemi stjórnmálaflokka.[7] Bæði Ecevit og Demirel var jafnframt bannað að hafa afskipti af stjórnmálum í tíu ár.[8] Ecevit gagnrýndi herforingjastjórn Evrens opinskátt og var því ákærður og nokkrum sinnum fangelsaður og sakaður um tengsl við kommúnisma.[9]

Árið 1985 stofnaði Ecevit nýjan stjórnmálaflokk, Lýðræðislega vinstriflokkinn (DSP). Þar sem Ecevit sjálfum var enn bannað að taka þátt í stjórnmálum varð eiginkona hans, Rahşan, formaður flokksins í hans stað.[10] Árið 1987 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Tyrklandi um það hvort stjórnmálamönnum sem höfðu verið við völd fyrir herforingjabyltinguna, þar á meðal Ecevit og Demirel, skyldu færð full pólitísk réttindi á ný.[11] Meirihluti landsmanna kaus með því að veita þeim réttindin. Eftir að Ecevit fékk pólitísk réttindi sín tók hann við stjórn Lýðræðislega vinstriflokksins og var loks kjörinn aftur á þing árið 1991 eftir tíu ára fjarveru.[12]

Síðasta stjórnarseta Ecevit

[breyta | breyta frumkóða]

Í janúar 1999 var Ecevit skipaður forsætisráðherra til bráðabirgða fram að þingkosningum sem haldnar voru síðar það ár. Stuttu eftir að Ecevit tók við völdum á ný var kúrdíski uppreisnarforinginn Abdullah Öcalan, leiðtogi Verkalýðsflokks Kúrdistan (PKK), handtekinn í Keníu og framseldur til Tyrklands. Handtaka Öcalans jók mjög við vinsældir Ecevits en leiddi einnig til hryðjuverkaöldu af hálfu skæruliða PKK.[13] Flokkur Ecevits lenti í fyrsta sæti í þingkosningunum í apríl 1999 með um 22,1 prósent atkvæða.[14] Ecevit myndaði í kjölfarið ríkisstjórn með Þjóðernissinnaða framtaksflokknum og Föðurlandsflokknum.[15]

Síðasta tímabil Ecevits sem forsætisráðherra markaðist af ýmsum erfiðleikum. Árið 2001 hófst alvarleg efnahagskreppa í Tyrklandi sem margir landsmenn kenndu Ecevit um vegna deilna hans við Ahmet Necdet Sezer forseta. Ecevit brást við kreppunni með því að leyfa tyrknesku lírunni að falla á mörkuðum til að koma í veg fyrir alvarlegri kreppu og til að streitast gegn þrýstingi um að stokka upp í stjórn sinni.[16] Undir lok kjörtímabilsins voru uppi háværar kröfur um að Ecevit segði af sér vegna heilsuleysis þar sem hann var löngum stundum fjarverandi í læknismeðferð.[17] Í þingkosningum Tyrklands árið 2002 galt Lýðræðislegi vinstriflokkurinn afhroð og datt út af þingi en Réttlætis- og þróunarflokkurinn, nýr stjórnmálaflokkur íhaldssamra múslima, vann stórsigur.[18]

Ecevit lést þann 5. nóvember árið 2006. Um 80.000 manns fylgdu Ecevit til grafar þegar útför hans var haldin í Ankara. Margir viðstaddir hrópuðu slagorð til stuðnings áframhaldandi aðskilnaði ríkis og trúar í Tyrklandi, sem ríkisstjórn Receps Tayyip Erdoğan hafði verið vænd um að grafa undan.[19][20]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Dersim Kömünizmi“. Birgün (tyrkneska). Sótt 27 nóvember 2022. „Kastamonu'da Kürt Mustafa Bey olarak bilinen Bülent Ecevit'in dedesi ise 1847 Dersim olaylarında Çarakan boyundan Kastamonu'ya sürülmüş bir Dersimliydi.“
  2. 2,0 2,1 2,2 „Bulent Evecit: Óumdeildur leiðtogi Tyrkja“. Vísir. 1. ágúst 1974. bls. 6.
  3. „Maðurinn, sem stóð fyrir innrás Tyrkja á Kýpur“. Morgunblaðið. 17. september 1974. bls. 30.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Evecit: Skáld og ræðuskörungur“. Morgunblaðið. 8. júní 1977. bls. 14.
  5. „Demirel og Ecevit óttast Erbakan“. Tíminn. 25. maí 1977. bls. 9.
  6. Charles Holley (2. október 1974). „Tyrkir virðast ætla að sigra í Kýpurdeilunni“. Tíminn. bls. 9.
  7. Þórarinn Þórarinsson (16. september 1980). „Stjórnleysi var orðið algert í Tyrklandi“. Tíminn. bls. 6.
  8. „Hershöfðinginn sem stjórnar Tyrklandi“. Dagblaðið Vísir. 28. febrúar 1983. bls. 10.
  9. Þórarinn Þórarinsson (1. apríl 1982). „Bannar herinn flokk Ecevits?“. Tíminn. bls. 7.
  10. „Dreifðir kraftar jafnaðarmanna“. Alþýðublaðið. 4. júlí 1985. bls. 4.
  11. Jóhanna Kristjónsdóttir (6. september 1987). „Demirel talinn sigurstranglegur í umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu“. Morgunblaðið. bls. 22.
  12. „Stjórnarskipti í Tyrklandi“. Þjóðviljinn. 5. nóvember 1991. bls. 7.
  13. „Ecevit reynir að bjarga stjórninni“. Morgunblaðið. 17. mars 1999. bls. 22.
  14. „Ecevit og þjóðernissinnaðir hægrimenn sigruðu“. Morgunblaðið. 20. apríl 1999. bls. 26.
  15. „Erkifjendur sameinast í ríkisstjórn“. Morgunblaðið. 29. maí 1999. bls. 33.
  16. „Mikil reiði í garð forsætisráðherra“. Dagblaðið Vísir. 23. febrúar 2001. bls. 8.
  17. „Háværar kröfur í Tyrklandi um afsögn Ecevits“. Morgunblaðið. 8. júní 2002. bls. 28.
  18. „Stjórnin beið afhroð“. Fréttablaðið. 4. nóvember 2002. bls. 1.
  19. „Fjölmenni viðstatt jarðarför fyrrum forsætisráðherra Tyrklands“. mbl.is. 11. nóvember 2006. Sótt 13. apríl 2025.
  20. „Slagorð hrópuð að ríkisstjórninni“. Vísir. 11. nóvember 2006. Sótt 13. apríl 2025.


Fyrirrennari:
Naim Talu
Forsætisráðherra Tyrklands
(26. janúar 197417. nóvember 1974)
Eftirmaður:
Sadi Irmak
Fyrirrennari:
Süleyman Demirel
Forsætisráðherra Tyrklands
(21. júní 197721. júlí 1977)
Eftirmaður:
Süleyman Demirel
Fyrirrennari:
Süleyman Demirel
Forsætisráðherra Tyrklands
(5. janúar 197812. nóvember 1979)
Eftirmaður:
Süleyman Demirel
Fyrirrennari:
Mesut Yılmaz
Forsætisráðherra Tyrklands
(11. janúar 199918. nóvember 2002)
Eftirmaður:
Abdullah Gül