Fara í innihald

Búðir

Hnit: 64°49′15″N 23°23′11″V / 64.82071°N 23.38633°V / 64.82071; -23.38633
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Búðir
LandÍsland
SveitarfélagSnæfellsbær
Map
Hnit64°49′15″N 23°23′11″V / 64.82071°N 23.38633°V / 64.82071; -23.38633
breyta upplýsingum

Búðir eru vestast í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hraunhafnará fellur um Búðahraun og um Búðaósana í sjó fram. Þar hét áður Hraunhöfn. Þangað hafa kaupskip komið allt frá því er land byggðist og hófst verslun þar snemma. Verslunarsvæði Búða var allt sunnanvert Snæfellsnes og Mýrasýsla á einokunartímanum. Mikil útgerð var frá Búðum og hákarlaveiðar allt fram til 1933, en í dag er gert út á ferðamenn að sumarlagi og starfrækt þar hótel.

Búðakirkja

[breyta | breyta frumkóða]

Bendt Lauridsen í Hraunhöfn fékk árið 1701 leyfi frá Jóni biskupi Vídalín til að byggja kirkju að Búðum. Ekki fannst kirkjustæði og gömul kona sagði að taka ætti þrjár örvar og merkja eina, láta síðan mann snúa sér svo svimaði og lægi við yfirliði og skjóta öllum örvunum. Kirkjuna átti svo að reisa þar sem merkta örin lenti. Hún lenti í stórri hraunkvos sem var fyllt af sandi og kirkjan reist þar. Bendt greiddi kostnaðinn við upprunalegu torfkirkjuna að mestu, en með tilstyrk kaupmanna og skipara, og kirkjan var vígð 1703. Árið 1816 var Búðakirkja lögð niður með konungsbréfi. Guðmundur nokkur lét lengi reyna á að fá kirkjuna aftur en varð ekkert ágengt, og umleitunum var hætt um tíma eftir lát hans. Steinunn, ekkja Guðmundar, fór síðan að fá vitrun frá Bendt og hóf þá sjálf að vinna í að fá kirkjuna aftur.

Árið 1847 var gefin út afturköllun og birt á prestastefnu 1849 um að byggja mætti aftur kirkju á Búðum og bæri Búðamönnum að fjármagna hana að fullu og viðhalda. Steinunn hafði haldið vel utan um kirkjugripina, skrúða og annað. Á þessum tíma var aðeins messað þriðja hvern helgidag á sumri og sjötta hvern á vetri. Steinunn tók upprunalega hurðarhringinn sem á stóð „1703 Bendt Lauridsen og Marínar Jensdóttur Forær“ og lét letra á hann hinum megin „Kirkjan er endurreist ár 1848 án styrks þeirra andlegu feðra.“ Sá hringur er enn í hurðinni.

Árið 1951 var kirkjan endurbætt og rafmagn leitt í kirkjuna. Hún var síðan endurreist eftir upprunalegum teikningum frá Danmörku á árunum 1984–86, og vígð að nýju 6. september 1987.

Í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum

[breyta | breyta frumkóða]

Nokkur atriði úr þáttaröðinni Nonni og Manni voru tekin upp við kirkjuna. Árið 2013 kom kirkjan við sögu í kvikmyndinni Málmhaus.

  • Björn Hróarsson. Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og Menning. ISBN 9979-3-0853-2.
  • Árni Óla. Undir Jökli. Setberg.
  Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.