Ashraf Ghani
Ashraf Ghani | |
---|---|
Forseti Afganistans | |
Í embætti 29. september 2014 – 15. ágúst 2021 | |
Varaforseti | Fyrsti varaforseti: Abdul Rashid Dostum Amrullah Saleh Annar varaforseti: Sarwar Danish |
Forveri | Hamid Karzai |
Eftirmaður | Hibatullah Akhundzada (sem æðsti leiðtogi Afganistans) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 12. febrúar 1949 Logar, Afganistan |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn |
Maki | Rula Ghani |
Börn | 2 |
Háskóli | Bandaríski háskólinn í Beirút Columbia-háskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Ashraf Ghani Ahmadzai (f. 12. febrúar 1949) er afganskur hagfræðingur, mannfræðingur og stjórnmálamaður sem er fyrrum forseti Afganistans. Hann tók við embætti í september árið 2014 og hrökklaðist frá völdum þegar afganska höfuðborgin Kabúl féll í hendur Talíbana árið 2021.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Ashraf Ghani fæddist í sýslunni Logar í konungsríkinu Afganistan til fjölskyldu úr Ahmadzai-ættbálki pastúna.[1]
Eftir að hafa lokið grunnnámi í Kabúl fór Ghani til Líbanon árið 1973 til þess að nema við Bandaríska háskólann í Beirút. Þegar Ghani sneri aftur til Afganistans nam hann mannfræði frá 1974 til 1977 við háskólann í Kabúl.[1] Árið 1977 fór hann til Bandaríkjanna og gekk í Columbia-háskóla. Árið 1978 frömdu kommúnistar valdarán í Afganistan og Ghani gat því ekki snúið heim frá Bandaríkjunum. Árið 1983 útskrifaðist hann með doktorsgráðu í mannfræði frá Columbia-háskóla og gerðist kennari í Berkeley-háskóla og Johns Hopkins-háskóla.[2]
Árið 1991 var Ghani ráðinn til starfa hjá Alþjóðabankanum sem mannfræðingur til þess að rannsaka samfélagsafleiðingar efnahagshjálpar.[2]
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Eftir hryðjuverkin 11. september 2001 og fall talíbanastjórnarinnar í Afganistan í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna sneri Ghani heim til þess að taka þátt í enduruppbyggingu landsins. Hann vann meðal annars sem sérstakur ráðgjafi alsírska erindrekans Lakhdar Brahimi og síðan sem fulltrúi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í landinu. Ghani tók þátt í samningaviðræðum í Bonn í desember árið 2001 um að endurreisa fullveldi Afganistans. Hann gerðist síðan ráðgjafi Hamids Karzai og var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Karzai frá 2002 til 2004 eftir að Karzai var kjörinn forseti Afganistans. Ghani var rektor Háskólans í Kabúl frá 2004 til 2008. Hann gaf kost á sér í afgönsku forsetakosningunum árið 2009 en lenti í fjórða sæti með aðeins 2,94 % atkvæða.[2]
Ghani bauð sig aftur fram til forseta árið 2014 og lenti í öðru sæti í fyrri umferð kosninganna þann 5. apríl með 31,6 % atkvæða, á eftir Abdullah Abdullah, sem hlaut 45 % atkvæða. Þann 7. júlí fór önnur umferð kosninganna fram og kosninganefndin lýsti því yfir að Ghani hefði unnið sigur með 56,4 % atkvæða.[3] Ólíkt kosningaherferð sinni árið 2009 hafði Ghani í þetta sinn lagt áherslu á að komast í snertingu við afganskt þjóðerni sitt. Hann hafði meðal annars tekið aftur upp ættbálksnafnið Ahmadzai, látið sér vaxa skegg, klætt sig í hefðbundin afgönsk föt og gert bandalög við valdamikla héraðshöfðingja eins og úsbeska stríðsherrann Abdúl Rasjid Dostom, sem varð varaforseti Ghani eftir kosningarnar.[2][4] Abdullah Abdullah efaðist um lögmæti kosninganna og neitaði að viðurkenna ósigur, sem leiddi til stjórnarkreppu. Að endingu gerðu Ghani og Abdulla með sér samkomulag um að deila völdum svo að Abdullah varð ríkisstjórnarleiðtogi með titlinum „framkvæmdastjóri“.[5] Í desember árið 2016 gaf Ghani út forsetatilskipun þar sem Farkhunda Zahra Naderi var útnefnd helsti ráðgjafi hans.
Á forsetatíð Ghani varhagvöxtur Afganistans 3 % á ári en atvinnuleysi var haldið undir níu prósentum. Verðbólga hjaðnaði jafnframt úr rúmum 10 % árið 2014 í 0 árið 2018 ásamt því sem tekjuhalli hins opinbera var leiðréttur. Afganistan er þó enn eitt fátækasta ríki í heimi og vísitala um þróun lífsgæða er enn mjög lág í landinu.
Þann 21. apríl árið 2019 framlengdi hæstiréttur Afganistans kjörtímabil Ghani, sem hefði átt að ljúka þann 22. maí, fram að kosningum sem voru haldnar þann 28. september.[6] Kosningabaráttan fór fram í skugga þess að friðarviðræðum Bandaríkjamanna við Talíbana hafði verið slitið. Þann 17. september 2019 var gerð sprengjuárás á kosningafund Ghani þar sem að minnsta kosti 24 létust og 31 særðust.[7] Samkvæmt kosninganiðurstöðum sem birtar voru þann 22. desember náði Ghani endurkjöri með 50,64 prósentum atkvæða. Abdullah Abdullah, sem hlaut um fjörutíu prósent atkvæða, kærði úrslit kosninganna vegna gruns um kosningamisferli.[8] Þann 17. maí 2020 komust Ghani og Abdullah að samkomulagi um að deila áfram með sér völdum.[9]
Stjórn Ghani tapaði miklu landsvæði til Talíbana á mjög stuttum tíma eftir að Bandaríkjamenn hófu að draga herafla sinn frá Afganistan árið 2021.[10] Þann 15. ágúst höfðu Talíbanar umkringt Kabúl og viðræður voru hafnar um valdfærslu til þeirra frá stjórn Ghani.[11] Sama dag flúði Ghani frá landinu til Tadsíkistans.[12] Ghani hlaut síðan hæli í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.[13]
Eftir flótta Ghani frá landinu sökuðu starfsmenn afganska sendiráðsins í Tadsíkistan og talsmenn rússneska sendiráðsins í Kabúl hann um að hafa stolið andvirði um 169 milljóna Bandaríkjadala í reiðufé úr ríkiskassa Afganistans áður en hann fór.[14] Ghani þvertók fyrir þessar ásakanir í yfirlýsingu sem hann gaf út eftir að hann kom til Sameinuðu arabísku furstadæmanna.[15]
Fjölskylduhagir
[breyta | breyta frumkóða]Ghani er kvæntur kristinni líbanskri konu, Rulu Saade, sem hann kynntist á námsárum sínum í Líbanon.[2] Þau eiga tvö börn: Mariam og Tariq.
Bróðir Ashrafs Ghani, Hashmat Ghani Ahmadzai, er höfðingi Ahmadzai-ættbálksins og stórhöfðingi ráðs Kuchi-þjóðarbrotsins.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Ashraf Ghani | president of Afghanistan“ (enska). Encyclopedia Britannica. Sótt 25. júní 2019.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Adrien Jaulmes, « Le nouveau président afghan face au défi taliban », Le Figaro, 28. september 2014, bls. 11.
- ↑ « Ashraf Ghani probable vainqueur en Afghanistan », 7sur7.be 7. júlí 2014
- ↑ Emmanuel Derville, « Le nouveau président afghan tend la main aux talibans », Le Figaro, 30. september 2014, bls. 10.
- ↑ Stefán Gunnar Sveinsson (22. september 2014). „Stjórnarkreppunni lokið“. Sótt 25. september 2019.
- ↑ Rulers
- ↑ Samúel Karl Ólason (17. september 2019). „Sprengdi sig í loft upp á kosningafundi forsetans“. Vísir. Sótt 17. september 2019.
- ↑ Róbert Jóhannsson (22. desember 2019). „Ghani endurkjörinn - Abdullah kærir úrslitin“. RÚV. Sótt 23. desember 2019.
- ↑ Atli Ísleifsson (17. maí 2020). „Ghani og Abdullah ná loks samkomulagi um að deila völdum“. Vísir. Sótt 6. júní 2020.
- ↑ Árni Sæberg (2. ágúst 2021). „Forseti Afganistan kennir brottför Bandaríkjahers um versnandi ofbeldi“. Vísir. Sótt 15. ágúst 2021.
- ↑ „Yfirvöld í Kabúl gefast upp“. mbl.is. 15. ágúst 2021. Sótt 15. ágúst 2021.
- ↑ Þorvarður Pálsson (15. ágúst 2021). „Afganski forsetinn hefur yfirgefið landið“. Fréttablaðið. Sótt 15. ágúst 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (18. ágúst 2021). „Asraf Ghani dvelur í Abu Dhabi af mannúðarástæðum“. RÚV. Sótt 18. ágúst 2021.
- ↑ Alexander Kristjánsson (19. ágúst 2021). „Forseti Afganistan sakaður um að hafa stolið milljörðum“. RÚV. Sótt 24. ágúst 2021.
- ↑ Þorgrímur Kári Snævarr (19. ágúst 2021). „Ghani sakaður um að stela milljónum úr ríkiskassanum“. Fréttablaðið. Sótt 24. ágúst 2021.
Fyrirrennari: Hamid Karzai |
|
Eftirmaður: Amrullah Saleh (að nafninu til) |