António Costa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
António Costa
Forsætisráðherra Portúgals
Núverandi
Tók við embætti
26. nóvember 2015
ForsetiAníbal Cavaco Silva
Marcelo Rebelo de Sousa
ForveriPedro Passos Coelho
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. júlí 1961 (1961-07-17) (62 ára)
Lissabon, Portúgal
ÞjóðerniPortúgalskur
StjórnmálaflokkurSósíalistaflokkurinn
MakiFernanda Tadeu (g. 1987)
Börn2
HáskóliHáskólinn í Lissabon
Undirskrift

António Luis Santos da Costa (f. 17. júlí 1961) er portúgalskur stjórnmálamaður úr Sósíalistaflokknum sem er núverandi forsætisráðherra Portúgals.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Costa var kjörinn á héraðsþing Lissabon árið 1982 og gekk í Sósíalistaflokkinn árið 1986. Hann var kjörinn á portúgalska þingið árið 1991. Costa gekk fyrst í ríkisstjórn árið 1995 og varð þingmálaráðherra í stjórn António Guterres árið 1997. Hann varð síðan dómsmálaráðherra Portúgals árið 1999 og gegndi því embætti til ársins 2002, en þá töpuðu Sósíalistar þingkosningum og lentu í stjórnarandstöðu. Árið 2004 var Costa kjörinn á Evrópuþingið fyrir Flokk evrópskra sósíalista.

Þegar Sósíalistar komust aftur til valda í Portúgal árið 2005 varð Costa innanríkisráðherra. Hann sagði af sér árið 2007 svo hann gæti gefið kost á sér í borgarstjórnarkosningunum í Lissabon. Costa vann kosninguna og varð borgarstjóri höfuðborgarinnar frá og með 1. ágúst 2007. Hann vann endurkjör í borgarstjóraembættið árin 2009 og 2013, með auknum meirihluta í bæði skiptin.

Eftir lélegt fylgi Sósíalista í Evrópuþingskosningum ársins 2014 bauð Costa sig fram á móti sitjandi aðalritara Sósíalistaflokksins, António José Seguro, sem forsætisráðherraefni flokksins í næstu þingkosningum. Hann vann sigur með 68% atkvæða og Seguro sagði í kjölfarið af sér sem flokksleiðtogi. Costa var kjörinn til að taka við af honum með 96% atkvæða.[1]

Costa sagði af sér sem borgarstjóri Lissabon árið 2015 til þess að geta einbeitt sér að því að leiða kosningabaráttu Sósíalistaflokksins fyrir þingkosningar sama ár.[2] Í kosningunum lofaði Costa að draga úr aðhaldi í ríkisútgjöldum, fella niður óvinsælan virðisaukaskatt á veitingastaði og endurreisa nokkur gömul fríðindi fyrir opinbera starfsmenn.

Í kosningunum lentu Sósíalistar í öðru sæti og fengu 32,3% atkvæða. Sósíalistum tókst að mynda minnihlutastjórn með stuðningi portúgalska Kommúnistaflokksins og Græningjaflokksins.[3] António Costa var því útnefndur forsætisráðherra Portúgals þann 26. nóvember 2015.

Samkvæmt skoðanakönnunum hefur stuðningur Portúgala við Sósíalistaflokkinn aukist verulega á stjórnartíð Costa. Sósíalistarnir unnu mestu kosningasigra sögu sinnar í héraðskosningum árið 2017 og komust í 158 sveitarstjórnir af 308. Í þingkosningum árið 2019 unnu Sósíalistar sigur og urðu stærsti flokkurinn á portúgalska þinginu með um 36,65% atkvæða og 106 þingmenn.[4]

Í október 2021 höfnuðu vinstriflokkar á portúgalska þinginu fjárlagafrumvarpi stjórnar Costa[5] sem leiddi til þess að Marcelo Rebelo de Sousa forseti rauf þing og kallaði til nýrra þingkosninga í janúar næsta ár.[6] Þegar kosningarnar voru haldnar þann 30. janúar 2022 unnu Sósíalistar óvæntan stórsigur og náðu hreinum meirihluta á portúgalska þinginu.[7]

Costa sagði af sér þann 7. nóvember 2023 vegna lögreglurannsóknar á spillingu innan stjórnar hans sem tengdist samningum um vinnslu liþíums í norðurhluta Portúgals, byggingu vetnisframleiðslustöðvar og gagnavers í hafnarbænum Sines. Rannsóknin hafði leitt til handtöku starfsmannastjóra Costa, Vítors Escária, og fjögurra annarra manna, fyrr sama dag. Costa sagðist sjálfur ekki vera grunaður um að tengjast málinu.[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sara Antunes (23. nóvember 2014). „António Costa eleito secretário-geral do PS com 96% dos votos“ (portúgalska). Jornal de Negócios. Sótt 24. janúar 2019.
  2. Bruno Simões (1. apríl 2015). „Fernando Medina toma posse como presidente da Câmara de Lisboa a 6 de Abril“ (portúgalska). Jornal de Negócios. Sótt 24. janúar 2019.
  3. „António Costa quer pôr fim ao muro que separa PS e PCP desde 1975“ (portúgalska). Sapo. 13. október 2015. Sótt 24. janúar 2019.
  4. Ævar Örn Jósepsson (7. október 2019). „Stórsigur Sósíalista í Portúgal“. RÚV. Sótt 7. október 2019.
  5. Eiður Þór Árnason (28. október 2021). „Stefnir í þingrof í Portúgal“. Vísir. Sótt 10. nóvember 2021.
  6. Markús Þ. Þórhallsson (4. nóvember 2021). „Forseti Portúgals leysti upp þingið og boðar kosningar“. RÚV. Sótt 10. nóvember 2021.
  7. Markús Þ. Þórhallsson (31. janúar 2022). „Sósíalistar tryggðu sér meirihluta í þingkosningum“. RÚV. Sótt 31. janúar 2022.
  8. Atli Ísleifsson (7. nóvember 2023). „For­­sætis­ráð­herra Portúgals segir af sér vegna spillingar­máls“. Vísir. Sótt 7. nóvember 2023.


Fyrirrennari:
Pedro Passos Coelho
Forsætisráðherra Portúgals
(26. nóvember 2015 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti