António Costa
António Costa | |
---|---|
![]() | |
Forsætisráðherra Portúgals | |
Núverandi | |
Tók við embætti 26. nóvember 2015 | |
Forseti | Aníbal Cavaco Silva Marcelo Rebelo de Sousa |
Forveri | Pedro Passos Coelho |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 17. júlí 1961 Lissabon, Portúgal |
Þjóðerni | Portúgalskur |
Stjórnmálaflokkur | Sósíalistaflokkurinn |
Maki | Fernanda Tadeu (g. 1987) |
Börn | 2 |
Háskóli | Háskólinn í Lissabon |
Undirskrift | ![]() |
António Luis Santos da Costa (f. 17. júlí 1961) er portúgalskur stjórnmálamaður úr Sósíalistaflokknum sem er núverandi forsætisráðherra Portúgals.
Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]
Costa var kjörinn á héraðsþing Lissabon árið 1982 og gekk í Sósíalistaflokkinn árið 1986. Hann var kjörinn á portúgalska þingið árið 1991. Costa gekk fyrst í ríkisstjórn árið 1995 og varð þingmálaráðherra í stjórn António Guterres árið 1997. Hann varð síðan dómsmálaráðherra Portúgals árið 1999 og gegndi því embætti til ársins 2002, en þá töpuðu Sósíalistar þingkosningum og lentu í stjórnarandstöðu. Árið 2004 var Costa kjörinn á Evrópuþingið fyrir Flokk evrópskra sósíalista.
Þegar Sósíalistar komust aftur til valda í Portúgal árið 2005 varð Costa innanríkisráðherra. Hann sagði af sér árið 2007 svo hann gæti gefið kost á sér í borgarstjórnarkosningunum í Lissabon. Costa vann kosninguna og varð borgarstjóri höfuðborgarinnar frá og með 1. ágúst 2007. Hann vann endurkjör í borgarstjóraembættið árin 2009 og 2013, með auknum meirihluta í bæði skiptin.
Eftir lélegt fylgi Sósíalista í Evrópuþingskosningum ársins 2014 bauð Costa sig fram á móti sitjandi aðalritara Sósíalistaflokksins, António José Seguro, sem forsætisráðherraefni flokksins í næstu þingkosningum. Hann vann sigur með 68% atkvæða og Seguro sagði í kjölfarið af sér sem flokksleiðtogi. Costa var kjörinn til að taka við af honum með 96% atkvæða.[1]
Costa sagði af sér sem borgarstjóri Lissabon árið 2015 til þess að geta einbeitt sér að því að leiða kosningabaráttu Sósíalistaflokksins fyrir þingkosningar sama ár.[2] Í kosningunum lofaði Costa að draga úr aðhaldi í ríkisútgjöldum, fella niður óvinsælan virðisaukaskatt á veitingastaði og endurreisa nokkur gömul fríðindi fyrir opinbera starfsmenn.
Í kosningunum lentu Sósíalistar í öðru sæti og fengu 32,3% atkvæða. Sósíalistum tókst að mynda minnihlutastjórn með stuðningi portúgalska Kommúnistaflokksins og Græningjaflokksins.[3] António Costa var því útnefndur forsætisráðherra Portúgals þann 26. nóvember 2015.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur stuðningur Portúgala við Sósíalistaflokkinn aukist verulega á stjórnartíð Costa. Sósíalistarnir unnu mestu kosningasigra sögu sinnar í héraðskosningum árið 2017 og komust í 158 sveitarstjórnir af 308. Í þingkosningum árið 2019 unnu Sósíalistar sigur og urðu stærsti flokkurinn á portúgalska þinginu með um 36,65% atkvæða og 106 þingmenn.[4]
Í október 2021 höfnuðu vinstriflokkar á portúgalska þinginu fjárlagafrumvarpi stjórnar Costa[5] sem leiddi til þess að Marcelo Rebelo de Sousa forseti rauf þing og kallaði til nýrra þingkosninga í janúar næsta ár.[6] Þegar kosningarnar voru haldnar þann 30. janúar 2022 unnu Sósíalistar óvæntan stórsigur og náðu hreinum meirihluta á portúgalska þinginu.[7]
Costa sagði af sér þann 7. nóvember 2023 vegna lögreglurannsóknar á spillingu innan stjórnar hans sem tengdist samningum um vinnslu liþíums í norðurhluta Portúgals, byggingu vetnisframleiðslustöðvar og gagnavers í hafnarbænum Sines. Rannsóknin hafði leitt til handtöku starfsmannastjóra Costa, Vítors Escária, og fjögurra annarra manna, fyrr sama dag. Costa sagðist sjálfur ekki vera grunaður um að tengjast málinu.[8]
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ Sara Antunes (23. nóvember 2014). „António Costa eleito secretário-geral do PS com 96% dos votos“ (portúgalska). Jornal de Negócios. Sótt 24. janúar 2019.
- ↑ Bruno Simões (1. apríl 2015). „Fernando Medina toma posse como presidente da Câmara de Lisboa a 6 de Abril“ (portúgalska). Jornal de Negócios. Sótt 24. janúar 2019.
- ↑ „António Costa quer pôr fim ao muro que separa PS e PCP desde 1975“ (portúgalska). Sapo. 13. október 2015. Sótt 24. janúar 2019.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (7. október 2019). „Stórsigur Sósíalista í Portúgal“. RÚV. Sótt 7. október 2019.
- ↑ Eiður Þór Árnason (28. október 2021). „Stefnir í þingrof í Portúgal“. Vísir. Sótt 10. nóvember 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (4. nóvember 2021). „Forseti Portúgals leysti upp þingið og boðar kosningar“. RÚV. Sótt 10. nóvember 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (31. janúar 2022). „Sósíalistar tryggðu sér meirihluta í þingkosningum“. RÚV. Sótt 31. janúar 2022.
- ↑ Atli Ísleifsson (7. nóvember 2023). „Forsætisráðherra Portúgals segir af sér vegna spillingarmáls“. Vísir. Sótt 7. nóvember 2023.
Fyrirrennari: Pedro Passos Coelho |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |