Fara í innihald

Andry Rajoelina

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Andry Rajoelina
Andry Rajoelina árið 2024.
Forseti Madagaskar
Í embætti
19. janúar 2019  14. október 2025
ForsætisráðherraChristian Ntsay
Ruphin Zafisambo
ForveriHery Rajaonarimampianina
EftirmaðurMichael Randrianirina
Í embætti
17. mars 2009  25. janúar 2014
Forsætisráðherra
ForveriMarc Ravalomanana
EftirmaðurHery Rajaonarimampianina
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. maí 1974 (1974-05-30) (51 árs)
Antsirabe, Madagaskar
ÞjóðerniMadagaskur
StjórnmálaflokkurUngir einbeittir Malagasar
MakiMialy Razakandisa (g. 2000)
Börn3
Vefsíðaandry-rajoelina.org

Andry Nirina Rajoelina (f. 30. maí 1974) er madagaskur stjórnmálamaður og athafnamaður sem var áttundi forseti Madagaskar frá 2019 til 2025. Hann var áður forseti bráðabirgðastjórnar í landinu frá 2009 til 2014 í kjölfar stjórnmálakreppu og valdaráns hersins árið 2009. Þar áður var hann borgarstjóri Antananarívó í eitt ár. Áður en Rajoelina hóf þátttöku í stjórnmálum var hann virkur í einkageiranum, meðal annars hjá prent- og auglýsingafyrirtækinu Injet árið 1999 og útvarps- og sjónvarpsstöðinni Viva árið 2007.

Hann stofnaði stjórnmálaflokkinn Unga einbeitta Malagasa og var kjörinn borgarstjóri Antananarívó árið 2007. Í því embætti leiddi hann mótmælahreyfingu gegn þáverandi forseta landsins, Marc Ravalomanana, sem stuðlaði að stjórnmálakreppu árið 2009. Það ár útnefndi nefnd herforingja Rajoelina forseta bráðabirgðastjórnar. Meirihluti alþjóðasamfélagsins skilgreindi þessi stjórnarskipti sem valdarán.[1] Rajoelina leysti upp þing og færði völd þess til nýrra ríkisstofnana sem var falið að sjá um stjórnskipulagsbreytingar. Almenningur samþykkti nýja stjórnarskrá í umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu í nóvember árið 2010, sem lagði grunn að fjórða lýðveldi Madagaskar.

Rajoelina sat sem forseti bráðabirgðastjórnarinnar fram að forsetakosningum sem haldnar voru árið 2013 og lét af völdum árið 2014. Hann vann forsetakosningar Madagaskar árið 2018 og sneri aftur til valda 19. janúar 2019. Á kjörtímabilinu sá hann um viðbrögð stjórnvalda við Covid-19-faraldrinum, þar sem dreifði margvíslegri upplýsingaóreiðu og talaði fyrir skottulækningum gegn kórónuveirusýkinni. Í forsetatíð Rajoelina stýrði hann einnig viðbrögðum stjórnarinnar við matvælakreppu í landinu árið 2021 og fellibylnum Batsirai. Rajoelina var endurkjörinn forseti í kosningum árið 2023.

Í september 2025 brutust út meiriháttar mótmæli gegn stjórn Rajoelina vegna þráláts vatns- og orkuskorts sem leiddu til dauða rúmlega 20 manns. Rajoelina brást við með því að reka Christian Ntsay forsætisráðherra þann 29. nóvember 2025.[2][3] Hann hélt því fram, án þess að færa fram sönnunargögn, að tilteknir stjórnmálamenn væru að leggja á ráðin um að nýta sér mótmælin til að fremja valdarán á meðan hann var erlendis að ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.[4] Þann 12. október gaf skrifstofa forsetaembættisins út yfirlýsingu um að valdaránstilraun stæði yfir. Í yfirlýsingunni var þó jafnframt fullyrt að ríkisstjórnin hefði stjórn á málum.[5] Daginn eftir greindi þingmaður úr stjórnarandstöðunni hins vegar frá því að Rajoelina væri flúinn úr landi.[6] Rajoelina ávarpaði þjóðina síðar sama dag og tilkynnti að hann hefði flúið land af ótta um líf sitt en sagðist þó „ekki ætla að leyfa tortímingu Madagaskar“ og neitaði að segja af sér.[7][6] Eftir að Rajoelina reyndi að leysa upp þingið var hann kærður fyrir embættisglöp og sviptur embætti.[8] Herinn tilkynnti um leið að hann hefði tekið völdin í landinu.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Fanja Saholiarisoa (26. mars 2009). „Madagascar: island even more isolated after coup“. Csmonitor.com. Sótt 13. desember 2018.
  2. „Madagascar president sacks government over deadly protests“. Le Monde (enska). 29. september 2025. Sótt 30. september 2025.
  3. Kyekyeku, Kofi Oppong (30. september 2025). „Deadly youth-led protests force Madagascar's president to fire the prime minister and his government“. Face2Face Africa (enska). Sótt 30. september 2025.
  4. „Madagascar president refuses to step down as antigov't protests continue“. Al Jazeera (enska). 5 ágúst 2025. Sótt 12 október 2025.
  5. Awami, Sammy; Chothia, Farouk (12 október 2025). „Madagascar presidency says attempt to seize power under way“. BBC News. Sótt 12 október 2025.
  6. 1 2 Tétaud, Sarah; Imray, Gerald (13 október 2025). „Madagascar's president says he fled the country in fear for his life after military rebellion“. AP NEWS. Sótt 13 október 2025.
  7. Rabary, Lovasoa; Cocks, Tim; Paravicini, Giulia (13 október 2025). „Madagascar's president has left the country after Gen Z protests, officials say“. Reuters. Sótt 13 október 2025.
  8. „Madagascar's National Assembly votes to impeach president“. Channel News Asia. 14 október 2025. Sótt 14 október 2025.
  9. Rabary, Lovasoa; Cocks, Tim (14 október 2025). „Madagascar's military takes power, says colonel“. Reuters. Sótt 14 október 2025.


Fyrirrennari:
Marc Ravalomanana
Forseti Madagaskar
(17. mars 2009 – 25. janúar 2014)
Eftirmaður:
Hery Rajaonarimampianina
Fyrirrennari:
Hery Rajaonarimampianina
Forseti Madagaskar
(19. janúar 2019 – 14. október 2025)
Eftirmaður:
Michael Randrianirina


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.