Amerigo Vespucci (skólaskip)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Amerigo Vespucci (seglskip))
Amerigo Vespucci í höfninni í Osló 2005.

Amerigo Vespucci er hásiglt skólaskip í eigu ítalska flotans með heimahöfn í La Spezia á Ítalíu. Skipið var smíðað fyrir konunglega ítalska flotann og hleypt af stokkunum árið 1931. Systurskip þess, Cristoforo Colombo, var sjósett 1928. Hönnun skipanna byggðist á línuherskipum 18. aldar. Eftir Síðari heimsstyrjöld var Cristoforo Colombo afhent Sovétríkjunum sem stríðsskaðabætur. Það hætti siglingum skömmu síðar og eyðilagðist í eldi 1963.

Ef frá eru skilin ár síðari heimsstyrjaldar hefur Amerigo Vespucci verið notað sem skólaskip fyrir þjálfun kadetta frá upphafi til dagsins í dag. Skipið siglir aðallega við Evrópu en hefur tekist á hendur lengri ferðir til Ameríku og um Kyrrahafið. Árið 2002 fór það í hnattsiglingu. Skipið tekur oft þátt í skrúðsiglingum og siglingamótaröðinni Tall Ships' Races.

Amerigo Vespucci er 4146 tonna fullreiðaskip með þremur stálmöstrum og stálskrokk, 331 fet að lengd að meðtöldu bugspjótinu, og 51 fet á breidd. Möstrin eru 50, 54 og 43 metrar á hæð og heildarseglaflötur er 2824 fermetrar. Fullbúið ber skipið 26 segl. Við bestu aðstæður nær skipið 12 hnúta ferð undir seglum. Reiðabúnaður notast aðeins við hefðbundin hampreipi. Aðeins landfestar eru gerðar úr gerviefnum.

Skrokkurinn er svartur með tveimur hvítum línum sem eiga að minna á fallbyssuþilför línuherskipa fyrri alda. Skipið er hins vegar aðeins búið tveimur 6 punda kveðjufallbyssum. Stefni og skutur eru skreytt og skipið er með stafnlíkan með mynd landkönnuðarins Amerigo Vespucci.