Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík eða RIFF (skammstöfun á Reykjavík International Film Festival) er kvikmyndahátíð sem hefur verið haldin árlega í Reykjavík frá árinu 2004. Hátíðin stendur í ellefu daga og er sérstök áhersla lögð á unga kvikmyndagerðarmenn. Hefur hún skapað sér sérstöðu meðal annars með því að helsti keppnisflokkurinn (sem nefnist Vitranir) er einvörðungu opinn fyrstu eða annarri kvikmynd leikstjóra í fullri lengd. Hlýtur sá sem helst er talin hafa skarað fram úr meginverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann, en alþjóðleg dómnefnd velur vinningshafann. Einnig eru veitt fjöldamörg önnur verðlaun, svo sem verðlaun alþjóðlegra samtaka kvikmyndagagnrýnenda, FIPRESCI(en), en þau hafa sent dómnefnd á RIFF frá árinu 2006. Áhorfendur fá líka að kjósa sína uppáhaldsmynd af þeim sem í boði eru á hátíðinni. Þá eru veittar viðurkenningar fyrir ævistarf og framúrskarandi listfengi og hafa sumir helstu leikstjórar heims komið á hátíðina til að veita þeim viðtöku.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík var stofnuð árið 2004 af hópi fagfólks og áhugafólks um kvikmyndagerð og var markmiðið frá upphafi að viðburðurinn yrði árlegur. Ætlunin var að hátíðin myndi auðga kvikmyndamenningu landsins, en jafnframt að hún vekti alþjóðlega athygli og laðaði að sér fagfólk jafnt sem ferðamenn víðsvegar að úr heiminum.

Fyrsta hátíðin var haldin í nóvember árið 2004 og á dagskránni var málþing um hlutverk og mikilvægi kvikmyndahátíða í innlendu jafnt sem alþjóðlegu samhengi. Einnig voru sýndar kvikmyndir sem tengdust umræðunum eftir kvikmyndagerðarmenn sem starfa á Íslandi sem og erlendis.

Önnur hátíðin var haldin frá 29. september til 9. október árið 2005 og var talvert stærri í sniðum en sú fyrsta. Dimitri Eipides, sem einnig hefur starfað sem dagskrárstjóri á kvikmyndahátíðum í Montreal, Toronto og Þessalóniku, sá um kvikmyndadagskránna og hefur lagt hátíðinni lið æ síðan. Það var árið 2005 sem sá grunnur var lagður sem hátíðin byggir enn á og flestir þeir flokkar sem enn er stuðst við urðu til. Íranski leikstjórinn Abbas Kiarostami fékk heiðursverðlaun og var úrval mynda hans sýnt ásamt sýningu á ljósmyndum hans. Verðlaun fyrir „Uppgötvun ársins“ voru veitt í fyrsta sinn og féllu í skaut hinum rúmenska Cristi Puiu fyrir mynd hans The Death of Mr. Lazerescu. Yfir 70 myndir voru sýndar og 13.000 miðar seldir.

Árið 2006 hafði orðspor RIFF vaxið og margfalt fleiri erlendir gestir fóru að sækja hátíðina heim. Blaðamenn frá miðlum á borð við Variety, The Guardian og IndieWIRE voru viðstaddir og fluttu fréttir af hátíðinni og sagði einn blaðamaður að hún væri „eitt best geymda leyndarmálið í hinum alþjóðlega hátíðarheim.“ Dagskráin samanstóð nú af ríflega eitt hundrað myndum, meistaraspjöllum, málþingum og umræðufundum, og auk þess hafði tónleikahald bæst við. Grbavica eftir hina bosnísku Jasmilu Zbanic var valin Uppgötvun ársins og FIPRESCI verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á RIFF, en þau hlaut hin breska Andrea Arnold. Rússinn Aleksandr Sokurov fékk heiðursverðlaun fyrir ævistarf sitt og Atom Egoyan fyrir framúrskarandi listfengi. Áhorfendur voru nú yfir 15.000 talsins og í kjölfarið tók Sokurov upp mynd sína Faust að hluta til hér á landi.

Árið 2007 var RIFF haldin í fjórða sinn. Fjöldamargir kvikmyndagerðarmenn víðsvegar að voru viðstaddir. Meðal þeirra var finnski leikstjórinn Aki Kaurismäki, sem hlaut heiðursverðlaun er afhent voru af forseta Íslands. Ungverska kvikmyndin Iska‘s Journey eftir Csaba Bollók var valin Uppgötvun ársins og hlaut hann Gullna lundann, sem veittur var í fyrsta sinn. Bandaríski leikstjórinn Hal Hartley var formaður dómnefndar og afhenti hann verðlaunin. Hinn virti breski leikstjóri Peter Greenaway heimsótti hátíðina af þessu tilefni og hlaut heiðursverðlaun fyrir ævistarf sitt. Peter Schönau Fog fékk FIPRESCI verðlaunin fyrir frumraun sína er nefnist The Art of Crying og hann fékk jafnframt kvikmyndaverðlaun Þjóðkirkju Íslands fyrir sömu mynd, en þau voru hér veitt í annað sinn. Áhorfendaverðlaunin voru svo veitt kvikmyndinni Control eftir hinn hollenska Anton Corbijn, en hún fjallaði um ævi Joy Division söngvarans Ian Curtis. Amnesty International veitti heimildamyndinni El Ejido: The Law of Profit verðlaun og fjallaði hún um lífsbaráttu innflytjenda á suður Spáni.

Árið 2008 var RIFF haldin í fimmta sinn. Yfir 300 erlendir gestir voru viðstaddir og yfir 20.000 áhorfendur sáu kvikmyndir hátíðarinnar. Kvikmyndin Tulpan hlaut Gullna lundann, Home eftir Ursulu Meier fékk FIPRESCI verðlaunin og Snijeg eftir Aida Begic frá Bosníu fékk verðlaun Þjóðkirkju Íslands. Þá fékk Venkovský ucitel eftir Bohdan Sláma frá Tékklandi fékk verðlaun frá Samtökunum 78. Samtökin veittu einnig kanadísku myndinni She's a Boy I Knew eftir Gwen Haworth sérstök verðlaun. Electronica Reykjavík eftir Arnar Jónasson var valin besta myndin að dómi áhorfenda. Mikið var um sérviðburði á RIFF þetta árið. Í „Sound on Sight“ var fólk hvatt til að velta fyrir sér sambandinu milli tónlistar og kvikmynda. Mínus 25 smiðjan er ætluð upprennandi kvikmyndagerðarmönnum undir 25 ára aldri og fengu þeir meðal annars tækifæri til að setja tónlist við myndina The Crowd frá 1928. Stuttmyndahátíð fyrir grunnskólanema var haldin og leikskólabörn fengu einnig að taka þátt með því að gera stuttmyndir úr rafrænum ljósmyndum. Á svonefndu Talent Lab kom ungt fólk frá Evrópu og Norður-Ameríku saman og kynntist verkum hvors annars og bjó til ný.

Árið 2009 var RIFF haldin í sjötta sinn. Einn af helstu viðburðum var heimsókn hins heimsþekkta leikstjóra Milos Formann sem vakti mikla athygli. Haldinn var sérstakur blaðamannafundur, tímaritið Grapevine tók forsíðuviðtal við hann og Spaugstofan fjallaði um Milos Formann og bróðir hans Maó.

Árið 2010 var RIFF haldin í sjöunda sinn dagana 23. september til 3. október og heiðursgestur var bandaríski leikstjórinn Jim Jarmusch. Blaðamaðurinn Gerald Peary frá Boston Phoenix sagði að hátíðin væri „með eina bestu dagskrá nokkurrar kvikmyndahátíðar á jörðu hér og með suma af mest spennandi gestunum“ og Brian Brooks frá IndieWIRE sagði hana eina af sínum eftirlætishátíðum. Bandaríkjamaðurinn Mike Ott fékk áhorfendaverðlaun fyrir myndina Little Rock og Michelangelo Frammartino fékk bæði Gullna lundann og FIPRESCI verðlaun fyrir Le Quattro Volte.

Árið 2011 var áttunda hátíðin haldin frá 22. september til 2. október. Hátíðin sýndi sem fyrr íslenskar myndir og úrval erlendra er vakið höfðu athygli á hátíðum víða um heim, svo sem Alps eftir Yorgos Lanthimos og Faust eftir Alexandr Sokurov sem vann gullna ljónið í Feneyjum, en tilurð hennar mátti rekja til heimsóknarinnar á RIFF fjórum árum áður. Gullna lundann hlaut Angelina Nikonova fyrir Twilight Portrait. FIPRESCI verðlaunin hlaut Rúnar Rúnarsson fyrir mynd sína Eldfjall, en hún fékk einnig verðlaun Þjóðkirkjunnar. Umhverfisverðlaunin fékk Risteard O'Domhnaill fyrir myndina The Pipe. Béla Tarr fékk heiðursverðlaun fyrir ævistarf sitt og hin danska Lone Scherfig fékk verðalaun fyrir framúrskarandi listfengi. Börkur Sigþórsson fékk stuttmyndaverðlaun fyrir myndina Skaði. Þetta árið voru rúmenskar kvikmyndir í brennidepli, sérstök dagskrá var tileinkuð arabíska vorinu og boðið var upp á viðburði svo sem sundbíó og kvikmyndatónleika, strandpartí í anda Bollywood og Ævintýraland RIFF.

Árið 2012 var RIFF haldin í níunda sinn, frá 27. september til 7. október. Sérstök sýning var haldin í samvinnu við Nexus þar sem gestir voru hvattir til að mæta klæddir sem kvikmyndapersónur. Í partíi sem haldið var á eftir voru veitt verðlaun fyrir besta búninginn og féllu þau í skaut Hit Girl úr myndinni Jack-Ass. Hreyfimyndir voru sýndar í leikskólum, Hrafn Gunnlaugsson sýndi myndina Hrafninn flýgur heima hjá sér og sundbíóið sýndi og sannaði að það var orðið eitt af meginstoðum RIFF. Sérstakur fókus var á þýska kvikmyndagerð og komu góðir gestir af því tilefni. Hinn bandaríski Benh Zeitlin fékk Gullna lundann fyrir myndina Beasts of the Southern Wild og landi hans Sean Baker fékk FIPRESCI verðlaunin fyrir Starlet. Ítalinn Dario Argento fékk heiðursverðlaun fyrir ævistarf sitt og hélt opin umræðufund í Hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem fullt var út úr dyrum. Einnig var vel sóttur fundur með Marjanne Satrapi sem fékk nafnbótina “Upprennandi meistari kvikmyndalistarinnar.” Hin danska Susanne Bier fékk heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi listfengi, en áhorfendaverðlaun fékk opnunarmyndin Queen of Montreuil eftir Sólveigu Anspach. Þá fékk Meni Yaesh og mynd hans God's Neighbours kirkjuverðlaunin. Síðar um haustið var svo hátíðin RIFF í Róm haldin í fyrsta sinn, þar sem úrval íslenskra kvikmynda voru sýndar.

Árið 2013 fagnaði RIFF tíu ára afmæli sínu. Sýndar voru stuttmyndir á veitingastaðnum Borg þar sem réttir voru bornir fram á milli mynda, haldin var miðnætursýning á valinni hryllingsmynd og hið árlega sundbíó og Talent Lab smiðjan voru á sínum stað. Sérstök dagskrá var tileinkuð loftslagsbreytingum og voru umræðufundir og sérsýningar haldnar af því tilefni. Grískar kvikmyndir voru í brennidepli og leiddu grískir og íslenskir kvikmyndagerðarmenn saman hesta sína og ræddu þau áhrif sem efnahagshrunið hafði haft á kvikmyndagerð landana. Dómnefndir bæði Gullna lundans og FIPRESCI voru sammála að þessu sinni og hlaut ítalski leikstjórinn Uberto Pasolini verðlaun í báðum flokkum fyrir myndina Still Life. Stórleikstjórarnir Laurent Cantet frá Frakklandi og James Gray frá Bandaríkjunum báru saman bækur sínar á velsóttum umræðufundi í Tjarnarbíó, og hinn góðkunni Lukas Moodyson spjallaði við Jón Atla Jónasson á sama stað. Moodysson fékk jafnframt áhorfendaverðlaun fyrir myndina We Are the Best!, en Ritesh Batra fékk kirkjuverðlaunin fyrir myndina The Lunchbox.

RIFF snéri aftur árið 2014 með eina glæsilegustu hátíðina hingað til. Auk fastra liða var haldið bílabíó í Kópavogi þar sem færri komust að en vildu og pottabíó þar sem leikstjórar spjölluðu við gesti á sundfötunum. Sérstök áhersla var lögð á ítalska kvikmyndagerð og svo vildi til að myndin I Can Quit Whenever I Want To eftir hinn ítalska Sydney Sibilia hlaut Gullna lundann. Hin albanska Bota fékk bæði áhorfendaverðlaun og FIPRESCI verðlaunin. Heiðursverðlaun fékk Mike Leigh fyrir ævistarf sitt og var umræðufundur hans í Hátíðarsal Háskóla Íslands vel sóttur. Sérstök dagskrá var helguð viðfangsefninu stríði og frið, og meðal hápunkta var vel sóttur umræðufundur um ástandið í Úkraínu, finnskt stríðsmyndakvöld, og heimsókn ástralska rannsóknarblaðamannsins John Pilger. Þá var jafnframt dagskrá helguð Grænlandi og Færeyjum, en stutt útgáfa hátíðarinnar var haldin í Nuuk og Tórshavn seinna um haustið. Hluti hátíðarinnar átti sér stað í Kópavogi í fyrsta sinn, þar sem hljómsveitin Skálmöld spilaði undir við myndina Hrafninn flýgur í Salnum og leikstjórar og rithöfundar ræddu málin í bókasafni bæjarins. Þá var Svíinn Ruben Östlund sérstakur gestur og fylgdi mynd inni Force Majure úr hlaði með umræðufundi í Norræna húsinu og sérstakri dagskrá helgaðri myndum hans í Háskólabíó, en óhætt er að segja að hann hafi í kjölfarið slegið í gegn hér á landi.

Árið 2015 var RIFF haldin í tólfta sinn dagana 24. september til 4. október. Um það bil 32 þúsund manns sóttu hátíðina heim. Opnunarmyndin Tale of Tales fékk lofsamlega dóma og var aðeins hluti af magnaðri dagskrár þessa árs á borð við hellabíó og sundbíó. Eftirminnileg er frumsýning Baltasars Kormáks á fyrsta þætti Ófærðar sem síðar átti eftir að fara sigurför um heiminn. Alls voru sýndar yfir 100 kvikmyndir og 300 sýningar voru á hátíðinni. Sigurvegari hátíðarinnar þetta árið og handhafi Gullna lundans var íranski leikstjórinn Vahid Jalilvand fyrir mynd sína Miðvikudagurinn 9.maí. Kvikmyndin How to Change the World (CAN/GBR) eftir Jerry Rothwell hlaut síðan umhverfisverðlaunin í flokknum Önnur framtíð. Gullna eggið hlutu kanadísku leikstjórarnir Harry Cherniak og Dusty Mancinelli fyrir myndina Vetrarsálmar. Sérstakur fókus hátíðarinnar 2015 var á kvenréttindi og sjónarhorn kvenna. enda voru 100 ár frá kosningarétti kvenna á Íslandi.

Árið 2016 var þrettánda hátíðin haldin dagana 29. september til 10. október. Þema hátíðarinnar var Friður og það sást greinilega í því kvimyndavali þar árið. Sérstakir viðburðir voru einnig haldnir í tengslum við þemað. Gullni lundinn fór að þessu sinni til búlgarska leikstjórans Ralitza Petrova fyrir mynd hans Godless í flokknum Vitranir. Umhverfisverðlaun í flokknum Önnur framtíð fóru til Mike Day fyrir mynd hans Eyjarnar og hvalirnir. Það var svo Nanna Kristín Magnúsdóttir sem hreppti verðlaunin fyrir bestu íslensku stuttmyndina fyrir mynd sína Cubs og Home eftir Daniel Mulloy var valin besta erlenda stuttmyndin. Gullna eggið hlaut Max Barbakow fyrir myndina The Duke. Heiðursgestir hátíðarinnar voru engir aðrir en Darren Aronofsky og Deepa Mehta.

Fjórtánda hátíðin var haldin árið 2017 og var það enginn annar en Hlynur Pálmason sem opnaði hátíðina með mynd sinni Vetrarbræður. Hlynur átti síðar eftir að hljóta heimsathygli fyrir aðra mynd sína í fullri lengd, Hvítur, hvítur dagur sem frumsýnd var á Cannes 2019. Oliver Assayas og Werner Herzog voru heiðursgestir hátíðarinnar það árið. Sigurvegarar voru Chloé Zhao sem hlaut Gullna lundann fyrir The Rider, Roser Corella sem hlaut umhverfisverðlaunin fyrir mynd sína Grab and Run og Charlotte Scott-Wilson sem hlaut Gullna eggið fyrir mynd sína Hold on.

Það var Sergei Loznitsa sem opnaði RIFF hátíðina árið 2018 með mynd sinni Donbass. Sérstakur fókus var á Eystrasaltslöndin þetta árið og myndirnar sem sýndar voru vörpuðu ljósi sínu á aðstæður þeirra slóða. Vinningshafi Gullna lundans þetta árið var Yann Gonzalez fyrir mynd sína Hnífur + Hjarta, Nathalia Konchalov­sky hlaut Gullna eggið fyrir mynd sína Vesna og ERick Stoll og Chase Whieside unnu í flokknum Önnur framtíð fyrir mynd sína América.

RIFF verður haldin í 16 skipti 2019 dagana 26. september til 6.október. Sérstök áhersla verður lögð á málefni norðurslóða og munu Bransadagar hátíðarinnar vera hluti af því þema þar sem meðal annars verða sýnd verk í vinnslu og rætt um kvikmyndaformið sem leið til að miðla mikilvægum málefnum. Heiðursgestur hátíðarinnar verður Claire Denis.

Handhafar Gullna lundans[breyta | breyta frumkóða]

Ár Upprunalegur titill Íslenskur titill Leikstjóri Þjóðerni
2005 Moartea domnului Lazarescu Dauði Hr. Lazarescu Cristi Puiu  Rúmenía
2006 Grbavica Jasmila Žbanić  Bosnía og Hersegóvína
2007 Iszka utazása Ferð Isku Csaba Bollók  Ungverjaland
2008 Tulpan Sergey Dvortsevoy  Kasakstan
2009 J'ai tué ma mère Ég drap mömmu Xavier Dolan  Kanada
2010 Le quattro volte Fjögur skipti Michelangelo Frammartino  Ítalía
2011 Portret v sumerkakh Mynd í ljósaskiptum Angelina Nikonova  Rússland
2012 Beasts of the Southern Wild Skepnur suðursins villta Benh Zeitlin  Bandaríkin
2013 Still Life Kyrralífsmynd Uberto Pasolini  Ítalía
2014 Smetto quando voglio Ég get hætt þegar ég vil Sydney Sibilia  Ítalía
2015 Chaharshanbeh, 19 Ordibehesht Miðvikudagur 9. maí Vahid Jalilvand  Íran
2016 Bez­bog Guðleysi Ralitza Petrova  Búlgaría
2017 The Rider Kúrekinn Chloé Zhao  Bandaríkin
2018 Un couteau dans le coeur Hnífur í hjarta Yann Gonzalez  Frakkland
2019 Parwareshghah Munaðarleysingaheimilið Shahrbanoo Sadat  Íran
2020 This Is Not a Burial, It's a Resurrection Þetta er ekki jarðarför, þetta er upprisa Lemohang Jeremiah Mosese  Lesótó
2021 Selini, 66 erotiseis Tungl, 66 spurningar Jacqueline Lentzou  Grikkland/ Frakkland
2022 Rodéo Ótemj­ureið Lola Qui­voron  Frakkland
2023 Baan Leonor Teles  Portúgal

Verðlaun[breyta | breyta frumkóða]

Ár Dagsetningar Uppgötvun ársins

(Gullni lundinn)

Viðurkenning fyrir ævistarf Framúrskarandi listræn sýn Áhorfendaverðlaun FIPRESCI verðlaunin Veðlaun Þjóðkirkjunnar Upprennandi meistari
2004 Nóv 17 - nóv 25 N/A N/A N/A N/A N/A N/A N/A
2005 Sept 29 - okt 9 The Death of Mr. Lazarescu, Cristi Puiu Abbas Kiarostami N/A Howl's Moving Castle

Hayao Miyazaki

N/A N/A N/A
2006 Sept 28 - Okt 8 Grbavica,

Jasmila Žbanić

Alexander Sokurov Atom Egoyan We Shall Overcome

Niels Arden Oplev

Red Road

Andrea Arnold

Four Minutes

Chris Kraus

N/A
2007 Sept 27 - Okt 7 Iska's Journey,

Csaba Bollók

Hanna Schygulla N/A Control

Anton Corbijn

The Art of Crying

Peter Schønau Fog

The Art of Crying

Peter Schønau Fog

N/A
2008 Sept 25 - Okt 5 Tulpan,

Sergey Dvortsevoy

Costa-Gavras Shirin Neshat Electronica Reykjavík

Arnar Jónasson

Home,

Ursula Meier

Snow

Aida Begic

N/A
2009 Sept 17 - Sept 27 I killed my mother

Xavier Dolan

Miloš Forman N/A The gentlemen

Janus Bragi Jakobsson

The girl

Fredrik Edfeldt

Together

Matias Armand Jordal

N/A
2010 Sept 23 - Okt 3 Le quattro volte

Michelangelo Frammartino

Jim Jarmusch N/A Littlerock

Mike Ott

Le quattro volte

Michelangelo Frammartino

Morgen

Marian Crisan

N/A
2011 Sept 22 - Okt 2 Twilight Portrait

Angelina Nikonova

Béla Tarr Lone Scherfig Le Havre

Aki Kaurismäki

Volcano

Rúnar Rúnarsson

Volcano

Rúnar Rúnarsson

N/A
2012 Sept 27 - Okt 7 Beasts of the Southern Wild

Benh Zeitlin

Dario Argento Susanne Bier Queen of Montreuil

Sólveig Anspach

Starlet

Sean Baker

God's Neighbours

Meni Yaesh

Marjane Satrapi
2013 Sept 26 – Okt 6 Still Life

Umberto Pasolini

N/A Lukas Moodysson

Laurent Cantet James Gray

We are the Best

Lukas Moodysson

Still Life

Umberto Pasolini

Lunchbox

Ritesh Batra

N/A
2014 Sept 25 – Okt 5 Smetto quando voglio

Sydney Sibilia

Mike Leigh N/A Bota

Iris Elezi Thomas Logoreci

Bota

Iris Elezi Thomas Logoreci

Villa Touma

Suha Arraf

Ruben Östlund
2015 Sept 24- Okt 4 Wednesday 9th May

Vahid Jalilvand

David Cronenberg

Margarethe Von Trotta

N/A Cartel Land

Matthew Heineman

Krisha

Trey Edward Shults

N/A N/A
2016 Sept 29 - Okt 9 Godless

Ralitza Petrova

Deepa Mehta Darren Aronofsky N/A N/A N/A N/A
2017 Sept 28 - Okt 8 The Rider

Clohé Zaho

Werner Herzog N/A N/A N/A N/A Valeska Grisebach
2018 Sept 27 - Okt 7 Knife+Heart

Yann Gonzalez

Jonas Mekas Mads Mikkelsen N/A N/A N/A N/A

[1].

Ár Dagsetningar Uppgötvun ársins

(Gullni lundinn)

Besta íslenska stuttmyndin Önnur framtíð Besta alþjóðlega stuttmyndin Gullna eggið Besta íslenska nemenda-stuttmyndin
2019 26. sept. - 6. okt. Munaðarleysingaheimilið eftir Shahrbanoo Sadat Blaðberinn eftir Ninnu Pálmadóttur Midnight Traveler eftir Hassan Fazili Invisível Herói eftir Cristéle Alves Meira Muero por volver eftirJavier Marco Ekki veitt
2020 24. sept - 4. okt. Þetta er ekki jarðarför, þetta er upprisa eftir Lemohang Jeremiah Mosese Já fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson Songs of Repression eftir Estephan Wagner og Marianne Hougen-Moraga Drifting eftir Hanxiong Bo Ekki veitt Raunir Bellu eftir Andra Má Enoksson og Anna Knight
2021 30. sept. - 10. okt. Tungl, 66 spurningar eftir Jacqueline Lentzou Frjálsir menn eftir Óskar Kristin Vignisson Zinder eftir Aïcha Macky Chute eftir Nora Longatti Ekki veitt Eftirsjón eftir Björn Rúnarsson
2022 29. sept. - 9. okt. Ótemj­ureið eftir Lola Quivoron Chasing Birds eftir Unu Lorenzen A Marble Travelogue eftir Sean Wang Exalted Mars eftir Jean Sebastien Chauvin Send the Rain eftir Haley Gray The Paladins eftir Elínu Pálsdóttur
2023 28. sept - 8. okt. Baan eftir Leonor Teles Bókaskipti (Síðsumar í Reykjavík) eftir Berg Árnason Orlando, My Political Biography Been There eftir Corina Schwingruber This Ours by Simon London Make a Wish, Benóný! eftir Kötlu Sólnes


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Saga RIFF“. Sótt 17. september 2010.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimasíða RIFF

  Þessi kvikmyndagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.