Almenn félagasamtök

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Almenn félög)

Almenn félagasamtök (Frjáls félagasamtök eða almenn félög) eru ólík skipulagsbundin félagasamtök með sjálfstæðan rekstur, frjálsa félagsaðild, sjálfboðaliða og markmið byggð á ákveðinni hugmyndafræði sem er óháð hagnaði.[1]


Skilgreining[breyta | breyta frumkóða]

Merki Vöku – félags lýðræðissinnaðra stúdenta, en þau er dæmi um frjáls félagasamtök.
Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta eru frjáls félagasamtök nemenda við Háskóla Íslands.

Almenn félög eru varanleg skipulagsbundin samtök tveggja eða fleiri aðila, sem stofnað er til af fúsum og frjálsum vilja með einkaréttarlegum löggerningi í því skyni að vinna að ófjárhagslegum tilgangi. Ef rekstur þeirra kemur út í hagnaði þrátt fyrir að vera ekki rekinn í hagnaðarskyni, rennur hann til starfseminnar en er ekki dreift til félagsmanna eða annarra.

Á Íslandi verða almenn félög lögaðilar þegar þau hafa verið stofnuð og er skráning ekki skilyrði fyrir rétthæfi þeirra. Hægt er fá slík félög skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra skv. lögum nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá en þau eru ekki skráningarskyld. Sem dæmi um almenn félög sem hafa fengið slíka skráningu eru stjórnmálaflokkar, íþróttafélög, skákfélög, fagfélög, stéttarfélög, samtök vinnuveitenda, mannúðarfélög og menningarfélög.[2]

Ólíkar skilgreiningar eru til um almenn félagasamtök. Þau tilheyra svokölluðum „þriðja geira“, það er félög og stofnanir sem starfa í almannaþágu án hagnaðarsjónarmiða og tilheyra hvorki opinberum rekstri né einkarekstri. Starfsemi þriðja geirans er þannig einkarekin en snýst um að skapa vörur eða þjónustu sem teljast til almannagæða. Með því er átt við félög og stofnanir sem starfa í almannaþágu án hagnaðarsjónarmiða og tilheyra hvorki opinberum rekstri né einkarekstri.[3]

Flokkunarkerfi SÞ[breyta | breyta frumkóða]

Merki Öryrkjabandalags Íslands, en þau er dæmi um frjáls félagasamtök á Íslandi.
Öryrkjabandalag Íslands eru dæmi um frjáls félagasamtök á Íslandi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa flokkað hagnaðarlaus félög samkvæmt svoköllum ICNPO staðli. Samkvæmt honum er starfsemi innan þriðja geirans flokkuð í menningar- og listastarfsemi, menntastofnanir, rannsókna- og þróunarstarfsemi, heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu, húsnæðisfélög, og góðgerðasamtök og líknarfélög. ICNPO flokkunin er síðan greind niður og gefin ólík númerum.[4]

Samkvæmt þessu alþjóðlega skilgreiningakerfi (ICNPO: International Classification of Nonprofit Organization) sem þróað var af John Hopkins Center for Civil Society Studies, þarf starfsemi að innihalda eftirfarandi fimm skilyrði:[5]

  1. Hafa eitthvert formlegt skipulag, svo sem formlegar eða ófomlegar reglur sem skilgreina markmið, verkefni og framlag.
  2. Vera sjálfstæð að meginstefnu til í eigin málum.
  3. Hafa ekki hagnað að markmiði. Ef hagnaður myndast er honum ekki dreift til hluthafa, félaga, starfsmanna eða eigenda, heldur rennur til starfseminnar.
  4. Vera rekin fyrir utan hið opinbera (ríki eða sveitarfélög). Hún er til dæmis ekki hluti af einhverri opinberri stofnun.
  5. Starfsemin er sjálfboðin, það er byggir á frjálsri félagsaðild og er að einhverju leyti byggð á sjálfboðastarfi og fjárhagslegum framlögum einstaklinga.

Sem dæmi um þessa flokkun eftir ICNPO staðlinum voru á Íslandi árið 2006, 290 félög í flokknum „önnur heilbrigðisþjónusta“ (ICNPO 3400). Undir það falla félög öryrkja, aldraðra eða sjúklinga af ýmsu tagi. Þá eru samtök á borð við AA-samtökin, félög eldri borgara, blindrafélög, Geðhjálp o.s.frv. Þannig eru yfir 90 deildir AA-samtaka og yfir 20 krabbameinsfélög. Samkvæmt ICNPO 12100, voru í landinu eru 249 kvenfélag og 233 félög á sviði þróunar- og umbótastarfssemi á sviði atvinnulífs, félagsmála og nærsamfélaga (ICNPO 6100). Í skólum landsins voru 226 nemendafélög (ICNPO 11300) og 260 hjálparsamtök og björgunarsveitir (ICNPO 8200). [6]

Almannaheill[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi hafa félög sem tilheyra „þriðja geiranum“ með sér frjáls félagasamtök sem nefnast „Almannaheill – samtök þriðja geirans”. Þau voru stofnuð sumarið 2008 til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa í almannaþágu, vinna að sem hagfelldustu starfsumhverfi fyrir þessa aðila, styrkja ímynd þeirra, efla stöðu hans í samfélaginu og koma fram fyrir hönd þriðja geirans gagnvart opinberum aðilum og fjölmiðlum. Ennfremur vinna samtökin að því að heildarlöggjöf verði sett um starfsemi frjálsra félagasamtaka, að bæta skattalega stöðu þeirra, og að auka sýnileika þriðja geirans í þjóðfélaginu.[7]

Alþjóðleg félagasamtök[breyta | breyta frumkóða]

Merki Amnesty International, en mannréttindasamtökin eru dæmi um alþjóðleg félagasamtök sem starfa þvert á landamæri.
Amnesty International eru dæmi um frjáls félagasamtök sem starfa þvert á landamæri.

Alþjóðleg félagasamtök (e. „international non-governmental organization (NGO)“) eru félagasamtök með sjálfstæðan rekstur, frjálsa félagsaðild, sjálfboðaliða og markmið byggð á ákveðinni hugmyndafræði sem er óháð hagnaði og starfa þvert á landamæri. Dæmi um slík félagasamtök” eru Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Á Íslandi gilda sérstök lög á Íslandi um félög til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri. Þau eru skráningarskyld samkvæmt lögum nr. 119/2019. [8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. „Íðorðabankinn: Tómstundafræði“. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt 7. mars 2021.
  2. Skatturinn - Ríkisskattstjóri. „Almenn félagasamtök. Fyrirtækjaskrá“. Ríkisskattstjóri. Sótt 7. mars 2021.
  3. Guðmundur Magnússon (9. maí 2019). „Morgunblaðið: Aukinn áhugi á þriðja geiranum“ (PDF). Morgunblaðið/ Árvakur. Sótt 7. mars 2021.
  4. Ívar Jónsson. „Félagaskrá flokkuð eftir ICNPO-staðli“ (PDF). Sótt 7. mars 2021.
  5. Steinunn Hrafnsdóttir (2003). „RANNSÓKNIR Í FÉLAGSVÍSINDUM IV: Tengsl sjálfboðasamtaka og opinberra aðila í velferðarþjónustu“ (PDF). Háskólaútgáfan. bls. 237. Sótt 7. mars 2021.
  6. Ívar Jónsson (2006). Félagshagkerfið á Íslandi“. Háskólinn á Bifröst. bls. 14-15. Sótt 7. mars 2021.
  7. Almannaheill – samtök þriðja geirans. „Almannaheill“. Sótt 7. mars 2021.
  8. Alþingi (9. október 2019). „Lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri 2019 nr. 119“. Alþingi. Sótt 7. mars 2021.