Fara í innihald

Alþjóðlegur dagur hvíta stafsins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af alþjóðlega viðurkenndu merki fyrir blindu eða sjónskerðingu.
Alþjóðlegt merki fyrir blindu eða sjónskerðingu.
Mynd af hinum langa hvíta staf sem er tákn blindra og sjónskertra.
Hvíti stafurinn er tákn blindra og sjónskertra.

Alþjóðlegur dagur hvíta stafsins er haldinn árlega 15. október víða um heim. Þennan dag nota blindir og sjónskertir til að kynna málefni sín og vekja athygli á hvíta stafnum sem er helsta hjálpartæki blindra og sjónskertra við að komast leiðar sinnar. Hann er forgangsmerki þeirra í umferðinni og tákn þeirra.[1][2]

Hugmyndin um að hinum hvíta staf sem verndar- og auðkenningartákni blinds fólks var sett fram af Guilly d'Herbemont (1888 –1980) árið 1930 í París. Ári síðar afhenti hún fyrstu hvítu stafina að viðstöddum nokkrum ráðherrum og fulltrúum samtaka blindra.[3] Hvíti stafurinn varð síðan opinberlega viðurkenndur sem vernd og auðkenning fyrir blinda einstaklinga. Sú viðurkenning hvíta stafsins breiddist síðan út um heiminn.

Hvíti stafurinn var formlega samþykktur í Bandríkjunum árið 1964 með sameiginlegri ályktun Bandaríkjaþings, sem heimilaði forseta Bandaríkjanna að lýsa yfir 15. október ár hvert sem „dag hvíta stafsins“. Dagurinn var árið 2011 einnig útnefndur sem jafnréttisdagur blindra Bandaríkjamanna.[4]

Hvað er hvíti stafurinn?

[breyta | breyta frumkóða]

Hvíti stafurinn stendur fyrir þrennt:[5]

  • Hann er mikilvægt hjálpartæki sem notað er til að afla upplýsinga í umhverfinu sem ferðast er um.
  • Hann minnir sjáandi vegfarendur á að notandi hvíta stafsins er sjónskertur og upplifir því umhverfið og umferðina ekki á sama hátt og hinn sjáandi vegfarandi.
  • Hann er hjálpartæki sem getur aðstoðað blinda og sjónskerta mikið og aukið sjálfstæði þeirra og öryggi við að komast leiðar sinnar.

Þrjár gerðir stafa

[breyta | breyta frumkóða]

Aðallega er um að ræða þrjár gerðir stafa fyrir blinda og sjónskerta:[6]

Þreifistafur er hefðbundinn hvítur stafur sem notaður er í umferð. Hann er langur og oftast samanbrjótanlegur. Honum er haldið haldið á göngu fyrir framan vegfarandann til að upplýsa um hugsanlegar hindranir eða misfellur í veginum eða til að fullvissa notandann um að leiðin sé greið. Hann er einnig notaður til að finna hluti og kennileiti og hjálpar þannig notendanum við að staðsetja sig.

Merkistafur er stuttur og samanbrjótanlegur stafur sem er merki til umhverfisins um að notandinn sé sjónskertur. Stafinn er hægt að nota til að þreifa á og finna hluti í umhverfinu.

Göngustafur er stafur sem hægt er að stilla lengdina á. Hann er notaður til stuðnings og til að halda betur jafnvægi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Blindrafélagið (15. október 2018). „Dagur Hvíta stafsins 15 október“. Blindrafélagið. Sótt 26. mars 2021.
  2. Blindrasýn— Fréttablað blindra og sjónskertra (15. október 2000). „Hvíti stafurinn tákn blindra og sjónskertra“. Morgunblaðið - Morgunblaðið - Blindrasýn - auglýsing (15.10.2000). bls. 1-20. Sótt 26. mars 2021.
  3. Claude Bailly (Apríl 1990). „Guilly d'Herbemont - Beginnings of the white cane“. "Les AUXILIAIRES des AVEUGLES". Sótt 26. mars 2021.
  4. Days of the year (2021). „White Cane Safety Day“. Days of the year- 2021. Sótt 26. mars 2021.
  5. Blindrafélagið (15. október 2018). „Dagur Hvíta stafsins 15 október“. Blindrafélagið. Sótt 26. mars 2021.
  6. Blindrafélagið (15. október 2018). „Dagur Hvíta stafsins 15 október“. Blindrafélagið. Sótt 26. mars 2021.